03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Með lögum frá síðasta Alþ. var stigið merkt framfaraspor með því að ákveða, að það skyldi koma menntaskóli á Ísafirði, og mér finnst sérstök ástæða til þess að fagna því. Það er líka sérstök ástæða til þess að fagna þeirri uppbyggingu, sem hefur verið á undanförnum árum á Vestfjörðum í skólamálum, og á ég þá sérstaklega við uppbyggingu Núpsskóla og Reykjanesskóla. Vil ég færa hæstv. menntmrh. og ríkisstj. sérstakar þakkir fyrir þann mikla skilning og mikla áhuga, sem sýndur hefur verið í þessum málum.

Það er hér rætt um, hver hraði verði á því að byggja menntaskóla á Ísafirði. Það er augljóst mál, að það er mikil ástæða til þess að hraða því máli, svo sem kostur er, út frá því almenna sjónarmiði, að það er þörf á því að fjölga menntaskólunum í landinu. En menntaskóli á Ísafirði er líka þýðingarmikill frá öðru sjónarmiði. Nú er verið að vinna að sérstakri framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði. Það er verið að gera það samkv. ákvörðun Alþ., vegna þess að það er litið svo á, að það þurfi að gripa til sérstakra og gagngerðra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir brottflutning fólks frá Vestfjörðum. Einum hluta þessarar áætlunar er þegar lokið. Það er framkvæmdaáætlun í samgöngumálum Vestfjarða, og það er þegar farið að vinna að framkvæmd þeirrar áætlunar. Það er gert bæði með fjárframlögum af hálfu ríkisins og með sérstöku lánsfé, sem til þeirra framkvæmda er fengið. Það er fengið sérstakt lánsfé til þessara framkvæmda, vegna þess að hér er um svo mikil og sérstök verkefni að ræða, sem þarf að leysa á svo skömmum tíma, að það þykir nauðsynlegt og eðlilegt að afla sérstaks lánsfjármagns til þess.

En þetta er aðeins einn hluti Vestfjarðaáætlunarinnar. Aðrir hlutar eru eftir. Það er eftir að ljúka áætluninni að því er varðar atvinnumál, félagsmál og menningar- og skólamál. En það er eins með þessi mál og samgöngumálin, að á þessu sviði er þörf mikilla aðgerða á skömmum tíma á Vestfjörðum. Af því leiðir, virðist mér, að það komi fyllilega til álita, ef það er ekki nauðsynlegt, að taka sérstakt lán til þessara framkvæmda, með hvaða hætti sem það kann að vera gert, hvort það verður gert hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, sem ég tel að geti komið til greina, eða með öðrum hætti. En ég tel, og því er ég að minnast á þetta mál í þessum umr., að það eigi að lita ú menntaskólamálið á Ísafirði sem einn þátt í Vestfjarðaáætluninni.

Mér er ekki kunnugt um annað en að þar sem hafa verið gerðar áætlanir með svipuðum hætti og í svipuðum tilgangi og Vestfjarðaáætlunin, séu sérstaklega tekin til meðferðar og skipi veigamikinn sess í slíkum áætlunum einmitt skólamálin. Og að mínu viti verður að gera það einnig á Vestfjörðum. Það verður að efla aðstöðuna á sviði skólamálanna á Vestfjörðum með sérstökum aðgerðum og með skjótum hætti. Það kemur ýmislegt þar til greina. Ég læt mér til hugar koma t.d., að það þurfi að athuga mjög gaumgæfilega, hvort þar ætti að koma á fót — (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) ég er að ljúka máli mínu, — verkstæðisskólum eða fiskiðnaðarskólum, en ekki sízt á þar menntaskóli að koma til greina. Þetta vildi ég að kæmi fram hér í þessum umr., og ég treysti vel hæstv. menntmrh. og ríkisstj. til þess að athuga þetta mál einnig frá þessu sjónarmiði með það fyrir augum, að það dragist ekki, að framkvæmdir verði hafnar í menntaskólamálinu á Ísafirði.