03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Nú þykir mér nóg komið af þakkarávörpum og ætla því ekkí að bæta því fimmta við og vona nú, að hæstv. ríkisstj. sé ánægð með þau fjögur, sem hún hefur fengið á þessum fáu mínútum.

Gott var það, að Alþ. samþykkti frv. um menntaskólabyggingu á Ísafirði, eftir að frumvörp um það höfðu verið borin fram á Alþ. allt frá 1947. Eftir hart nær tveggja áratuga baráttu fyrir málinu gat Alþ. fallizt á það. En næst þegar fjárlög koma fram, eru 800 þús. kr. ætlaðar til byggingar menntaskóla á Vestfjörðum, en tugir millj. settir í menntaskóla annars staðar, svo að jafnvægið milli þess, sem gert er fyrir landsbyggðina í menntaskólamálum, og þess, sem gert er í Reykjavík með þrjá menntaskóla fyrir, er ekki á marga fiska og ekki margra þakkarávarpa vert, það verð ég að segja. Allra sízt finnst mér þessi fundur vera til þess fallinn að flytja þakkarávörp um framkvæmdir í menntaskólamálum Vestfirðinga, þegar uppistaðan og undirstaðan að þessum umr. eru orð sjálfs fjmrh. um það, að ekki komi til mála að sinna byggingu menntaskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum, fyrr en búið sé að koma öðrum menntaskólamálum landsins í sómasamlegt horf, og þá fáum við lesna skýrslu um, að það eigi að sinna málum menntaskólans í Reykjavík betur, hins nýja skóla í Hamrahlíðinni, það eigi að verja í hann tugum millj., það eigi að tvöfalda menntaskólann að Laugarvatni og það eigi yfirleitt allt að gera í menntaskólamálum, áður en komi að þessu. Þá flytja menn þakkarávörp, standast ekki mátið, spretta upp hver á fætur öðrum, þegar einmitt allar líkur benda til þess, að frv., sem samþ. var í fyrra um menntaskóla á Vestfjörðum, eigi að vera dúsa fyrir Vestfirðinga. Ég vona, að það verði ekki reynt til þess að hafa það sem dúsu. Ég vil vona í lengstu lög, að það megi marka þau orð hæstv. menntmrh., að það sé ætlunin að ganga að þessu verki með skörungsskap, hefja framkvæmdir sem fyrst og láta þær ganga sem bezt, eins og hann endaði sína loforðaræðu áðan. (Forsrh.: Þetta er nú orðið þakkarávarp líka.) Ja, það er dálítið í öðrum tón en hin þakkarávörpin í gylltu sniðunum, sem voru flutt hér áðan. Ég sagði ekki heldur, að ég ætlaði eingöngu að lýsa mínu vanþakklæti.

Það er gott, ef menn finna eitthvað til að gleðjast yfir í mínum orðum. Það var ekki mín ætlun að fara að hárreyta neinn eða skaprauna meira en efni stæðu til. En ég ætlaði eiginlega ekkert að tala um þetta mál, ég er búinn að tala svo oft um menntaskólamál Vestfirðinga, en það setti að mér ugg við að heyra þessi orð fjmrh. í hans framsöguræðu, það verð ég að segja. Og ég hygg, að það hafi farið um fleiri, meira að segja einhverja af þeim, sem þakkarávörp hafa flutt hér í dag eða heyrðu.

En það, sem kom mér til þess að standa hér upp, var sá þáttur, sem fléttaðist inn í þessar umr, hér áðan í lofgerðartón um Vestfjarðaáætlun. Ég spyr sem einn af þm. Vestfjarða: Hvað er Vestfjarðaáætlunin? Hvar er hún? Ég hef aldrei séð hana. Ég veit ekki til, að hún sé til. Og það er verið í mörgum ræðum víðs vegar um land að jafna til þess, sem eigi að gera fyrir aðra landsfjórðunga, eins og nú sé verið að gera samkv. Vestfjarðaáætlun. Hvaða Vestfjarðaþm. hefur séð hana? Er hún til? Get ég fengið hana eflir þennan þingfund? Nei, það er einhver tilbúningur. Og þó hefur þetta plagg verið notað til þess að svipta Vestfjarðaþm. aðstöðu til þess að taka þátt í eðlilegri skiptingu fjárlagafjárveitinga. Þannig var okkur sagt frá henni á síðasta þingi, þegar fjárlög voru í undirbúningi, að samkv. till. manna, sem væru að semja Vestfjarðaáætlun, yrðu fjárveitingar vegna láns, sem líklega yrði tekið, til ákveðinna framkvæmda, þess vegna yrðu vegafjárveitingarnar og hafnarmálafjárveitingarnar að fara til sömu mannvirkja. Þar með voru stjórnarandstöðuþm. á Vestfjörðum sviptir aðstöðu til að fá nokkra fjárveitingu til nokkurs annars en þeir vísu menn, sem starfa að þessari Vestfjarðaáætlun undir forustu Benjamíns Eiríkssonar, ætluðu og una því, að allar þeirra till. um aðra tilhögun fjárveitinga væru felldar, því að það væri alveg eins og skrifað af drottni. Það yrði að fara til sömu verka og ákveðið væri að veita lánsfénu til framkvæmda á Vestfjörðum. Ég álit, að þetta sé óþinglegt með öllu, og vil nú óska eftir því — (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) herra forseti, ég er alveg að ljúka, — óska eftir því, að stjórnarandstöðuþm. á Vestfjörðum gefist nú kostur á, helzt í dag, að sjá þetta dýrlega plagg, sem kallað er Vestfjarðaáætlun. Og þá skal ég flytja þakkarávarp, ef ég fæ hana í dag og sé þar einhverja gleðilega hluti í menntamálum m.a. Hitt er mér líka ókunnugt, að það sé búið að ljúka einhverjum þætti í samgöngumálum Vestfjarða, eins og hér var sagt áðan. Það er mér ókunnugt.