03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hæstv. menntmrh. skyldi ekki, þegar hann talaði nú síðast, gefa svar við þeirri fsp. hv. 3. þm. Vestf., hvort hann teldi, að byrjað mundi verða á byggingu menntaskóla á Ísafirði á næsta ári, þegar 2 ára fjárveitingar lægju fyrir. En hann kom sér hjá að svara því, og ég harma það. Ég vil ítreka þá ósk, að svar við því fáist.

Ég fékk það svar, sem ég vonaðist eftir að fá og vissi, að ég hlyti að fá, ef satt yrði sagt: Hver getur séð það, sem ekki er til? Ég spurði: Hvar er Vestfjarðaáætlunin? Er hún til? Ég hef ekki séð hana. Hv. þm. sagðist ekki heldur hafa séð hana og spurði síðan: Hver getur séð það, sem ekki er til? — Hún er ekki til. En það er mikið búið að guma af henni. Það er búið að gleðja aðra landshluta með því, að þeir fái öll lifandis ósköp, eins og nú sé verið að gera skv. Vestfjarðaáætlun, sem ekki er til. Er það ekki dálítið skrýtið?

Hitt skulum við alveg láta liggja milli hluta, hvor okkar hv. þm. fylgist betur með því, sem verið er að gera á Vestfjörðum, og gegni betur þingmannsskyldum fyrir Vestfjarðakjördæmi. Það er hvorugur okkar í dómarasæti um það. Þar skulu aðrir dæma, þegar þar að kemur.

En svo mikið er víst, að Vestfirðingar féllu ekkert í stafi yfir því, þó að þeim væri sagt frá því, þegar búið var að taka lántökur hundruðum milljóna saman í vegagerðir annars staðar, að þá kæmi að því, að það yrði líka, loksins seint og síðar meir, tekið lán til vegagerða í þeim landshluta, sem óumdeilanlega er langverst staddur í vegamálum, sem eru Vestfirðir. En það var ekki til ein einasta íslenzk króna til að sinna því hlutverki. Það varð að sníkja það frá flóttamönnum Evrópu, úr sjóði þeirra. Og það er óneitanlegt, að Vestfirðingum finnst yfirleitt heldur óbragð af því, að svona skyldi vera leyst úr þeirra málum, þegar allir aðrir voru búnir að fá margfalt meira til umbóta í sínum vegamálum með lánsfé, — enginn íslenzkur eyrir til í það, varð að fara ofan í sjóði flóttamanna Evrópu til að gera einhverja úrlausn þar.

Þar að auki tel ég, að það séu alveg óviðunandi slík vinnubrögð sem þarna eru viðhöfð. Vestfjarðaþingmenn fá ekki að sjá þá áætlun, sem unnið er að árum saman. Og til þeirra er ekkert leitað um það, hvaða verkefni skuli taka inn á þessa blessuðu áætlun, — bara notað til að guma af þessu plaggi, áður en það er til.

Ég heyrði, að hæstv. menntmrh. sagði, að það yrði gerð áætlun um aðgerðir í menntamálum. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, hv. alþm., sagði það einnig um Vestfjarðaáætlunina. Ætli það þurfi tvær áætlanir um þetta? Ég kann líka illa við slíkt skrum, að verið sé að flytja sérstök þakkarávörp fyrir það, þó að endurbætur fari fram á tveimur héraðsskólum á Vestfjörðum. Það hafa farið fram endurbætur á Núpsskóla, það hafa farið fram endurbætur á húsakosti Reykjanesskólans, og það er nú allt og sumt. En af þessu tilefni vil ég minna á það, að Reykjanesskólinn varð fyrir því áfalli, að húsakostur hans brann að nokkru leyti fyrir skömmu. Ég hafði nýlega afskipti af því máli og leitaði til menntmrh. Það þurfti þar skjótra aðgerða við, því að nemendur geta ekki beðið langt fram eftir vetri til að vita, hvort skólinn starfar eða ekki. Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Er búið að tryggja það, að viðgerð geti hafizt á húsakosti Reykjanesskólans vegna brunans, svo að nemendur viti, að það verði skólahald í vetur og skólinn geti starfað? Ég veit, að þetta er ekki neitt, sem við kemur fjármálaákvörðunum. Þetta er hlutur, sem allt veltur á, að sérstakra úrræða sé leitað til þess að bjarga með skjótum hætti.