10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

52. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hinn 4. febr. 1953 samþykkti Alþ. þál. frá hv. alþm. Pétri Ottesen um að fela ríkisstj. að láta athuga, hvernig íslenzka ríkið geti með sem hagkvæmustum hætti eignazt hæfilega stórt og traust skip, sem útbúið verði hinum fullkomnustu tækjum til haf- og fiskirannsókna. Þótt athuganir hafi sýnt nauðsyn hafrannsóknarskips fyrir Íslendinga, var fjárhagsgrundvöllur til smíði slíks skips fyrst lagður með lögum nr. 33 frá 10. sept. 1958, um útflutningssjóð, þar var ákvæði um, að hluti tekna af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum skyldi renna til smiði haf- og fiskirannsóknarskipa. Ákvæði þessu var svo haldið í l. um efnahagsmál frá 1960, enda þótt l. um útflutningssjóð féllu þá úr gildi. Siðan árið 1958 hefur meira og minna verið unnið að undirbúningi og smíði rannsóknarskips af Hafrannsóknastofnuninni, en undirbúningurinn komst fyrst í fast form með skipun byggingarnefndar hafrannsóknaskips í maí 1964. Í n. eiga sæti Gunnlaugur E. Briem ráðuneytisstjóri, sem er formaður, Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, Jóhannes Nordal bankastjóri, H,jálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri og Jón Jónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar. N. fól Agnari Norland skipaverkfræðingi og Ingvari Hallgrímssyni fiskifræðingi að vinna úr fram komnum till. í nánu samstarfi við hafrannsóknastofnunina og gera fyrirkomulagsteikningu að hinu fyrirhugaða skipi. Hafa þeir síðan unnið að þessu máli með aðstoð erlendra aðila, sem reynslu hafa á þessu sviði. Er þess að vænta, að nauðsynlegri undirbúningsvinnu verði lokið snemma á næsta ári.

Skal ég þá víkja sérstaklega að þeim fsp., sem hér eru til umr., en 1. liður þeirra er, að spurt er, hvort samningur hafi verið gerður um smiði rannsóknarskips. Svar: Það hefur ekki verið gert, enda er undirbúningsvinnu ekki að fullu lokið, eins og fyrr er greint.

Varðandi 2. lið fsp. er spurt, hve mikið fé sé fyrir hendi til smíði skipsins. Svar: Til smíðinnar renna 3% af útflutningsgjaldi, og var heildarupphæðin 11 millj. 433 þús. kr. í árslok 1964. Á því ári nam framlag úr útflutningsgjaldi 2 millj. 800 þús. kr., og má gera ráð fyrir, að í lok þessa árs verði heildarupphæðin orðin röskar 14 millj. kr.

3. liður. Spurt er, hvað talið sé, að vel búið hafrannsóknarskip kosti nú. Svar: Skip það, sem fyrirhugað er að smíða, er af skuttogaragerð, og mun kostnaður með öllum búnaði skipsins vart verða undir 50 millj. kr.

Til viðbótar framangreindum upplýsingum vil ég hér með gefa þær upplýsingar, þótt ekki sé sérstaklega um þær spurt í umræddri fsp., að fyrir nokkrum vikum fór Jakob Jakobsson fiskifræðingur þess á leit í bréfi til sjútvmrn., að keypt yrði sérstaklega útbúið síldarleitarskip, sem eingöngu yrði ætlað það hlutverk að leita síldar og fylgjast með síldargöngum. Ríkisstj. hefur tekið þessari till. Jakobs til athugunar og mun kanna þær ýtarlega, er öll gögn málið varðandi liggja fyrir.

Ég vænti, að með þessum upplýsingum hafi ég svarað fsp. hæstv. fyrirspyrjanda.