10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í D-deild Alþingistíðinda. (3093)

52. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austf. (LJós), vildi segja, að ekki hefði verið unnið að þessu máli eins og æskilegt hefði verið, og hann sagði raunar, að það hefði vafizt fyrir stjórnarvöldunum í 8 ár að hrinda þessu máli í framkvæmd. Ef við drögum 8 frá 1965, þá komum við til ársins 1957, og þá lendir a.m.k. nokkur hlutinn á því tímabili, sem hann sat í þessu embætti. En það, sem hefur gerzt í því síðan, er, að það hafa verið sett lög um tekjuöflun til smiði slíks skips, en sú tekjuöflun hefur ekki gefið nema 1—2 millj. á ári, síðan þau lög voru sett, en sú fjárhæð var vitanlega alls ófullnægjandi til að fara af stað með smíði slíks skips, sem mun kosta, eins og upplýst hefur verið hér nú af hæstv. sjútvmrh., í kringum 50 millj. kr. Hins vegar var hafizt handa um undirbúning þessa máls, undireins og útlit var fyrir það, að fjármunir væru handbærir. En nokkur ágreiningur hefur orðið um gerð skipsins, og var þess vegna hafizt handa á nýjan leik 1964 um það að endurskoða fyrri áætlanir og gerðir skipa, og voru þar hafðir með í ráðum bæði erlendir og innlendir sérfræðingar, sem voru ráðgefandi fyrir þá n., sem þetta mál var falið.

Ég tel, að nú sé málið komið á þann rekspöl, að það sé eingöngu spurning um vikur eða mánuði, þangað til hægt er að bjóða skipið út, og þeir fjármunir, sem nú eru fyrir hendi, ættu að nægja til að borga þann hlutann, sem þarf að inna af hendi við samningsgerð og meðan á smíði skipsins stendur. Ég tel, að þessi undirbúningur, sem gerður hefur verið, sé það vandaður, að líklegt sé, að nú sé komið niður á þá gerð skipsins, sem hentugust geti orðið, og sé ekki illa varið þeim tíma, sem í þennan undirbúning hefur farið. En að ráðast í smíði slíks skips í algeru fljótræði, eins og mér skildist að hv. síðasti ræðumaður teldi að hefði verið rétt að gera, og með alls ófullnægjandi fjármuni í höndum, tel ég, að ekki hefði verið vel staðið að því verki.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og taldi rétt og skylt, þar sem sjálfsagt er mér um að kenna, ef óhæfilegur dráttur hefur orðið á þessu máli.