10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

204. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns o.fl.

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn fjallar um það, hvað ríkisstj. hafi gert til að framkvæma ályktun Alþingis frá 29. maí 1957 um sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns o. fl. Hinn 29. maí 1957 samþ. Alþ. eftirfarandi ályktun: „Alþingi ályktar:

1) að sameina beri Landsbókasafn Háskólabókasafni eins fljótt og unnt er á næstu árum, þannig að Landsbókasafn verði aðalsafn, en í Háskólabókasafni sé sá þáttur starfseminnar, sem miðast við handbóka- og námsþarfir stúdenta og kennsluundirbúning og rannsóknir kennara,

2) að fela ríkisstj. að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessa átt,

3) að nú þegar verði svo náið samstarf tekið upp millí Landsbókasafn og Háskólabókasafns sem við verður komið að áliti forráðamanna þeirra og hliðsjón höfð af væntanlegri sameiningu safnanna.“

Tildrög þessarar ályktunar Alþingis voru þau, að 11. sept. 1956, fól þáverandi menntmrh. 5 mönnum að rannsaka, hvort hagkvæmt væri að sameina þessi söfn. Í n. voru Þorkell Jóhannesson þáv. háskólarektor, Finnur Sigmundsson þáv. landsbókavörður, Björn Sigfússon háskólabókasafnsvörður, Bjarni Vilhjálmsson og Birgir Thorlacius.

Eftir allýtarlega athugun komst þessi n. að þeirri niðurstöðu, að það væri bæði fjárhagslega og skipulagslega hagkvæmt að sameina söfnin, og byggði það m.a. á eftirfarandi röksemdum:

1) Að bæði söfnin hefðu ófullnægjandi húsnæði og betra væri að byggja yfir eitt safn en fleiri.

2) Að fjárveitingar til bókakaupa nýttust betur hjá einu safni en tveimur.

3) Að mannafli nýttist einnig betur á þann hátt.

Það kemur fram í áliti n. á þeim tíma, að þá var mögulegt að fá lóð fyrir slíkt safn á Melunum sunnan Suðurgötu, eða skammt frá háskólanum. Í framhaldi af þessu lagði n. til, að Alþingi gerði þá ályktun, sem ég las hér áðan upp og var afgreidd frá Alþingi 29. maí 1957.

Síðan þessi ályktun var gerð á Alþingi, hefur þörfin fyrir slíka sameiningu augljóslega aukizt. Húsnæðisskortur safnanna hefur aukizt, og þörfin fyrir hvers konar fræðimennsku og vísindastarfsemi, sem byggist á góðu bókasafni, hefur aukizt og verður að sjálfsögðu enn meiri í framtíðinni, t.d. í sambandi við, ef deildum háskólans verður fjölgað, sem sjálfsagt verður innan tíðar. Ég hygg, að það sé óþarft að lýsa því, því að það er sjálfsagt flestum eða öllum hm. kunnugt, hve óhæg aðstaða er nú á þessum söfnum, til þess að þau geti fullnægt þeirri starfsemi, sem þar þarf að halda uppi.

Ég vil svo í framhaldi af því, sem ég hef nú sagt, endurnýja þá fyrirspurn mína, hvað ríkisstj. hafi gert til að framfylgja umræddri ályktun Alþingis.