10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

204. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns o.fl.

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, því að ég býst við, að þau séu nokkurn veginn eins greinileg og þau geta verið varðandi það, sem hefur verið gert eða ekki verið gert í þessum málum á undanförnum árum. En hitt vil ég hins vegar harma, að það virðist hafa verið ótrúlega lítill skriður á því að framkvæma þessa till. hvað það snertir að sameina söfnin og koma upp sæmilegum húsakynnum fyrir þau. Ég hygg, að af þeim verkefnum, sem hæstv. ráðh. minntist hér á áðan, að nauðsynlegt væri að vinna að, þá sé kannske þetta eitt hið allra merkasta, að koma hér upp verulega góðu bókasafni, því að við verðum að búa okkur undir það eins og aðrar þjóðir, að hvers konar vísindastarfsemi verði efld, hér í landinu á komandi árum, en ein meginundirstaða þess, að það sé lægt, er að hafa gott og fullkomið bókasafn. Og við verðum að játa, að það skortir stórkostlega á, eins og nú standa sakir, að því skilyrði sé fullnægt. Ég vil aðeins minna á í sambandi við það, hve mikilvægt þetta verkefni er, að nú fyrir skömmu, þegar Háskóli Íslands var settur, minntist háskólarektor á þetta verkefni og taldi, að það væri kannske einna bezt til fallið, ef sérstaklega væri minnzt þess stórafmælis í sögu Íslands, sem nú er fram undan, að það væri gert með því að koma upp slíku safnahúsi sem hér um ræðir.

Þess vegna vil ég að lokum láta í ljós þá von, að það verði ekki unnið að þessu máli á þann hátt, eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh., að það þyrfti að taka langan tíma enn, að slíku safni yrði komið upp, heldur yrði undirbúningi að því hraðað og jafnvel stefnt að því, að það geti komizt í framkvæmd á því stórafmæli í sögu Íslands, sem verður eftir nokkur ár.