17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3102)

59. mál, tilboð í verk samkvæmt útboðum

Fyrirspyrjandi (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. ásamt hv. 10. þm. Reykv. og 2. þm. Norðurl. e. til viðskmrh, á þskj. 68. Fsp. þessi er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað líður störfum nefndar, sem viðskmrh. skipaði 18. des. 1959 til að athuga þann hátt, sem á er um tilboð í verk samkv. útboðum, og gera till, um leiðir til úrbóta með það fyrir augum, að reglur verði settar um þau mál.“

Þessi fsp. er fram komin vegna þeirrar nauðsynjar, að settar verði reglur um tilboð í verk samkv. útboðum.

Hér á landi eru engar almennar reglur um tilboð í verk samkv. útboðum, þó að einstakir verksalar hafi í sumum tilfellum sett sér reglur til að fara eftir. Þrátt fyrir þetta hafa útboð farið sívaxandi á síðustu árum, bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila.

Þar sem engar reglur hafa verið til um, með hverjum hætti þessi samskipti verkkaupa og verktaka skuli vera, hafa margsinnis komið upp ýmis deilumál, sem engin úrlausn hefur fengizt á. Þeir, sem gera tilboð, telja sig oft misrétti beitta, en geta hvergi leitað réttar síns, þar sem engar skýlausar reglur eru til um þessi efni, Það má taka dæmi, sem gefa til kynna, hvers konar vandamál er við að etja.

Verkkaupar afla tilboða, en telja sér ekki skylt að taka lægsta boði, heldur semja við annan, sem boðið hefur, um, að hann lækki boð sitt, og láta hann vinna verkið.

Verktakar, sem bjóða í stór verk, afla sér undirtilboða frá öðrum verktökum í einstaka þætti verksins og byggja heildartilboð sitt á slíkum undirtilboðum. Oft hefur komið fyrir, þegar aðalverktaki fær slíkt verk, að hann telur sig óbundinn af tilboðum undirverktakanna, en fær þriðja aðila til að vinna verkið og semur þá sérstaklega við hann, e.t.v. um lægri greiðslu en þá, sem hann byggði heildartilboðið á.

Á tímum mikillar umframeftirspurnar eftir vinnuafli og þegar mörg verk eru boðin út samtímis, freistast verktakar, sem þegar hafa nóg verkefni og ekki geta annað meiru, til að gera tilboð. Þeir gera í tilboði sínu ráð fyrir verulegum hagnaði og reikna með, að tilboðinu verði ekki tekið. Og ef svo kynni að fara, að tilboði þeirra yrði tekið, hefðu þeir engu að tapa. Þegar slíkum tilboðum er tekið, leiðir það til verulegra yfirborgana fyrir verkkaupa.

Þegar mikil samkeppni er um tilboð, bjóða verktakar oft svo lágt, að dæmi eru til um, að tilboðsupphæð hafi ekki dugað einu sinni fyrir áætluðum efniskostnaði. Þegar verktakar gera slíkt tilboð, er það oft í trausti þess, að þeim takist að hækka upphæðina með því að vinna fyrir aukareikning ýmsa líði í útboðinu, sem verði þannig breytt, eða að þeir geti samið við verkkaupann, eftir að verkið er hafið, að því verði breytt í tímavinnu. Oft lýkur þó slíkum málum á þann hátt, að verktaki getur með engu móti staðið við skuldbindingar sínar og af hljótast málaferli, sem dæmi eru til um að leitt hafi til gjaldþrots verktaka og um leið mikils fjármagnstjóns fyrir verkkaupa.

Reglur um útboð og tilboð ættu að geta bætt úr þessu ástandi.

Það er brýn nauðsyn að koma fastri skipan á þessi mál. Það hefur verið viðurkennt af hálfu ríkisvaldsins með skipun nefndar árið 1959. Iðnaðarsamtökin sjá og skilja þýðingu málsins. Þannig hefur Meistarasamband byggingarmanna samþ. á aðalfundum sínum undanfarin ár að skora á n. þá, sem skipuð var í des. 1959 af viðskmrh. til þess að semja reglur um útboð og tilboð, að hraða störfum sínum, svo að þeim yrði sem fyrst lokið. En störfum n. mun ekki enn lokið.

Hér er hæstv. viðskmrh. spurður: Hvað líður störfum n.? Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að gefa þessar upplýsingar.