17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

59. mál, tilboð í verk samkvæmt útboðum

Fyrirspyrjandi (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör hans, og mér þykir gott að heyra það, að nú er gert ráð fyrir, að störfum þessarar n. verði lokið fyrir næstu áramót. Og ég treysti því, að það verði ekki frekar dráttur á því, að störfum n. verði lokið. Ég viðurkenni það, að hér er um mikið og vandasamt verk að ræða.

Í íslenzkri löggjöf eru ekki almenn ákvæði um útboð, en útboð má skilgreina svo, að það sé áskorun til margra um að gera innan ákveðins frests skriflegt og bindandi tilboð í verk á sama útboðsgrundvelli, þannig að áskoruninni sé beint samtímis til allra tilboðsgjafa og jafnframt hverjum einstökum sé gert ljóst, að skorað sé á aðra að gera tilboð. Það getur verið um að ræða opinbert útboð, og það getur verið um að ræða óopinbert útboð. Útboð getur verið bundið við verktaka á ákveðnum landssvæðum eða ákveðna hópa verktaka. En hverrar tegundar sem útboð eru, gegna þau mikilvægu hlutverki í athafnalífinu.

Erlendis, á Norðurlöndum og í öðrum VesturEvrópulöndum, gilda fastar, ákveðnar reglur um útboð. Heildarlöggjöf um þetta efni mun þó yfirleitt ekki vera um að ræða. En þróunin í hverju einstöku landi hefur leitt til þess, að mótazt hafa reglur, sem eru í sumum greinum frábrugðnar frá einu landi til annars. Þessar reglur mótast af einstökum lagaákvæðum og siðvenjum, sem skapazt hafa. Sums staðar gilda um skipan þessara mála, reglugerðir, sem gefnar eru út af hálfu ríkisvaldsins í samvinnu og með aðild félagssamtaka, svo sem fagfélaga, iðnaðarmanna, arkitekta, verkfræðinga og málflutningsmanna og byggingarfélaga. Gildi slíkra reglugerða hvílir á samningsgrundvelli, sem þessir aðilar standa að.

Ef gengið er út frá, að tilboðslýsing geri skýra og nákvæma grein fyrir eðli og umfangi verksins, sem boðið er út, og tilboðsgjafar verðleggi óháðir hverjir öðrum verkið út frá aðstæðum hvers og eins, má ætla, að venjulega hafi verkkaupi möguleika á að semja við þann tilboðsgjafa, sem bezta aðstöðu hefur til að framkvæma verkið á hagkvæmastan hátt. Með þessu móti gegna útboðin því mikilvæga hlutverki að stuðla að bættum vinnubrögðum, aukinni tækni og lækkuðum kostnaði við byggingar og mannvirkjagerð. Með tilliti til þessa verður að lita svo á, að mikil þörf sé á því, að sú skipan sé á þessum málum, sem stuðlar að því, að verk séu boðin út í auknum mæli.

Hér er um stórmál að ræða, mál, sem hafa hina mestu þjóðhagslega þýðingu. Þó að útboð verklegra framkvæmda hafi farið vaxandi á undanförnum árum, þarf þróunin að ganga í þá átt í enn auknum mæli. Það ætti að vera regla eða skylda, að framkvæmdir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, verði boðnar út til þess að tryggja sem bezt hagsýni í meðferð opinbers fjár. Þetta á ekki einungis við um opinberar byggingar, skóla, sjúkrahús, orkuver, hafnargerðir og þess háttar, heldur og vegagerð ríkisins. Hin stórvirku tæki, sem nú eru notuð til vegalagningar, breyta vegagerðinni ekki einungis tæknilega, heldur og skapa eðlilegan grundvöll fyrir því, að gerð nýrra þjóðvega verði boðin út. Byggingar og mannvirkjagerð í þágu atvinnuveganna ætti að bjóða út í auknum mæli frá því, sem nú tíðkast.

Þá ber í þessu sambandi að neina byggingu íbúðarhúsa. Það er hvarvetna viðurkennt, að hinum margumtalaða byggingarkostnaði verði helzt haldið niðri með aðferðum fjöldaframleiðslunnar, þar sem komið verði við nýjustu tækni og vinnuhagræðingu. Þessu verður bezt náð gegnum útboð í stórum byggingarframkvæmdum. En til þess að þetta geti gerzt, þurfa fyrirtæki verktaka að geta komið til og starfað með eðlilegum hætti. Verktakar þurfa að vera öflugir til þess jafnan að geta tileinkað sér nýjustu tækni og vinnuaðferðir. Það hamlar þessari þróun hér á landi, að ekki skuli vera til almennar reglur um útboð.

Ég segi að sjálfsögðu ekki, að öll okkar vandamál leysist við það, að verklegar framkvæmdir séu boðnar út. En ég fullyrði, að mörg þeirra yrðu auðveldari viðfangs. Reynslan hefur kennt öðrum þjóðum mikilvægi þess. Við höfum ekki heldur efni á öðru en að hagnýta okkur kosti hinnar frjálsu samkeppni á þessum sviðum sem öðrum. Þannig nýtist þjóðfélaginu bezt hugvit og framtak hinnar vel menntuðu og starfshæfu iðnaðarmannastéttar okkar og annarra tæknimenntaðra manna. Þessum tilgangi þjónar það, að settar verði reglur um tilboð í verk samkv. tilboðum. Þannig verða tryggðir hagsmunir ekki aðeins verktaka og verkkaupa, heldur og þjóðarheildarinnar.