17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

205. mál, sjálfvirkt símakerfi

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að halda fræðilegan fyrirlestur um viðfangsefnið, heldur fylgja fsp. minni úr hlaði með örfáum orðum.

Eins og sjá má á þskj. 68, ber ég fram fsp. í tveimur liðum um sjálfvirkt símakerfi. Í fyrsta lagi spyr ég, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvenær fá eftirtaldir staðir sjálfvirkar símastöðvar og þar með símaþjónustu allan sólar-

hringinn: Ísafjörður, Brú, Borðeyri, Hólmavík, Bolungarvík, Hnífsdalur, Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Bíldudalur, Innri-Tunga og Patreksfjörður.

2) Hvað liður að öðru leyti framkvæmd áætlunar póst- og símamálastjórnarinnar um sjálfvirkt símakerfi?“

Fyrir Alþ. árið 1960, hygg ég að það hafi verið, lágu 4 þáltill. um sjálfvirkt símakerfi. Þá sendi póst- og símamálastjórnin Alþ. ýtarlega áætlun um framkvæmdir símans á næstu árum, og var þessum 4 till. þá steypt saman í eina um það að koma upp sjálfvirku símakerfi um landið allt á vissu árabili. Sú till. var samþ. og afgreidd. Í áætlun Landssímans var talið, að því takmarki yrði náð að koma sjálfvirku símakerfi á um landið allt á árunum 1967—1968.

Mér er vissulega kunnugt um, að það hefur verið unnið kappsamlega að því að koma á sjálfvirku símakerfi sem víðast um landsbyggðina, og símaþjónusta allan sólarhringinn er gífurlega mikils virði, og eftir framkvæmd þessarar áætlunar er því beðið með mikilli óþreyju víða, þar sem hún er ekki komin í framkvæmd enn þá. Í áætluninni var gefið fyrirheit um það, að kaupstaðir og kauptún, þorp og margir sveitabæir þar í nánd fengju sjálfvirkt símakerfi fyrir árslok 1966 ásamt sjálfvirku sambandi sín á milli, en síðan yrði haldið áfram, þannig að nær allir sveitabæir hefðu fengið sjálfvirkan síma fyrir árslok 1968. Á árunum 1965—1966 var samkv. áætluninni gefið fyrirheit um, að Brú, Borðeyri, Hólmavík, Ísafjörður, Hnífsdalur, Bolungarvík, Patreksfjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Súðavík ásamt allmörgum stöðum á Austfjörðum fengju símakerfi, sem sé, eins og ég segi, á árunum 1965—1966. Nú langar mig til að vita, hvað framkvæmd liði, hvenær þessir staðir, sem upp eru taldir í fsp., geti átt von á því að fá sjálfvirkt símakerfi og þar með símaþjónustu allan sólarhringinn. En það, að síminn hefur aðeins verið opinn nokkrar klukkustundir á sólarhring hverjum í sjóþorpunum á Vestfjörðum, hefur oft verið sárlaga bagalegt, einkanlega þegar skipum hefur hlekkzt á eða skip hefur vantað og símaþjónustan ekki getað komið þar til fyrirgreiðslu.

Þá langar mig í leiðinni til þess að vita, hvað framkvæmd áætlunar Landssímans í heild líði og hvenær sú stund muni upp renna, að sjálfvirkur sími spanni um landið allt, hvort það muni sem sé verða, eins og boðað var, á árunum 1967—1968 eða þá hvenær.