17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

205. mál, sjálfvirkt símakerfi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Spurt er að því, hvenær eftirtaldir staðir fái sjálfvirkar stöðvar. Það eru ýmis kauptún á Vestfjörðum ásamt Ísafirði. Svarið er, að það er samkv. áætlun póst- og símamálastjórnarinnar á árinu 1968. Á árinu 1968 er gert ráð fyrir, að simi verði lagður að Höfn í Hornafirði, Búðardal, Patreksfirði, Ísafirði með Hnífsdal, Þingeyri, Flateyri, Bolungarvik, Suðureyri, Súðavík, Bíldudal, Tálknafirði, og á því ári er einnig gert ráð fyrir, að lokið verði stækkun í Reykjavík.

Ég geri ráð fyrir, að hv. fyrirspyrjanda finnist þetta vera nokkuð miklu seinna en hann hafi búizt við, eftir því sem hann lýsti hér áðan, en þetta er samkv. áætlun póst- og símamálastjórnarinnar. Það hefur verið pantað efni í þessar stöðvar, þannig að efnið geti komið til landsins á árinu 1967 eða jafnvel um áramótin 1966—1967, þannig að af þeim ástæðum ætti að vera hægt að halda sér við þessa áætlun, og það er gert ráð fyrir því, að fjárhagsáætlun verði þannig, að hægt verði að standa við það. Og það þykir eðlilegra að segja hér 1968 en 1967, ,jafnvel þótt til þess gæti komið, að það mætti vinna eitthvað af því á því ári, að stöðvar á Vestfjörðum fengju þá sjálfvirkan síma.

2. liður fsp. er: „Hvað líður að öðru leyti framkvæmd póst- og símamálastjórnarinnar um sjálfvirkt simakerfi?“ Þá er rétt að geta þess, að á árinu 1966 er gert ráð fyrir að setja í samband sjálfvirka stöð á Selfossi, Eyrarbakka með Stokkseyri, Þorlákshöfn, Hveragerði, Hvolsvelli, Hellu, Þykkvabæ, Vík, Stykkishólmi, Ólafsfirði og væntanlega Brúarlandi og Vogum. Enn fremur verða stækkanir í Hafnarfirði, Selási, Grindavík, Grensásstöðinni í Reykjavík og í Kópavogi. Gert er ráð fyrir, að á næsta ári verði bætt við 2000 númerum frá Grensásstöðinni í Reykjavik, enda gerist þess þörf, þar sem nú má segja, að öll símanúmer séu upptekin hér í Reykjavik. Þá er það á árinu 1967, að gert er ráð fyrir að koma sjálfvirkri stöð í Grafarnesi, Ólafsvík, Hellissandi, Brú, Borðeyri, Hólmavík, Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Hofsósi og Kópaskeri og enn fremur stækkun á Selási. Árið 1968 var eins og ég áður lýsti. En það, sem búið er að gera í sambandi við sjálfvirkar stöðvar, er, að á öllu landinu eru nú í notkun 18 sjálfvirkar símstöðvar og í des. n.k. bætast væntanlega við 2. Þá verða sjálfvirku stöðvarnar 20. Þessar stöðvar eru Reykjavík, Grensás, Selás, Kópavogur, Hafnarfjörður, Keflavík, Innri-Njarðvík, Gerðar, Sandgerði, Grindavík, Vestmannaeyjar, Akranes, Borgarnes, Akureyri, Hjalteyri, Dalvík, Húsavik, Raufarhöfn, Siglufjörður og Hafnir. Og enn fremur er sjálfvirkt langlínusamband á milli framangreindra staða, þannig að þægindi eru orðin talsverð að þessu.

Stöðvar á Austfjörðum ættu þá að geta komið einnig á árunum 1968—1969. Það hefur ekki enn verið pantað efni í þær, en það má gera ráð fyrir, að afgreiðslufrestur sé 1 1/2 ár, þannig að ef pöntun væri gerð um næstu áramót, muni efnið koma til landsins á miðju ári 1967.

En framkvæmdin í þessum málum öllum fer vitanlega ekki aðeins eftir þessari áætlun, sem gerð er, heldur fer hún eftir því fjármagni, sem til þessa verður varið. Hún fer einnig eftir því, hve miklum mannskap er á að skipa hjá Landssimanum, en það hefur tafið mjög framkvæmdir að undanförnu, að það hefur vantað símvirkja og fleiri tæknimenntaða menn til þess að vinna að þessu. Og ég held, að það verði að segja, að þótt ekki hafi verið staðið að fullu við þessa fyrstu áætlun, sem gerð var lauslega af Landssímanum, þegar talað var um, að kauptún og þorp hefðu fengið sjálfvirkan síma á árunum 1966 og 1967 og allar sveitir 2 árum seinna, 1968—1969, þó að það verði nú ekki alveg, verður að segja, að það hafi verið unnið að þessum málum með talsverðum hraða. En samkv. þessu má gera ráð fyrir, að það verði tveimur árum seinna en upphaflega var áætlað, sem kauptún og þorp hafa fengið sjálfvirkar stöðvar, og þá væntanlega tveimur árum seinna, sem sveitirnar hafa fengið sjálfvirkt samband. En ég hygg, að það sé öllu erfiðara að gera nákvæma áætlun um það, hvenær því verður lokið, og ekki verða það að sinni nema þéttbýlustu sveitirnar, sem geta komizt í sjálfvirkt samband, vegna margs konar tæknilegra erfiðleika.

Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að það vitanlega bætir ákaflega mikið þjónustuna að fá sjálfvirkar stöðvar og geta haft opið allan sólarhringinn, og það er þess vegna, sem að þessu er stefnt með ærnum tilkostnaði. Og það er ástæða til þess að ætla, að þetta takist tiltölulega fljótt og tiltölulega miklu fyrr hér á landi en í nágrannalöndunum. Við höfum gert hærri kröfur en ýmis hin þéttbýlli og fjölmennari lönd, og er það að vísu vel, úr því að hægt er að standa við það. Og þegar til lengdar lætur, borgar sig að hafa lagt í þennan kostnað. Það borgar sig beinlínis fjárhagslega með sparnaði í rekstrinum. Þetta hlýtur að taka eðlilega nokkurn tíma, ekki aðeins vegna þess, að það þarf mikið fjármagn, heldur einnig vegna tæknilegra erfiðleika, sem þessu eru samfara. Og þá ber að geta þess, að um leið og hugsað er um það að setja upp sjálfvirkar stöðvar víðs vegar úti um land, í kauptún og þorp og síðan út um sveitir, þarf að byggja upp í þéttbýlinu hér, því að þaðan koma mestar tekjurnar, og bezt að segja það eins og er, að það hefur oft verið lagt til frá Landssímanum hér úr höfuðborginni fjármagn til þess að færa símann víðs vegar út um byggðina. Þess vegna er það, að hraða verður því að fullgera Grensásstöðina og losa þannig 2000 númer, og síðan verður að hefjast handa, helzt á næsta ári, að stækka aðallandssímahúsið hér í miðbænum, til þess að geta bætt við þar síðar.

Þetta er nú það, sem ég hef að segja um þessi mál nú í bili, og er það byggt á bréfi frá póst- og símamálastjóra.