17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

205. mál, sjálfvirkt símakerfi

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Framkvæmdir í símamálum á Vestfjörðum hafa gengið hægt og rólega að mínum dómi. Á Alþ. 1956 var samþ. þál. um að athuga möguleika á því að setja upp sjálfvirkar símastöðvar á Ísafirði, Bolungarvík og Hnífsdal, enn fremur að fram verði látin fara athugun á því, á hvern hátt verði bætt símasamband þessara byggðarlaga og Vestfjarða í heild við aðra landshluta. 1957 er flutt þáltill. á ný í þessum málum, og var orðalag hennar á þá leið, að ríkisstj. er falið að láta Landssímann koma upp sjálfvirkri símstöð fyrir Ísafjörð, Hnífsdal, Bolungarvík og Súðavík, eins fljótt og verða má. Þessari till, var vísað til fjvn, og í nál. n. segir, að póst- og símamálastjóri telji, að sjálfvirk símstöð á Ísafirði muni spara Landssímanum um 400 þús. kr. árlega. Með hliðsjón af þessum sparnaði og þægindum þeim, sem sjálfvirk símstöð jafnframt veitir símnotendum, telur n. mikilvægt, að umrædd stöð komist upp. Hins vegar telur n. ekki fært að leggja til, að breytt verði niðurröðun einstakra liða. En póst- og símamálastjóri segir í þessu nál., að þessi sjálfvirka símstöð á Ísafirði verði komin upp á árinu 1963. Það verða því fleiri en ein áætlun, sem fyrir liggja um sjálfvirkt símakerfi í þessum

landshluta, og það er því orðinn ærið langur dráttur, sem þar hefur orðið á.

Ég fyrir mitt leyti tel fulla ástæðu til þess, að framkvæmdaáætlun Landssímans sé ekki í höndum póst- og simamálastjórnarinnar einnar, heldur ætti hér að vera um þingkjörna stjórn að ræða, sem endurskoðar þessa framkvæmdaáætlun og jafnar framkvæmdir með einhverjum öðrum hætti en þessum embættismönnum hefur þóknazt. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég tel, að svæði eins og Ísafjarðarsvæðið með Hnífsdal og Bolungarvík og Súðavík, þar eru í sept. í haust 835 símnotendur, kauptún í Vestur-Ísafjarðarsýslu eru með 241 símnotanda, kauptún í Vestur-Barðastrandarsýslu með 338 og kauptúnin í Strandasýslu með 137, — þessi svæði eru gersamlega látin veru útundan, svo og Austfirðir, og ég tel, að þarna hafi átt að jafna á milli eða a.m.k. taka fjölmennustu svæðin fyrr, en láta ekki ár eftir ár dragast þessa framkvæmdaáætlun, sem var lofað á árinu 1957 að væri komin í notkun, a.m.k. hvað þennan hluta af Vestfjörðum snerti, á árinu 1963.

Það ber að viðurkenna, að framkvæmdir Landssímans hafa verið miklar á undanförnum árum í öðrum landshlutum og sífellt verða fleiri og fleiri landsmenn aðnjótandi sjálfvirka símakerfisins og fá með því þjónustu símans allan sólarhringinn. En finnst mönnum það réttlæti, að þeir, sem lengst eiga að bíða eftir að fá sams konar þjónustu, eiga jafnframt að búa við það að njóta símans aðeins 2 klukkutíma á sólarhring, eins og verið hefur undanfarna áratugi, og er það réttlátt, að þróttmikil framleiðslukauptún eigi enn þá um árabil að hafa símstöðvar sinar opnar 6 klukkutíma á virkum dögum og 3 klukkutíma á helgum dögum og einstaka kaupstaðir 14 1/2 klukkutíma á virkum dögum og 4 klukkutíma á helgum dögum?

Ég vil hér með bera fram þau eindregnu tilmæli til hæstv. samgmrh., að hann láti athuga þennan þátt í þjónustu símans og sjái um, að hér verði gerð sú breyting, að þjónustutími símans á þessum stöðum, sem ég hef hér nefnt, verði aukinn verulega frá því, sem nú er, og þykir mér það á engan hátt ósanngjörn krafa, að símstöðvar þær, sem nú eru opnar í 2 klukkutíma á sólarhring, verði opnar í 6 klukkutíma og á öðrum stöðum verði þjónustutími hlutfallslega lengdur frá því, sem nú er. Ég vona, að hæstv. samgmrh. taki þessum tilmælum vel og athugi þetta mál, því að ég veit, að sjálfur hefur hann áhuga á því að leiðrétta slíkt misræmi, og vona, að þetta misræmi verði leiðrétt þegar á þessum vetri og helzt ekki síðar en um n. k. áramót.