17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

207. mál, fávitahæli

Fyrirspyrjandi (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. svör hans. Þau voru skýr og ótvíræð. Hvorug þessara ákvæða í l. um fávitahæli hafa nokkru sinni komið til framkvæmda. Þetta ber að harma, og það ber að vita þetta. Hér er um mestu lítilmagna þjóðfélagsins að ræða, fólk, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér á neinn hátt. Þessi ákvæði, sem hér er um að ræða og aldrei hafa verið framkvæmd, snerta það sérstaklega að reyna að tryggja öryggi þessa fólks, en um það hefur ekki verið hirt, hvorki fyrr né síðar. Það var hins vegar jákvætt hjá hæstv. ráðh., að hann gat þess, að nú hefði verið skipuð n. til að endurskoða l. um fávitahæli. Ég fagna því og tel það þakkarvert út af fyrir sig.

Ég tók það fram áðan, að þessi lög eru tvímælalaust vel úr garði gerð, sérstaklega miðað við þann fjarlæga tíma, sem þau urðu til á. En hitt er auðvitað æskilegt, að endurskoða slík lög nú eftir 30 ár. Það getur, eins og hæstv. ráðh. tók fram, verið eitt og annað, sem tímabært sé að taka til endurskoðunar í l. og breyta til samræmis við breyttar aðstæður og breytta tíma.

Eftirlitsnefnd fávitahæla hefur að sjálfsögðu alltaf verið nauðsynjamál. Hvort sem hælin voru mörg eða fá á þessu tímabili, hafa alltaf einhver fávitahæli verið, eitt eða fleiri, og það bar að skipa þessa eftirlitsnefnd til þess að tryggja, að vel færi um þau börn, sem þar voru sett. Eins er um ákvæðið í 8. gr., sem er mjög mikilsvert, m.a. þetta, að safna skýrslum um tölu fávita í landinu. Enginn veit enn í dag, hve margir fávitar eru í landinu, og þaðan af síður, að nokkur viti í dag um hagi alls þorra þessara barna. Það var sérstakt mannúðarmál að láta þetta ákvæði koma til framkvæmda. En um það hefur enginn ráðh. hirt á öllum þessum árum.

Þá er ekki síður ástæða til þess ákvæðis í 8. gr., að haft sé eftirlit með fávita börnum utan hinna opinberu hæla, því að þótt alltaf geti átt sér stað slæm aðbúð á hælum eftirlitslaust, er þó enn meiri hætta á slæmri aðbúð barna hjá hinum og öðrum einstaklingum, vandamönnum eða vandalausum. Það má því furðulegt heita, að þessi mikilsverðu ákvæði í þessum ágætu l. skuli aldrei hafa komið til framkvæmda. En ég vona, að þessu ófremdarástandi sé nú senn lokið og hraðað verði endurskoðun l., þau færð í nútímabúning, og umfram allt vil ég láta í ljós vonir um, að þau væntanlegu lög verði framkvæmd.