17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

206. mál, sérleyfissjóður og umferðarmiðstöð

Fyrirspyrjandi (Ingi R. Helgason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. samgmrh. fyrir hans mjög greinargóðu svör við fsp. mínum. Þessi svör hæstv. ráðh. bera með sér, að byggingarkostnaður umferðarmiðstöðvarinnar er kominn nú upp í 18 millj. kr., og hann býst við því, að þegar öllu er lokið, verði kostnaðurinn um 19 millj. kr.

Það, sem vakti athygli í sambandi við svör hæstv. ráðh., var einkum tvennt. Í öðru lagi, að byggingarframkvæmdir hafa verið á döfinni frá því 1960 eða í 5 ár, og er það auðvitað óhæfilega langur tími við slíkar byggingarframkvæmdir og veldur auknum kostnaði og töfum. Hitt atriðið var það, að kostnaðurinn virðist skiptast að jöfnu milli kostnaðar við byggingarframkvæmdir og kostnað við lóðarframkvæmdir, og hæstv. samgmrh. upplýsti, að skipt hefði verið um jarðveg á því svæði, sem þessi umferðarmiðstöð var byggð á.

Hæstv. ráðh, svaraði því til í 7. fsp.-lið, að aðstaða til veitingahúsarekstrar hefði verið veitt fyrirtæki, sem Hlað h/f nefnist. Þannig háttar til, að sérleyfishafar, í þeirri aðstöðu, sem þeir eru nú, hafa þær tekjur af sölu veitinga eða af verzlun í húsnæði því, sem þeir eru í núna, að tekjurnar af því nægja til þess að halda uppi kostnaði þeirra við afgreiðslustörf í sambandi við afgreiðslumiðstöðina hjá þeim. Það hefði því verið eðlilegt, að þeir hefðu fengið þá aðstöðu í umferðarmiðstöðinni, svipað og þeir hafa nú í eigin húsakynnum, að fá tækifæri til að hafa tekjur af veitingarekstri þar til að standa undir kostnaði af þeirri leigu, sem þeir þurfa að greiða.

Mér þykir gott að hafa fengið þær upplýsingar hjá hæstv. ráðh., að sérleyfisgjöldin þurfi ekki að hækka vegna kostnaðarins af þessari umferðarmiðstöð og ekki þurfi hennar vegna að hækka fargjald á sérleyfisleiðum í landinu, sem hefði verið óheppilegt, bæði vegna dýrtíðarspursmáls og einnig vegna samkeppni þessara fólksflutninga við fólksflutninga á sjó og í lofti.