17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

208. mál, sjónvarpsmál

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Uppbygging sjónvarpskerfis á Íslandi og rekstur íslenzks sjónvarps er stórmál, hvort heldur litið er á fjárhagslega eða menningarlega hlið þess. Það mætti því ætla, að löggjafarþing þjóðarinnar þyrfti um slíkt mál að fjalla, þar væru teknar ákvarðanir um helztu framkvæmdaratriði og stofnuninni sniðinn stakkur með sérstakri löggjöf. Svo mikið er víst, að oft hefur Alþ. fjallað um mál, sem eru á allan hátt minni í sniðum en þetta. En það er því líkast, sem stjórnarvöld landsins telji það óþarfa, að Alþ. skipti sér neitt verulega af þessari stórframkvæmd, og sjálft hefur Alþ. verið furðu tómlátt um málið. Nú hefur heyrzt í fréttum, að undirbúningur að íslenzku sjónvarpi á vegum ríkisútvarpsins sé töluvert langt á veg kominn og nokkrir tugir manna hafi þegar verið ráðnir að þessari nýju stofnun. Ég tel því fyllilega tímabært, að Alþ. og þjóðinni í heild sé gerð grein fyrir því, hvernig þessi mál standa nú.

Það er liðið hátt á annað ár síðan ég flutti hér á hv. Alþ. fsp. um sjónvarpsmál. Af því tilefni gaf hæstv. menntmrh. þá allýtarlega skýrslu um málið og skýrði þar frá því, hverjar áætlanir væru uppi og hvernig sakir stæðu þá. En síðan hefur ýmislegt gerzt og mikil undirbúningsvinna farið fram, svo að ætla má, að sitthvað sé ljósara í þessum efnum nú en þá var. Fsp. mín er í fimm liðum og er svo hljóðandi:

„1. Hvenær er gert ráð fyrir, að íslenzkt sjónvarp, sem undirbúið hefur verið á vegum ríkisútvarpsins, taki til starfa. 2. Hvenær er áætlað, að íslenzkt sjónvarpskerfi verði komið í það horf, að sjónvarpssendingar geti náð til allra landsbúa? 3. Hvaða áætlanir liggja nú fyrir um stofnkostnað og rekstrarkostnað íslenzks sjónvarps? 4. Hefur ríkisstj. látið semja frv. til 1. um íslenzkt sjónvarp? 5. Hefur ríkisstj. með hliðsjón af tilkomu íslenzks sjónvarps endurskoðað afstöðu sína til sjónvarpsrekstrar varnarliðsins svonefnda í því skyni að banna þann rekstur eða takmarka útsendingar Keflavíkursjónvarpsins við herstöðina eina?“

Ég tel, að þessi fsp. eða einstakir liðir hennar þurfi ekki mikilla skýringa við, og skal því látið nægja að fara aðeins örfáum orðum um síðasta liðinn.

Allt frá því að leyfð var stækkun sjónvarpsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli árið 1961, hafa sjónvarpssendingar þaðan náð yfir svæði, þar sem býr meira en helmingur íslenzku þjóðarinnar. Nú leyfi ég mér að spyrja: Er það ætlun íslenzkra stjórnarvalda að heimila þann sjónvarpsrekstur með óbreyttu sniði, eftir að íslenzkt sjónvarp tekur til starfa? Sjá ráðamenn ekki ærin vandkvæði á því frá þjóðernislegu og menningarlegu sjónarmiði, að rekið sé hér slíkt sjónvarp, herstöðvarsjónvarp, sem nær til meira en helmings þjóðarinnar, rekið í 7—14 klukkustundir á dag við hlið íslenzks sjónvarps, sem gert er ráð fyrir að því er manni skilst, að verði 2 stundir á dag eða svo? Ég tel ástæðu til að ætla, að sumir ráðamenn a.m.k. sjái vandkvæði á þessu. Þannig hefur blað hæstv. menntmrh., en ritstjóri þess er formaður útvarpsráðs, hv. þm. Benedikt Gröndal, sagt, að núverandi ástand í sjónvarpsmálum sé andstyggileg sjálfhelda og rekstur amerískrar sjónvarpsstöðvar við hlið væntanlegs íslenzks sjónvarps gangi ekki til frambúðar. Og samkv. því, sem blað, sem Ingólfur nefnist, skýrði frá hinn 17. júní í vor, hafði hæstv. menntmrh. á fundi um sjónvarpsmál þá nýlega sagt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh. kvaðst telja núverandi ástand í sjónvarpsmálum óviðunandi fyrir sjálfstæða menningarþjóð. En eins og nú væri komið, yrði ekki ráðin bót á því, fyrr en komið væri á önnur vegamót. Þegar íslenzkt sjónvarp hefði tekið til starfa, taldi hann rétt að taka leyfisveitingun til varnarliðsins til endurskoðunar, og kvað hann það vera sína persónulegu skoðun, að þá ætti að takmarka hið erlenda sjónvarp við Keflavíkurflugvöll einan.“

Nú leyfi ég mér að lokum að spyrja: Hefur hæstv. menntmrh. tekið þetta mál upp innan ríkisstj., og ef svo er, hefur viðhorf hæstv. ráðh. þá sigrað innan stjórnarinnar eða hefur hann beðið ósigur í málinu?