17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

208. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurt er, hvenær gert sé ráð fyrir, að íslenzkt sjónvarp tæki til starfa. Ráðgert er, að íslenzkt sjónvarp hefjist á árinu 1966, eins og áætlað var í áliti n. þeirrar, sem skipuð var til þess að gera athuganir og áætlanir í sjónvarpsmálinu á sínum tíma.

Í júní s.l. festi Ríkisútvarpið kaup á húseign við Laugaveg 176 í Reykjavík í því skyni, að sjónvarpsstöð Ríkisútvarpsins fengi það til afnota. Kaupverð var 12.5 millj. kr., og var helmingur staðgreiddur, en afgangurinn á að greiðast á 5 árum. Þegar hefur verið varið rúmum 200 þús. kr. til breytinga á húsinu, en miklar framkvæmdir eru þar eftir. Helztu starfsmenn sjónvarpsins hafa þegar verið ráðnir. Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir allt að 30 manna starfsliði. Búið er að ganga formlega frá ráðningu 5 starfsmanna, þ.e.a.s. skrifstofustjóra, deildarverkfræðings, tveggja dagskrárstjóra og kvikmyndatökumanns. Ákveðin hefur verið ráðning 15 annarra starfsmanna sjónvarpsins, þar af 4 dagskrármanna og 11 tæknimanna. Munu tæknimennirnir allir fara utan til þátttöku í 3 1/2 mán. námskeiði, er danska sjónvarpið skipuleggur sérstaklega fyrir þá, en dagskrármennirnir munu leita í ýmsar áttir til þess að afla sér menntunar og reynslu. Ýmisleg tæki í þágu sjónvarpsins hafa þegar verið keypt. Ber þar fyrst og fremst að nefna sjálfan sendi Reykjavíkurstöðvarinnar, sem kostar um 4 millj. kr., og myndsegulband, sem kostar um 3.3 millj. kr. Eru þá ótalin ýmis smærri tæki. Sjónvarpssendingarnar munu þó ekki hefjast með þessum nýja sendi Reykjavíkurstöðvarinnar, heldur með tækjum, sem fengin hafa verið eða verða að láni frá norrænu sjónvarpsstöðvunum, en meðal þeirra eru sendir og ýmis stjórntæki, mælitæki og kvikmyndatökutæki, textavél, ljósabúnaður og framköllunartæki. Enn fremur hefur sænska sjónvarpið boðizt til þess að lána fullkomna upptökubifreið, en tæki hennar yrðu notuð sem stúdiótæki til bráðabirgða. Að fenginni reynslu munu þessi lánstæki annaðhvort verða endurnýjuð með nýjum erlendum tækjum eða þau keypt af norrænu sjónvarpsstöðvunum.

Þá er spurt, hvenær áætlað sé, að íslenzkt sjónvarpskerfi verði komið í það horf, að sjónvarpssendingar geti náð til allra landsbúa. Í áætlunum sjónvarpsnefndarinnar var við það miðað, að sjónvarpssendingar gætu náð til allra landsbúa á næstu 7 árum eða svo. Þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar af hálfu ríkisútvarpsins, eru ekki einungis miðaðar víð það, sem óhjákvæmilega er fyrsta stig framkvæmdanna, að koma upp sjónvarpsstöð í Reykjavík, heldur eru þær einnig frá upphafi miðaðar við framkvæmd landskerfisins. Þannig er húsið, sem keypt hefur verið fyrir sjónvarpið, miðað við það, að þar geti farið fram nauðsynleg starfsemi fyrir allt landskerfið. Einnig hafa verkfræðingar Landssímans framkvæmt á vegum Ríkisútvarpsins nauðsynlegar mælingar víða um land til rannsóknar á beztu möguleikum sjónvarpsins og dreifingar þess um landið á grundvelli þeirra áætlana, sem á sínum tíma voru gerðar í sjónvarpsnefndinni í samvinnu við innlenda og erlenda sérfræðinga.

Þá er spurt, hvaða áætlanir liggi nú fyrir um stofnkostnað og rekstrarkostnað íslenzks sjónvarps. Til 1. nóv. s.l. hafa tekjur þær, sem lögum samkv. eiga að ganga til stofnunar og rekstrar íslenzks sjónvarps, numið 27.5 millj. kr. En tekjur sjónvarpsins eru annars vegar aðflutningsgjöld af sjónvarpsviðtækjum og hins vegar einkasölugjöld af innfluttum tækjum. Frá upphafi hefur verið ráð fyrir því gert, að allur kostnaður við stofnun og rekstur sjónvarpsins yrði greiddur með aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum, einkasölugjöldum af þeim, afnotagjöldum sjónvarpsnotenda og auglýsingatekjum sjónvarpsins sjálfs. Aldrei hefur verið gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði beint fram neitt fé til sjónvarpsins. Af þessum 27.5 millj. kr. tekjum hefur ríkisútvarpið þegar notað um 9 millj. kr. Helztu greiðsluliðirnir eru þessir: Kostnaður við sjónvarpshús 6.3 millj. Mælingar, aðallega utan Reykjavíkur, vegna dreifingarkerfisins 770 þús. Greiðslur upp í áhöld og tæki 640 þús. Ýmis undirbúningskostnaður og ferðakostnaður sjónvarpsmanna 246 þús. Laun 275 þús. Innréttingar á sjónvarpshúsi 112 þús. Kaupverð bifreiðar 127 þús. Ýmis annar kostnaður 430 þús. Ekki er enn hægt að gera nákvæma áætlun um, hver verða muni heildarstofnkostnaður íslenzka sjónvarpsins, pegar það byrjar fyrstu sendingar sínar, m.a. og raunar fyrst og fremst af því, að ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um, hversu lengi verður notazt við lánstæki frá norrænu sjónvarpsstöðvunum og hvort eða að hversu miklu leyti leitað verður eftir kaupum á þeim eða ný tæki keypt í staðinn. Reynslan verður höfð til leiðbeiningar um ákvarðanir í þessum efnum. Varðandi rekstrarkostnaðinn er enn byggt á þeim áætlunum, sem sjónvarpsnefndin gerði á sínum tíma, en þá var gert ráð fyrir 20 millj. kr. rekstrarkostnaði á fyrsta heila starfsárinu og að árlegur rekstrarlostnaður yxi síðan að óbreyttu verðlagi upp í 40 millj. kr. 1972.

Þá er spurt, hvort ríkisstj. hafi látið semja frv. til l. um íslenzkt sjónvarp. Í gildandi l. um Ríkisútvarpið er talin felast heimild til þess að taka einnig upp sjónvarpsrekstur, ef fé er veitt í því skyni. 7. ágúst 1964 fól menntmrn. Ríkisútvarpinu að hefja undirbúning að því að koma sem fyrst á laggirnar íslenzku sjónvarpi og skyldi í fyrsta áfanga stefnt að byggingu sjónvarpsstöðvar í Reykjavík, en siðan smám saman komið á fót kerfi til endurvarps um allt landið, eftir því sem fjárhagsgeta sjónvarpsins leyfði. Alþ. samþykkti á sínum tíma að verja einkasölugjöldum af innfluttum sjónvarpstækjum til undirbúnings sjónvarpsrekstrar, og síðar, að tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum skyldu notaðar til stofnunar og rekstrar sjónvarps. Í fjárlagafrv. fyrir 1966 er gert ráð fyrir 42 millj. kr. tekjum og gjöldum vegna sjónvarps, bæði vegna stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar. Samþykki hins háa Alþ. á þessum fjarlagaákvæðum er auðvitað, ásamt gildandi l. um Ríkisútvarpið og fyrri samþykktum Alþ. um ráðstöfun einkasölugjalds og tolltekna af sjónvarpstækjum fullgildur lagagrundvöllur undir stofnun og rekstri íslenzks sjónvarps. Engin þörf er því á sérstökum lögum um sjónvarpið. Hins vegar er heildarendurskoðun á l. um Ríkisútvarpið til athugunar.

Þá er að lokum spurt, hvort ríkisstj. hafi með hliðsjón af tilkomu íslenzks sjónvarps endurskoðað afstöðu sína til sjónvarpsrekstrar varnarliðsins. Þessu er því til að svara, að ríkisstj. hefur engar ákvarðanir tekið um breytingu á leyfisveitingunni til handa varnarliðinu til starfrækslu sjónvarpsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.