17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (3129)

208. mál, sjónvarpsmál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég mun aðeins segja örfá orð út af lagalegri hlið sjónvarpsmálsins, sem hér hefur komið til umr.

Ég er algerlega ósammála hv. síðasta ræðumanni um það, að útvarp og sjónvarp séu sitt hvað. Útvarp og sjónvarp eru nákvæmlega það sama, aðeins sá litli tæknilegi munur, hvort það, sem sent er út og fólk tekur á móti, er hljóðbylgja eða myndbylgja. Ég hygg, að það sé fullkomlega eðlilegt að líta þannig á, að löggjöf um útvarp geti gilt á sama hátt bæði um sjónvarp og hljóðvarp. Þegar athugað er, hvaða atriði eru í lögum um slíka stofnun, t.d. allt, sem varðar félagsleg afskipti, óhlutdrægni og annað slíkt, sést, að vandamálin eru nauðalík. Það er því fullkomlega eðlilegt sjónarmið hjá hæstv. menntmrh. og í algeru samræmi við viðhorf, sem ég þekki til í öðrum löndum, að líta svo á, að löggjöfin um útvarp heimili þau fyrstu skref, sem stiga þarf og hafa verið stigin til undirbúnings sjónvarps. Hér hefur því ekki verið sett upp ný stofnun og ekki stofnað til nýrra embætta í þeim skilningi, heldur hefur aðeins færzt vöxtur í þá ríkisstofnun, sem heitir Ríkisútvarp, í sambandi við þessa nýju deild. Er það ekkert nýtt og þarf ekki samþykki Alþingis í hvert skipti, sem ríkisstofnanir setja upp nýjar deildir og færa örlítið út starfsemi sína.

Nú vil ég spyrja um eitt: Þurfti Landssími Íslands að fá nýja löggjöf um sjálfan sig og sína starfsemi, þegar hann breytti úr síma eftir þræði og í þráðlausan síma? Og ég vil enn fremur spyrja: Er það ólöglegt eða þarf til þess sérstaka löggjöf, að Landssíminn megi senda myndir frá meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum hingað til lands, eins og hann gerir? Starfsemi Landssímans í dag er alls ekki takmörkuð við að flytja hljóð. Landssíminn flytur myndir hingað til lands frá útlöndum og héðan til útlanda, og enginn hefur talið ástæðu til að setja sérstaka löggjöf um það.

Ég vil minna á, að sett var n. til þess að fjalla um undirbúning sjónvarps, og í þá nefnd voru valdir sömu menn, sem Alþingi hafði kosið í útvarpsráð. Og þegar breyting varð á útvarpsráði, þannig að einn flokkur féll þar út, en annar fékk 2 fulltrúa, var fyrri mönnum haldið, svo að allir flokkar ættu þar fulltrúa.

Um löggjafaratriðið segir í skýrslu þessarar sjónvarpsnefndar það, sem nú skal greina, með leyfi hæstv. forseta:

„Útvarpslöggjöfin er í meginatriðum 30 ára gömul, enda þótt ýmsar breytingar hafi verið gerðar á henni. Senn verður rétt að taka hana til rækilegrar endurskoðunar með tilliti til breyttra tíma. Ekki virðist skynsamlegt að láta slíka endurskoðun fara fram, rétt áður en íslenzkt sjónvarp hefst, meðan engin reynsla er fengin af því eða þeim vandamálum, sem kunna að rísa með því. Væri betra að öðlast fyrst 2—3 ára reynslu af sjónvarpi og taka svo löggjöfina í heild til endurskoðunar.“

Þetta var sjónarmið undirbúningsnefndar sjónvarpsins, þar sem fulltrúar allra flokka áttu sæti. Ég vil minna á, að ég hef tvisvar sinnum á undanförnum árum, a.m.k. í annað skiptið með þm. úr Framsfl. og Sjálfstfl., flutt till. um endurskoðun útvarpslöggjafarinnar, en Alþ. sjálfu þóknaðist ekki að afgreiða þær. Hins vegar hefur það sjónarmið ríkt, og ég hygg, að það sé sjónarmið hæstv. ráðherra, að þegar komið er svo nærri sjónvarpinu, sem við höfum verið síðustu 2—3 árin, sé rétt að sjá, hvernig þessi stofnun mótast í höndum okkar og hver þau vandamál verða, sem við stöndum sérstaklega frammi fyrir, og sé því eðlilegast og skynsamlegast að láta þá endurskoðun fara fram jafnóðum og við fáum fyrstu reynslu af sjónvarpinu. En hitt er fullkomlega eðlilegt, að Alþingi fái næg tækifæri til þess að fjalla um málið. Hefur raunverulega ekkert verið gert, sem máli skiptir, nema í beinu sambandi víð samþykktir Alþingis um það að veita ákveðið fé til þessara mála, og er það kjarninn í valdi Alþingis, hvernig það fer með fjármuni þjóðarheildarinnar.