24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

209. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Sveitarfélögum landsins eru ætluð margs konar og mikilsverð verkefni í þjóðfélaginu. Til þess að leysa mörg þeirra verkefna, þurfa sveitarfélögin á miklu lánsfé að halda, meira lánsfé, en þeim hefur reynzt auðvelt að fá hjá lánastofnunum að undanförnu. Óhætt má fullyrða, að lánsfjárskorturinn hefur staðið sveitarfélögunum fyrir þrifum. Á ég þar bæði við vöntun á fé til stofnlána til langs tíma og einnig vöntun á skyndilánum til rekstrar. Sérstaklega knýja þó miklir fjárfestingartímar, eins og nú hafa verið um skeið, fast á í þessum efnum.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur, eins og eðlilegt er, haft lánamálin á dagskrá. Og fyrir áhrif frá þeim samtökum skipaði hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, nefnd 1963 til þess að fjalla um þessi málefni. N. skilaði till. í frv.-formi um lánasjóð sveitarfélaga, og ráðh. lagði frv. þetta fyrir hv. Nd. á seinasta þingi. Frv. hafði inni að halda mikilsverð ákvæði fyrir sveitarfélögin. Það fékk ágætar undirtektir, fór með shlj. stuðningi allra flokka gegnum 1. umr. og til hv. heilbr.- og félmn. í Nd., og mælti n. með samþykkt frv. En síðan ekki söguna meir á því þingi. Hæstv. ríkisstj. virtist, þegar þarna var komið, hafa misst áhugann á þessu frv. sínu. Hún lét það daga uppi. Eitthvað hafði komið fyrir hið innra með henni. En hvað var það? Því hélt hún leyndu, nema ef til vill innan fjölskyldu sinnar?

Mér er óhætt að fullyrða, að þetta urðu sveitarstjórnarmönnum um land allt mikil vonbrigði. Við hv. meðflm. minn að þessari fsp., 3. þm.

Vesturl., ákváðum okkar á milli að taka málið upp á næsta þingi, þ.e. þessu þingi, ef stjórnin endurflytti það ekki. En í haust, þegar hæstv. núv. fjmrh., flutti fjárlagaræðu sína, minntist hann lauslega á málið, og af orðum hans var hægt að láta sér detta í hug, að ríkisstj. mundi endurflytja frv. Við höfum því ekki tekið það upp til flutnings enn, töldum, að eðlilegra væri, að ríkisstj. sjálf legði það aftur fyrir þingið. Hins vegar líður þingtíminn hratt, og frv. gerir ráð fyrir framlagi til lánasjóðsins úr ríkissjóði. Ef lánasjóðurinn á að geta tekið til starfa á næsta ári, eins og nauðsynlegt er að hann geri og engin ástæða er til að mínu áliti að draga, þarf að ætla fé til hans á fjárlögum þeim, sem afgreidd verða væntanlega í næsta mánuði. Flutningur málsins má þess vegna ekki dragast meira en orðið er og hefur raunar dregizt óhæfilega lengi.

Af ástæðum þeim, sem ég nú hef greint, er fsp. fram borin, og leyfi ég mér að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. telji ástæðu til að gefa við henni skýr svör. En fsp. er, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Ætlar ríkisstj. ekki að endurflytja frv. til I. um lánasjóð sveitarfélaga, sem kom fram sem stjórnarfrv. á síðasta þingi, en var af einhverjum ástæðum ekki fylgt eftir til afgreiðslu? Og ef hún ætlar að endurflytja frv., hvers vegna lætur hún það dragast?“