24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3137)

209. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Svörin voru samt sem áður, að mínu áliti, ekki svo æskileg sem skyldi. Þau bera með sér, að hæstv. ríkisstj. ætlar að fresta lánsstofnunarmáli sveitarfélaganna enn. Það tel ég slæmar fréttir. Vel má vera, að rétt sé að samræma starfsemi stofnlánasjóða þeirra, sem eru starfandi í þjóðfélaginu, og ekki skal ég hafa á móti því, að það sé athugað, hvernig það verður bezt gert og hvernig heppilegast er að afla fjár til slíkra sjóða. En ég er viss um, að sú athugun mun taka langan tíma. Hitt er ég líka viss um, að hún er ekki eins aðkallandi og stofnun lánasjóðs sveitarfélaganna. Frv. um lánasjóðinn er vel undirbúið. Það var undirbúið af n., sem vandaði störf sín mikið, mér er það kunnugt. Og sá sjóður á ekki aðeins að vera stofnlánasjóður, heldur líka fyrirgreiðslustofnun sveitarfélaganna um útvegun rekstrarlána og hagræðingu lánsfjármála yfirleitt. Ég tel, að þennan sjóð megi og eigi að stofna nú þegar, þótt athuga eigi fyrir framtíðina stofnlánasjóðastarfsemina yfirleitt. Auðvitað má þá breyta þessum sjóði, ef ástæða þykir til, en að láta stofnun hans bíða enn óákveðinn tíma er ekki rétt og ekki hyggilegt. Ég get ekki að því gert, að ég gruna hæstv. ríkisstj. um, að hún vilji spara í næstu fjárlögum þær 15 millj., sem frv. gerir ráð fyrir að ríkissjóður leggi árlega til sjóðsins. Ég skal viðurkenna, að sparnaðar kann að vera þörf. En þessi sparnaður er ekki ráðdeildarlegur. Hann hefnir sín með erfiðleikum sveitarfélaganna. Á það ber stjórn ríkisins að lita, svo þýðingarmiklu hlutverki gegna sveitarfélögin.

Ég leyfi mér að skora á hæstv. ríkisstj. að endurflytja frv. sitt frá í fyrra um lánasjóð sveitarfélaga og búa þannig um hnúta, að hann geti tekið til starfa 1966.

Til viðbótar þessum orðum mínum vil ég geta þess, að ráðstefna sveitarstjórnarmanna, sem er rétt afstaðin hér, samþykkti að því er snertir þetta frv. svo hljóðandi yfirlýsingu:

„Ráðstefnan ályktar að fela stjórn sambandsins að fylgja því fast fram, að frv. um lánasjóð sveitarfélaga, sem lagt var fyrir síðasta Alþ., nái fram að ganga á því þingi, sem nú situr.“

Á þessari ráðstefnu voru mættir á annað hundrað menn frá sveitarfélögum landsins, og ég tel fulla ástæðu til þess fyrir hæstv. ríkisstj. að taka þessa ályktun þeirrar ráðstefnu til greina, skylt að gera það.