24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (3138)

209. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég kaus að svara þessari fsp. í stuttu máli og skýra efnislega aðeins frá því, sem fsp. gaf tilefni til, en gerði ekki ráð fyrir því, að hér yrðu vaktar sérstaklega almennar umr. um lánamál sveitarfélaga. Það hefur að vísu margt í þessum fyrirspurnatímum komið fram ú þann veg, að það hafa verið hafnar um það almennar umr. á breiðum grundvelli, en ég er þeirrar skoðunar, eins og raunar margir hv. þm. hafa lýst yfir, að fyrirspurnatímar séu ekki til slíkra umr.

Þar sem hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) hins vegar ræddi hér allmikið efnislega um stofnlánamálin og byggði ræðu sína upp sem framsöguræðu fyrir ýmsum þáttum þess vanda, sem þar er við að glíma, og enda í seinni ræðu sinni vék einnig að þeim efnislega og lét orð falla að því í fyrri ræðu sinni, að hér væri um að ræða sýnilegt áhugaleysi ríkisstj. á þessum vandamálum sveitarfélaganna, þá kemst ég ekki hjá því, herra forseti, að fara aðeins örfáum orðum um það efni.

Það er alveg rétt, að frv. til laga um lánasjóð sveitarfélaga var lagt hér fram á síðasta Alþingi sem niðurstöður af tillögum nefnda, sem um það mál höfðu fjallað. Með framlagningu þess var því engan veginn slegið föstu af ríkisstj., að endilega skyldi þessi leið farin til þess að leysa þennan vanda. Það kemur iðulega fyrir, að frv., sem eru samin af nefndum, eru lögð fram sem stjórnarfrv., án þess að endilega hafi verið tekin nákvæmlega afstaða um það, að þar í mætti engu breyta og skyldi fram ganga eins og n. hefði frá því gengið.

Ástæðan til, að frv. var ekki endanlega afgreitt á síðasta þingi, var sú, að það þótti nauðsynlegt að athuga betur viss atriði þess, og fólst ekki í því, nema siður væri, nokkur fjandskapur til málsins í heild eða þess vanda, sem átti að reyna að leysa með þessu frv.

Hitt er auðvitað öllum hv. þm. ljóst, að þetta frv. út af fyrir sig, nákvæmlega eins og frá því er gengið, er enginn lífselexír í sambandi við lánamál sveitarfélaga, þannig að það má hugsa sér, að það sé hægt að koma þeim málum fyrir með einhverjum öðrum hætti varðandi fjáröflun og annað. Og þegar ákveðið var af ríkisstj. í sumar að taka til athugunar í senn að víkka grundvöllinn undir framkvæmdaáætlunum, þannig að reyna að láta þær ná einnig til sveitarfélaganna, eins og mikið var rætt um á umræddri ráðstefnu sveitarfélaganna, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. vitnaði til, og jafnframt hlaut að koma til athugunar, með hverjum hætti væri hægt að vinna að stofnfjáröflunarmálum í senn fyrir sjóði atvinnuveganna og til framkvæmda ríkis og sveitarfélaga, þá þótti eðlilegt að taka þessi mál upp sameiginlega og stofnlánamálin í heild í sambandi við athugun á þessu máli öllu saman.

Sveitarfélögin eru vitanlega veigamikill aðili í framkvæmdamálum í landinu á hverjum tíma, og það hefur orðið æ ljósara, eftir því sem reynslan hefur komið betur fram, að það ber brýna nauðsyn til, að þau komi inn í framkvæmdaáætlunargerð, engu síður en ríkið. Samaðild ríkis og sveitarfélaga á svo mörgum sviðum er svo rík, að það er óumflýjanlegt annað en að samræmi sé þar á milli framkvæmda hverju sinni, þannig að sveitarfélög ráðist t.d. ekki í dýrar framkvæmdir, sem ríkið telur sér ekki fært að greiða sinn hluta af, fyrr en svo og svo löngu seinna, og þá jafnframt, að reynt sé að athuga, að það séu ekki lagðar sérstakar byrðar á sveitarfélögin, sem þeim er um megn að rísa undir.

Það mun koma í ljós, enda var það, held ég, greinilega ljóst öllum þeim, sem sátu umrædda sveitarstjórnarmálaráðstefnu nú, að þessi vandamál ríkis og sveitarfélaga eru svo nátengd, að þau verða naumast með góðu móti sundurgreind, og það er öllum ljóst, að það verður að vera fyrir hendi einhver grundvöllur til þess, að sveitarfélögin geti aflað sér lánsfjár. Þar með er ekki sagt, að það eigi að afla þeim lánsfjár til allra þeirra hluta, sem þeim dettur í hug að framkvæma. Þau auðvitað verða að sníða sér sinn stakk, nákvæmlega eins og ríkið verður að gera í sínum framkvæmdamálum. Það eru á hverjum tíma uppi miklu meiri óskir og tillögur um framkvæmdir á vegum ríkisins í mörgum greinum heldur en nokkur leið er að afla fjár til, og það hefur vitanlega komið í ljós við framkvæmdaáætlanir þær, sem gerðar hafa verið. Með því hins vegar að gera þessar áætlanir fyrir fram, sem í einni grein hefur einnig náð til sveitarfélaganna og verið þeim til mikils hagræðis, en það er í sambandi við hafnargerðirnar, þá er þó nokkurn veginn tryggt, að út í þessar framkvæmdir verði ekki ráðizt með þeim afleiðingum, að þær strandi í miðju kafi. Það er engum til góðs og sízt af öllu sveitarfélögunum.

Það er öllum ljóst, að hvað sem líður því frv. um lánasjóð sveitarfélaga, sem hér er um að ræða, og ég skal alls ekki gera lítið úr, þá leysir þessi sjóður ekki nema að mjög takmörkuðu leyti þann vanda, sem hér er við að glíma. Það er að vísu gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi í hann 15 millj. og 15 millj. komi frá sveitarfélögunum úr jöfnunarsjóði, sem hvort sem er ætti að renna til sveitarfélaganna og að sjálfsögðu gerir það, ef þessi sjóður verður stofnaður í þessari mynd. Það má því segja, að nýtt fé fyrir sveitarfélögin samkv. þessu frv. sé ekki annað en 15 millj. frá ríkissjóði og svo meira og minna að vísu óákveðið orðalag um það, að sjóðurinn eigi að beita sér fyrir að greiða fyrir rekstrarlánamálum sveitarfélaga og á hinn bóginn að gefa út skuldabréf og freista að sjálfsögðu að selja þau og afla lána til frekari þarfa sveitarfélaganna.

Ég held, að það þurfi að tengja þennan sjóð, þegar hann verður stofnaður, — og ég tel víst, að hann verði stofnaður í einhverri mynd, og nauðsynlegt, — þá þurfi að tengja hann við framkvæmdasjóð ríkisins á þann veg, að það verði reynt að sjá honum raunverulega fyrir því lánsfé, sem nauðsynlegt er hverju sinni til að tryggja framgang framkvæmdaáætlana sveitarfélaga. Og það er auðvitað grundvallaratriði, að frá byrjun sé tryggð samvinna milli hins væntanlega lánasjóðs og framkvæmdasjóðs ríkisins og ríkisvaldsins í sambandi við framkvæmdaáætlunargerð þess.

Þetta tel ég miklu meira höfuðatriði en það, hvort frv. um lánasjóð kemur fram fyrr eða seinna. Og þó að sveitarstjórnarmálaráðstefnan hafi, svo sem hv. þm. sagði, samþ. ákveðna till. um, að þetta frv. yrði flutt nákvæmlega í því formi, sem það er hér, þá tel ég ekki, að það þurfi að sanna neitt um, að það sé rétt að gera það. Ég lýsti ákveðið skoðun minni á ráðstefnu sveitarfélaganna um þennan vanda, sem ég hef hér farið nokkrum orðum um, og að það væri mikill vilji hjá ríkisstj. fyrir því að reyna að greiða fyrir lánsfjármálum sveitarfélaganna. Ekki sízt ef framkvæmdamálum þeirra yrði komið í eðlilegt horf og framkvæmdaáætlanir þeirra gerðar í samræmi við framkvæmdaáætlanir ríkisins hverju sinni, þá væri mikill vilji fyrir því að reyna að leysa úr þeim vandkvæðum, sem sveitarfélögin eiga hér við að stríða. Ég tók það hins vegar skýrt fram, að hvort það yrði nákvæmlega gert á þennan hátt, sem hér er gert, eða ekki, það álít ég ekki öllu máli skipta. Og mér er það ekkert launungarmál, sem ég býst einnig við að hv, þingmönnum sé fullkomlega ljóst, miðað við þær ástæður, sem eru hjá ríkissjóði nú, að ég tel ekki miklar líkur til þess, að það sé auðið að Ieggja á ríkissjóð að leggja fram 15 millj. kr. í þennan lánasjóð, eins og nú er ástatt um og horfur um fjárhag ríkissjóðs á næsta ári. Á síðasta þingi var þetta frv. lagt fram og þá með þeim fyrirvara, að þetta kæmi ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1966, án þess að nokkur vissa væri fyrir um það, hvernig horfur yrðu þá með fjárhag ríkissjóðs. Það er hins vegar öllum hv. þm. ljóst, hverjar slíkar horfur eru, og ég er ekki alveg sannfærður um, að það sé almennt fylgi fyrir því hér á hinu háa Alþingi, að endilega þær 15 millj. kr., ef til væru, væri rétt að leggja í einhvern lánasjóð í stað þess að verja þeim til ýmissa ákveðinna þarfa, sem Alþingi ráðstafaði fé til. Með þessu er ég ekkert að segja um, að það verði ekki lögð fjárhæð af ríkisins hálfu til lánasjóðsins, þegar þar að kemur, það er allt annað mál. En út af því, sem hv. þm. sagði beinlínis um nauðsyn þess að taka málið upp núna, áður en fjárl. verða afgreidd, þá tel ég ekkert á móti því, að þetta komi fram, að ég tel ekki auðið, eins og sakir standa nú, að leggja fram það fé, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja frekar um þetta mál, ef ekki gefast tilefni til þess. En ég vil aðeins endurtaka það, að þetta mál er í athugun og sérstaklega þetta frv. samhlíða þeim tillögum eða athugunum, sem uppi hafa verið um fjárfestingarlánamálin almennt, og ég tel mig geta fullyrt, að það muni birtast innan tíðar ásamt þeim málum, þegar þau liggja endanlega fyrir. Og það er eins og var lýst yfir af hæstv. forsrh. í upphafi þings í haust, þá er ákveðið, að um þau efni verði sett löggjöf nú á yfirstandandi þingi.