16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

210. mál, lýsishersluverksmiðju

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda vildi ég gefa þessar upplýsingar:

Svo sem hann réttilega gat um, var hinn 5. maí 1965 samþ. á Alþ. þál, um lýsisherzluverksmiðju. Ályktaði Alþ. að fela ríkisstj. að láta þegar kanna möguleika á sölu hertrar síldarfeiti á erlendum mörkuðum og gera að öðru leyti rækilegar rannsóknir á því, hvort orðið sé tímabært að byggja verksmiðju til herzlu síldarlýsis samkv. ákvæðum l. nr. 93 frá 1942. Sýni rannsóknin hagstæða útkomu, skal þegar kanna til hlítar, hvar verksmiðjan skuli staðsett, og að því loknu hefja undirbúning að byggingu hennar.

Með skírskotun til þessarar samþykktar Alþ. ritaði rn. síldarverksmiðjum ríkisins hinn 25. maí s.l. bréf, þar sem rn. fól verksmiðjunum að kanna möguleika á sölu hertrar síldarfeiti á erlendum mörkuðum og gera að öðru leyti rækilegar rannsóknir á því, hvort nú orðið sé tímahært að byggja verksmiðju til herzlu síldarlýsis samkv. fyrrgreindum lögum, eins og í þál. segir. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa síðan haft mál þetta til athugunar. Í ljós hefur komið, að vegna mikilla anna við dagleg störf í þágu verksmiðjanna hafa framkvæmdastjórar síldarverksmiðja ríkisins ekki haft aðstöðu til þess að sinna athugun þessari sem skyldi. Af þeim sökum fór stjórn síldarverksmiðja ríkisins þess á leit við rn. fyrir skömmu, að ráðinn yrði sérstakur maður til þessara starfa. Lagði rn. svo fyrir, að það skyldi gert. Jón Gunnarsson verkfræðingur hefur nýlega verið ráðinn til þessa starfs. Hefur hann þegar hafið rannsóknir sínar og hefur gert ráð fyrir, að athugun þessari, sem er mikil og vandasöm, verði lokið eftir 3–4 mánuði.

Ég vænti, að þetta svar fullnægi hv. fyrirspyrjanda, því að önnur svör er ekki mögulegt að gefa á þessari stundu.