16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3160)

210. mál, lýsishersluverksmiðju

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er spurt um framkvæmd á, var flutt af okkur þm. úr Norðurl. v., bæði kjörnum og landsk.. að tilhlutan atvinnumálaráðstefnu verkalýðsfélaganna á Siglufirði. Það þarf ekki að taka það fram, eins og raunar kom glögglega fram í þáltill. hér í fyrra, að þessi hugmynd hefur oft verið á döfinni áður og fyrir hefur legið ónotuð lagaheimild í málinu í 26 ár. Nú eru liðnir allmargir mánuðir, síðan þáltill. var samþ., og var því eðlilegt, að spurt væri, hvað til stæði í þessum málum og hvað rannsóknirnar hefðu leitt í ljós.

Það var nú heldur lítið að græða á upplýsingum ráðh., þó að vissulega bæri að þakka þær. því miður vill það oft vera svo hjá hæstv. ríkisstj., að henni er falið að rannsaka hluti, og málin dragast síðan von úr viti. Í þessu máli er vissulega aðalatriðið, hvort unnt er að finna markað eða ekki. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það er unnt. En ég vildi leyfa mér að fullyrða, að ef það ætti að takast, þyrfti töluvert meiri kraft af hálfu ríkisstj. í þessu máli en verið hefur fram til þessa.

Nú standa yfir viðræður um byggingu alúminíumverksmiðju hér á Íslandi, en það mun vafalaust verða mesta stórmálið, sem tekið verður fyrir á þessu þingi. Formælendur þessarar samningsgerðar básúna mjög þá fullyrðingu sína, að stóriðjuframkvæmdirnar muni veita nýju lífi í íslenzka atvinnuvegi. Þó er vitað, að verksmiðjan á að verða eign erlendra manna, vinna úr erlendu hráefni og hlutverk okkar Íslendinga verður ekki annað en að selja raforku á kostnaðarverði. Ég ætla ekki að fjölyrða hér um þessa fyrirhuguðu samningsgerð, en ég vil aðeins minna á í þessu sambandi, vegna þess að þessi mál ber að um svipað leyti, að bygging lýsisherzluverksmiðju væri íslenzk stóriðja, sem bæri nafn með rentu. Hér væru Íslendingar sjálfir að verki. Hér væri eingöngu byggt á íslenzku hráefni. Og bygging slíkrar verksmiðju á Norðurlandi mundi stórum bæta atvinnulíf í þeim landshluta og þannig hafa bætandi áhrif á atvinnulíf og efnahagskerfi landsmanna í stað þess að stuðla að aukinni þenslu hér sunnanlands, eins og alúminíumverksmiðjan mun gera, og hafa almennt hin verstu áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar og jafnvægi í byggð landsins.

Það er ástæðulaust að vera að fjölyrða um þessi mál hér í fsp.-tíma, en ég vildi aðeins segja að lokum, að mér er nær að halda, að hæstv. ríkisstj. ynni þjóðinni allmiklu þarfara verk með því að eyða leyfi sínu til undirbúnings byggingar lýsisherzluverksmiðju í stað þeirra leynifunda við erlenda aðila, sem nú standa fyrir dyrum.