16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

212. mál, greiðsla sjúkrakostnaðar í einkasjúkrahúsum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Félmrn. fór þess á leit við Tryggingastofnun ríkisins, að hún svaraði þeim fsp., sem hér eru til umr., enda má segja, að fsp. beinist fyrst og fremst til stofnunarinnar. Af því tilefni tekur Tryggingastofnunin fram eftirfarandi í bréfi sínu, sem ég vil hér með gera að mínu svari við þessum fsp. báðum:

„Deilan við St. Jósefsspítalana í Reykjavík og Hafnarfirði leysist aðeins á þann hátt, að samningar takist um fulla greiðslu fyrir sjúkrahúsvist, þar með talin læknishjálp og annar kostnaður, sem vistin á sjúkrahúsi hefur í för með sér, eða til þess bær stjórnarvöld ákveði, hvaða greiðsla skuli vera full greiðsla fyrir alla þessa þjónustu.

Með bréfi, dags. 2. júní 1965, skrifar dóms- og kirkjumrn. Tryggingastofnun ríkisins eftirfarandi bréf:

„Með vísun til viðræðna við herra forstjóra Sverri Þorbjörnsson fer rn. þess hér með á leit við Tryggingastofnun ríkisins, að hún framlengi til bráðabirgða, þó eigi lengur en til áramóta, það samkomulag, sem gilt hefur við lækna á St. Jósefsspítalanum á Landakoti í Reykjavík um greiðslu læknisaðstoðar sjúklinga spítalans, sem lögheimili eiga utan Reykjavíkur, með viðeigandi lagfæringum vegna verðlagsbreytinga. Rn. mun á tímabilinu stuðla að því, að viðunandi lausn verði fundin á greiðslu rekstrarhalla spítalans vegna umræddra sjúklinga.“

Á grundvelli þessa bréfs reyndi Tryggingastofnunin að ná samningum við Læknafélag Reykjavíkur um greiðslu fyrir lækniskostnað til n.k. áramóta á einkasjúkrahúsum. En með bréfi, dags. 6. júlí 1965, staðfesti Læknafélag Reykjavíkur, að tilboð Tryggingastofnunarinnar, sem samsvaraði 8% grunnkaupshækkun frá fyrri samningum auk verðlagsuppbótar, væri ekki á lítandi. Væru kröfur Læknafélags Reykjavíkur, miðað víð fyrri samninga, um 60% hækkun, og þar sem svo mikið bæri á milli, hafi samningum verið frestað. Þar sem læknar voru þá þegar farnir að krefja sjúklinga um greiðslu samkv. gjaldskrá, sem var enn hærri en ofannefndar tölur sýna, átti Tryggingastofnun ríkisins ekki annarra kosta völ en að grípa til þeirra lagafyrirmæla að láta sjúkrasamlög endurgreiða sjúklingum legukostnað með fastri hámarksupphæð á dag, sem var jafnhá gjaldi samkv. ákvörðun heilbrigðisstjórnarinnar fyrir utanhéraðssjúklinga á sambærilegum opinberum sjúkrahúsum.

Eins og bréf dóms- og kirkjumrn. frá 21. júlí 1965 ber með sér, ætlaði það rn. að stuðla að því, að viðunandi lausn yrði fundin á greiðslu rekstrarhalla St. Jósefsspítalans vegna utanbæjarsjúklinga fyrir n. k. áramót, og hefur Tryggingastofnunin því beðið átekta að öðru leyti en því, að hún hefur ætíð verið reiðubúin til þess að taka upp viðræður við hvern þann aðila, sem eitthvað hefur haft fram að færa í málinu, sem vænlegt væri til lausnar þess. Í þeim tilgangi m.a. hefur stofnunin haft frumkvæði að því, að sett hefur verið á stofn sameiginleg samninganefnd ríkissjóðs, Tryggingastofnunar ríkisins og Sjúkrasamlags Reykjavíkur, sem nú hefur hafið störf sín, til þess að semja við þá aðila, sem fara með samninga fyrir lækna, sem starfa fyrir sjúkrasamlög, til þess á þann hátt að auðvelda stjórnarvöldum heildarsýn yfir ágreiningsefnin og til þess að tryggja, eins og frekast er hægt, fullkomna heilbrigðisþjónustu á grundvelli sjúkratrygginga.“

Ég vænti, að framangreind svör fullnægi óskum hv. fyrirspyrjanda.