16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (3166)

212. mál, greiðsla sjúkrakostnaðar í einkasjúkrahúsum

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðh., og ef ég hef skilið það rétt, sem hæstv. félmrh. upplýsti, að það sé fyrirætlun stjórnarvaldanna að leysa þetta mál á þann hátt að tryggja greiðslu á hallarekstri einkaspítalanna á annan hátt en þann, að sjúklingarnir greiði hann, eins og verið hefur nú undanfarið, þá fagna ég því, að það er í vændum. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég sagði áðan, að það ástand er óþolandi, að sumir þeir, sem þurfa á sjúkrahúsvist að halda, skuli sjálfir þurfa að greiða jafnvel þúsundir króna úr eigin vasa til þess að verða þeirrar sjúkrahúsvistar aðnjótandi, þótt þeir greiði til ríkis, bæja, Tryggingastofnunarinnar og sjúkrasamlaga eftir sömu reglum og aðrir.

Ég vek athygli á því, að þetta mál, sem snertir einkasjúkrahúsin, liti allt öðruvísi út, ef ríkissjúkrahúsin gætu tekið á móti öllum þeim sjúklingum, sem þar þurfa að fá inni, en svo er ekki. Þess vegna eiga margir sjúklingar ekki í önnur hús að venda en leita til einkasjúkrahúsanna. Og t.d. í Hafnarfirði er ekki um annað sjúkrahús að ræða, sem annast skurðaðgerðir. Vegna þessa ber stjórnarvöldunum skylda til að tryggja, að þeir þjóðfélagsþegnar, sem verða að leita til einkasjúkrahúsanna, njóti þar sömu kjara og þeir aðrir, sem fá inni í ríkissjúkrahúsunum. Það er t.d. ekki við því að búast, að Hafnarfjarðarbær geti leyst þetta mál á svipaðan hátt og Reykjavíkurborg hefur gert um greiðslur úr bæjarsjóði, vegna þess að það er ekki sambærilegt, þar sem aðalsjúkrahúsið í Hafnarfirði er einkasjúkrahús, en í Reykjavík dvelst aðeins mjög lítill hluti sjúklinganna á Landakoti. Allir vita að sjálfsögðu, að daggjöldin duga ríkisspítölunum ekki og sjúklingar á þeim eru ekki látnir greiða hallann, heldur greiðir ríkið hann: Samanlagður halli ríkisspítalanna, þegar daggjöldin höfðu verið dregin frá, nam um 60 millj. kr. árið 1964, en ríkisstyrkur til einkasjúkrahúsanna, St. Jósefsspítalanna í Hafnarfirði og Reykjavík, nam á sama tíma um 2 millj. 350 þús. kr.

Það er skoðun mín, að ef þetta mál verður ekki leyst með öðrum hætti, komi tvennt til greina: Annars vegar að ríkið greiði þessum sjúkrahúsum styrk, sem dugi til þess, að sjúklingar þar verði gjaldfríir eins og á ríkisspítölunum, eða þá að ríkið taki rekstur þessara sjúkrahúsa algerlega í sínar hendur. Það er a.m.k. óþolandi, að vegna þessarar deilu séu þessi sjúkrahús aðeins hálfnýtt, þegar sárlega skortir sjúkrarúm í landinu.

Ef stjórnarvöldin telja hins vegar, að ekki sé til fé til þess að gera þessa hluti og veita sjúklingunum lausn frá þessu ástandi, skal ég benda á leið, sem kæmi vel til greina að mínum dómi og gæti leyst þetta fjárhagsmál að einhverju eða öllu leyti, en hún er sú, að Tryggingastofnun ríkisins eða ríkið sjálft eða sjúkrasamlögin fái einkarétt til lyfjasölu í landinu. Þeirri skipan ætti að vera búið að koma á fyrir löngu. Það er engin ástæða til þess, að sala á lyfjum til sjúkra sé gróðalind fyrir einstaklinga, en það er ekki annað að sjá en einmitt lyfjasala sé einn mesti gróðavegurinn í verzlunarrekstri nú í dag.

Ég vil svo að lokum ítreka það, að það ástand, sem nú ríkir varðandi utanbæjarsjúklinga, sem vistast á St. Jósefsspítala í Reykjavík, og alla sjúklinga á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, hefur varað lengur en svo, að það sé viðunandi. Á því verður að fást lausn nú þegar, og ég vil leggja áherzlu á það, að þegar þetta mál verður leyst, verði séð til þess, að þeir sjúklingar, sem á þessu tímabili hafa orðið að greiða sjúkrahúsunum dvöl sína og læknishjálp að einhverju eða öllu leyti úr eigin vasa, fái þær upphæðir endurgreiddar. Á því eiga þeir fullan rétt.