02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

126. mál, dánar- og örorkubætur sjómanna

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fyrir rúmum 5 árum flutti ég ásamt núv. 5. þm. Vestf. (HV) frv. til l. þess efnis, að öllum íslenzkum sjómönnum yrðu tryggðar úr almannatryggingum sérstakar örorku- og dánarbætur, allt að 200 þús. kr. við fulla örorku eða dauða. Þá stóðu mál svo, að sjómenn í ýmsum sjómannafélögum nutu slíkrar tryggingar í kjarasamningum, en ýmis félög sjómanna höfðu ekki fengið þessi réttindi fram, og þessara sérstöku bóta nutu engir sjómenn á bátum undir 12 tonnum að stærð, þar sem ekki er lögskráð á þá báta og engir kjarasamningar gerðir fyrir þá. Þessara sértrygginga samkv. kjarasamningum hinna ýmsu sjómannafélaga njóta því engir sjómenn á bátum undir 12 tonnum enn í dag. Frv. okkar, sem var ætlað að koma í veg fyrir þetta misrétti, náði ekki fram að ganga, og fluttum við þá till. til þál. þess efnis, að ríkisstj. léti undirbúa og leggja fyrir Alþ. lagafrv., sem tryggði öllum íslenzkum sjómönnum þessar örorku- og dánarbætur. Loks kom að því fyrir réttum tveimur árum, — það eru víst tvö ár á föstudaginn kemur, — að þáltill. okkar var samþ. nokkuð breytt og var þá svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga, á hvern hátt megi tryggja, að allir íslenzkir sjómenn njóti sérstakrar slysatryggingar, eigi lægri en 200 þús. kr. miðað við fulla örorku eða dauða. Athugun skal lokið fyrir þinglok 1965.“

Þetta tímamark í lok þáltill. var sett samkv. ósk minni, og athugun þessa máls átti þannig samkv. samþykkt Alþ. að vera lokið fyrir þinglok 1965 eða í síðasta lagi fyrir um það bil ári. Þegar leið að þinglokum í fyrra og ekkert bólaði á niðurstöðu í þessu máli, lagði ég fram til hæstv. félmrh. sams konar fsp. og nú er hér aftur til umr., en hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„1. Hversu miðar þeirri athugun, sem gert er ráð fyrir í till. til þál. um sérstakar dánar- og örorkubætur sjómanna, sem samþ. var á Alþ. hinn 4. marz 1964?

2. Eru líkur á, að niðurstöður þeirrar athugunar verði lagðar fyrir Alþ. það, er nú situr?“ Af svörum hæstv. þáv. félmrh. hinn 28. apríl

1965 varð því miður ljóst, að slælega hafði verið að því staðið að tryggja framgang þess þingvilja, sem fyrir lá, að niðurstöður í þessu hagsmunamáli sjómanna yrðu fyrir hendi fyrir þinglok 1965. Þáltill. var samþ. hinn 4. marz 1964, og tíminn liður, án þess að n. sé skipuð til þess að vinna verkið. 30. júlí sama ár er skipuð n. til að athuga samkv. annarri þáltill., sem síðar var samþ., hvort unnt væri að breyta tryggingum, sem útgerðarmenn verða að kaupa, í eina tryggingu, og af svörum hæstv. félmrh. kom í ljós, að þeirri n. var svo einhvern tíma, — hvenær það var, veit ég ekki, — falið að framkvæma einnig þá athugun, sem þáltill. okkar hv. 5. þm. Vestf. fjallaði um.

Þegar komið var að því tímamarki, sem hv. Alþ. setti um lausn þessa máls, þinglokum 1965, lá ekkert fyrir um, hvernig störfum n. liði, nema það, að þeim mundi ekki ljúka fyrir tilsettan tíma. Nú fara þinglok að nálgast aftur og ekkert bólar enn á niðurstöðum af störfum þeirrar n., sem átti að skila af sér fyrir ári. Að öllum líkindum er ekki lengri tími til þingloka en svo, að það má ekki dragast lengur, að niðurstöður af störfum n. verði lagðar fyrir Alþ., til þess að það geti gengið endanlega frá afgreiðslu málsins á þessu þingi.

Ég hef því séð ástæðu til þess að spyrjast fyrir um málið á nýjan leik og legg þar fram sömu spurningar og ég las hér áðan og vænti þess, að svör hæstv. félmrh. geti verið jákvæðari en þau, sem veitt voru í fyrra. Ég skal ekki draga úr því, að það geti verið erfitt og vandasamt að finna lausn á því, á hvern hátt megi tryggja öllum íslenzkum sjómönnum sömu réttindi í tryggingarmálum. En ég hygg þó, að vandasamari mál hafi verið leyst á styttri tíma en þessi stjórnskipaða n. hefur haft til starfa, og sá dráttur, sem þegar er orðinn á afgreiðslu þessa máls, er óviðunandi.