09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

70. mál, sjálfvirkar símstöðvar í Gullbringu- og Kjósarsýslu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem fyrirspyrjandi sagði, að það er langt síðan þessari fsp. var útbýtt, en það er ekki af því, að það hafi ekki verið til svör við þessum fsp., að þeim hefur ekki verið svarað, heldur hafa verið ýmsar aðrar ástæður, sem hafa tafið málið.

Eins og fyrirspyrjandi sagði, hefur verið opnuð símstöð í Höfnum, síðan fsp. var útbýtt, og hv. fyrirspyrjandi hefur sagt það og lýst ánægju sinni yfir því, hversu mikið hefur nú verið gert í símamálum í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það má t.d. minna á það, að sjálfvirku stöðvarnar í Keflavík, Sandgerði, Gerðum og Hafnarfirði hafa nýlega verið stækkaðar, og það er gert ráð fyrir, að Grindavík verði stækkuð á þessu ári. Sjálfvirkar símstöðvar í Brúarlandi og Vogum er fyrirhugað að reisa á þessu ári, en þar vantar nú hús fyrir þær, en verður að byggja það á komandi vori.

Svör við þessum fsp., sem hv. fyrirspyrjandi las hér upp áðan, verða að vera nokkuð almenns eðlis, þar sem reikna má með því, að farið verði líkt að með Gullbringu- og Kjósarsýslu og aðrar sýslur í þessum málum. Það má geta þess, að frá upphafi áætlana um sjálfvirkar stöðvar um allt land var ekki gert ráð fyrir, að sjálfvirkt samband í sveitum kæmist yfirleitt á, fyrr en lokið væri að setja upp sjálfvirkar stöðvar í öllum kaupstöðum, kauptúnum, þorpum og fáeinum öðrum þéttbýlisstöðum, væntanlega 1970. Fyrir sveitina nægir ekki aðeins að setja upp venjulegar sjálfvirkar stöðvar, heldur þarf jafnframt að fara fram gagnger breyting á lánakerfinu og þá sérstaklega þar sem margir eru nú tengdir við sömu linu. Vegna kostnaðar og þess tíma, er það tekur að koma upp sérlinu til hvers notanda, er í ráði, að framkvæmdirnar fari fram í tvennu lagi: fyrst með fækkun notenda á hverri línu og nota þá sérstakan sjálfvirkan búnað, þar sem nokkrir, t.d. allt að 5 notendur, geta verið á sömu línu, en kunnugt er um, að það fyrirkomulag hefur m.a. verið notað erlendis. Nú er hins vegar í uppsiglingu ný gerð slíks búnaðar, og á næsta ári er fyrirhugað að prófa hann hér á litlu kerfi til þess að öðlast reynslu af honum, áður en almennt verður farið út í slíkar sveitarsímaframkvæmdir og áætlanir þar að lútandi gerðar í einstökum atriðum. Síðar verður unnið að því að koma hverjum notanda á sérlínu.

Þess má geta, að ekki er gert ráð fyrir, að siminn fylgi hreppamörkum, enda eru þau víða mjög óeðlileg. Ofannefnt svar er því almennt orðað og ekki miðað við þá sérstöku hreppa, sem nefndir eru í fsp., og hefur ekki enn verið ákveðið neitt um það, í hvaða röð sveitirnar verða teknar fyrir, en sennilega yrðu þéttbýlissvæðin tekin fyrst og sérstaklega þar, sem auðveldast er um línulagnir.