30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í D-deild Alþingistíðinda. (3189)

147. mál, verðlagsmál

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 311 fsp. til hæstv. viðskmrh. um verðlagsmál. Fsp. er svo hljóðandi:

1. Hvaða flokkar vöru og þjónustu hafa frá 1. marz 1960 og þar til nú verið leystir undan verðlagsákvæðum?

2. Á hvaða flokkum vöru og þjónustu hafa ákvæði um álagningu í heildsölu og smásölu verið rýmkuð frá 1. marz 1960 og þar til nú, og hverjar eru breytingarnar í hverjum flokki?

3. Á hvaða flokkum vöru og þjónustu hafa ákvæði um álagningu í heildsölu og smásölu verið þrengd frá 1. marz 1960 og þar til nú, og hverjar eru breytingarnar í hverjum flokki?

4. Hvert er áætlað heildarsöluverðmæti til neytenda, miðað við sömu flokka og áður er spurt um: a) þeirrar vöru og þjónustu, sem leyst hefur verið undan verðlagsákvæðum, b) þeirrar vöru og þjónustu, sem verðlagsákvæði hafa verið rýmkuð á, c) þeirrar vöru og þjónustu, sem verðlagsákvæði hafa verið þrengd á?“

Tilgangur minn með þessari fsp. er að sjálfsögðu sá að fá fram í dagsljósið nokkur þau atriði verðlagsmálanna, sem verulegu skipta, þegar reynt er að meta þær breytingar, sem yfirstjórn þeirra hefur beitt sér fyrir og framkvæmt síðustu árin og flestum mun vera ljóst, að eru mjög veigamiklar. Heildaryfirlit yfir þessar breytingar hefur ekki, svo að mér sé vitanlegt, verið birt almenningi, og enn síður hafa verið fyrir hendi tölulegar upplýsingar um þá fjárhagslegu tilfærslu, sem átt hefur sér stað sem bein afleiðing breyttra verðlagsákvæða, — tilfærslu, sem öll hefur verið á einn veg, — og það leiðréttist þá við svör hæstv. ráðh., ef svo er ekki, — að auka hlut verzlunarinnar á kostnað neytendanna í landinu. Á slíkum upplýsingum er brýn þörf, þar sem hér er vafalaust um að ræða eina og ekki veigaminnstu orsökina fyrir þeirri óhagstæðu verðlagsþróun, sem nú er orðin viðvarandi í landinu. Skýr svör við fsp. minni mundu að vísu ekki gefa fullkomna mynd af því, sem verið hefur að gerast í þessum efnum, en ættu hins vegar að geta verið nokkur vísbending til gleggri skilnings á því, hvern þátt breytt stefna í verðlagningarmálunum hefur átt í þessari óhagstæðu þróun.

Ég hef miðað fsp. mína við breytingarnar frá 1. marz 1960. Ástæðan fyrir þeirri tímaviðmiðun er sú, að eftir gengisfellinguna í ársbyrjun 1960 var álagning lækkuð í hundraðshlutum vegna hins gerbreytta álagningargrundvallar, sem af gengislækkuninni leiddi, en þó þannig, að sízt var á verzlunina hallað. Verðlagsnefnd mun hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að verzlunin stæði jafnrétt eftir gengisfellinguna, ef hún fengi sem svaraði óbreyttri álagningu á 23% af hækkuninni, sem af gengisfellingunni leiddi. Niðurstaðan varð þó sú, að reiknað var út frá óbreyttri prósentuálagningu á 30% hækkunarinnar, og var því mjög ríflega fyrir því séð, að verzlunin fengi að fullu bættan allan aukinn tilkostnað vegna gengisbreytingarinnar, á sama tíma og launamenn urðu að taka á sig beina kauplækkun þrátt fyrir gífurlegar verðhækkanir. Með breytingu á álagningarreglum, sem verðlagsnefnd gerði í febr. 1960, var því fullkomlega gert upp við verzlunina og ekki um neina þrengingu verðlagsákvæða að ræða, því að þrátt fyrir nokkuð lækkaða álagningarprósentu var fremur um hækkaða álagningu og bættan hlut verzlunarinnar að ræða. Af þessum ástæðum er viðmiðunartíminn 1. marz rökréttur. Fyrsta stórbreytingin, sem síðar var gerð, var í ágústmánuði 1961, en þá var nýafstaðin önnur gengisfelling núv. hæstv. ríkisstj. Með þessari breytingu var full álagning í hundraðshlutum leyfð á hinn hækkaða álagningargrundvöll, nokkrir vöruflokkar undanþegnir verðlagsákvæðum og bein hækkun leyfð á öðrum. Gengisfellingin sjálf var ekki látin nægja sem hefndarráðstöfun, heldur kné látið fylgja kviði með stórhækkaðri álagningu. Í febr. 1964 er svo næsta stóra lotan tekin. Fjöldi vörutegunda er þá leystur undan verðlagsákvæðum og prósentuálagning yfirleitt hækkuð í hið sama og verið hafði í gildi fyrir viðreisnina, en þá við allt annan og lægri álagningargrundvöll og því ekki sambærilegan. Auk þessara tveggja stórbreytinga, þ.e.a.s. í ágúst 1961 og í febr. 1964, hafa svo verið gerðar margs konar aðrar breytingar með einstökum ákvörðunum, sem samanlagðar skipta verulegu máli og allar eru sama hækkunarmarkinu brenndar. Sú breyting hefur svo einnig verið gerð á þessu tímabili, sem hér er rætt um, á skipun verðlagsnefndar, að Alþb. hefur verið útilokað frá því að eiga þar fulltrúa og fylgjast þar með gangi mála. Er verðlagsnefnd nú svo skipuð, að þar á aðeins einn maður sæti, sem talizt getur málsvari opinberra afskipta af verðlagsmálum. Allir aðrir nm. eru yfirlýstir andstæðingar þeirra afskipta, sem þeim eru þó þar falin, og er þá sízt að undra, þó að ákvarðanir þeirra, sem vafalaust eru teknar í fullu samráði við hæstv. ríkisstj., beri þess ljósan vottinn.

Hér er ekki ráðrúm til þess að ræða frekar þessa fsp., sem hér liggur fyrir, né heldur til þess að ræða þá reynslu, sem fengin er af auknu verðlagningarfrelsi. Ég verð því að láta mér nægja að lýsa von minni um skýr svör hæstv. viðskmrh. við spurningum mínum og þá ekki sízt við 4. lið fsp.