16.12.1965
Efri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh. Ég verð að segja það, að ég skil ekki algerlega röksemdafærslu hans, þar sem hann byrjaði á því að viðurkenna, að þetta frv. væri borið fram til þess að jafna halla á fjárl., það voru hans óbreytt orð, en neitaði því hins vegar algerlega, að hér væri um skattheimtu fyrir ríkissjóð að ræða. Ég verð að viðurkenna, að ég þarf að hugsa mig betur um, áður en ég skil þessa röksemdafærslu.

Þá er það, sem var kjarni hans máls, að það væri algerlega óeðlilegt, að ríkissjóður kæmi nokkuð nærri því að greiða halla rafmagnsveitna ríkisins. Ég er honum algerlega ósammála um þetta. Ég held einmitt, að það hafi öllum verið ljóst frá upphafl, að ef ætti að vinna að því af kappi að rafvæða dreifbýlið og halda þar uppi raforkusölu með viðunanlegu og bærilegu verði, þá væri það þjóðfélagslegt vandamál, sem yrði að leysa með einhverri aðstoð úr allsherjarsjóði landsmanna, og tekna til þess yrði að afla að þeim leiðum sem við öflum ríkissjóði tekna. Ég er þó þeirrar skoðunar, að það geti vel komið til greina að leggja einhverjar kvaðir og skatta á þá raforkunotkun, sem er hagstæðust í landinu, til hagsbóta hinum. Ég tel, að það geti vel komið til greina. En eins og ég hef áður rakið, er alls ekki um það að ræða í þessu sambandi. Ég held, að þarna geti vel komið til tvær samhliða leiðir: annars vegar aðstoð ríkisins, til þess að fullnægt verði þeim grundvallarskilyrðum, sem eru fyrir byggð í landinu, að menn fái notið raforkunnar til heimilisþarfa og til atvinnurekstrar, og hins vegar að létta mætti undir einnig af hálfu þeirra, sem búa við beztu kjörin. En um fullkomna verðjöfnun á rafmagni hygg ég þó, að ekki geti verið að ræða, nema mjög miklar skipulagsbreytingar verði gerðar í öllum raforkumálum, og mikil spurning, hvort þar verði ekki að koma til alveg fullkomin þjóðnýting, ekki aðeins á raforkuframleiðslunni, heldur einnig á öllu dreifikerfinu og smásölunni. Ég vil líka benda á það, að jöfnun á raforkuverði getur auðvitað farið fram með ákaflega mismunandi hætti. Ég benti t.d. á það, þegar ég flutti mína þáltill. um þetta efni á undanförnum þingum, að það kæmi mjög til greina, að unnt væri að jafna verulega raforkuverðið, án þess að það kæmi niður á heimilisnotkuninni, því að hún er ekki nema nokkur hluti og meira að segja ótrúlega lítill hluti af allri raforkunotkuninni í landinu, og kæmi vel til greina að jafna raforkuverðið þannig, að það kæmi að mjög litlu leyti niður á heimilisnotkuninni og þeim viðkvæma neyzluþætti, sem raforkan er í framfærslu heimilanna í landinu. Ég held, að það hefði einnig átt að huga að því atriði, hvernig því yrði haganlega fyrir komið, ef á annað borð hefur verið um einhverja verðjöfnun að ræða. En eins og ég sagði áðan, er alls ekki um neitt slíkt að ræða, þess vegna hefur það sjálfsagt ekki komið til greina, þegar þetta frv. var undirbúið.