30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

147. mál, verðlagsmál

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara langt út í þetta deilumál, fyrst og fremst vegna þess, að hér er mjög ójafn ræðutími og eðlilegra, að ég deili við hv. 3. þm. Reykv., þegar hann getur notið sinnar miklu mælsku alveg ótruflaður af forseta, svo að ég skal ekki fara að eltast langt við hans mál, þó að ég komist ekki hjá að benda á það mikla ósamræmi, sem var í hans málflutningi nú miðað við það, sem hann sagði fyrir réttum hálfum mánuði. Þá sagði hann orðrétt standandi í þessum stóli: „Verandi núna með fremstu löndum veraldar hvað efnahag snertir, a.m.k. árstekjur almennt, þó kannske að ríkidæmið sé ekki á við aðrar þjóðir.“

Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Íslendingar eru ekki rík þjóð miðað við það, sem gengur og gerist í Vestur-Evrópu eða Norður-Ameríku. En árstekjur almennt eru a.m.k. fyllilega sambærilegar við það, sem gerist í Vestur-Evrópu, og það er mikið þrekvirki, sem unnið hefur verið til þess að koma þessu fram.

Hv. þm. gat ekki látið vera að koma fram í sinu gamla kennarahlutverki, sem ég vil segja, að honum fer ekki allt of vel. Menn kunna sannast að segja ekki við þann menntamannshroka, sem allt of oft lýsir sér í ræðum hv. þm. Þetta segi ég sem góður kunningi hans og virðandi hann að mörgu leyti. En hv. þm. ætti að kunna sig betur sem gamall og reyndur og ljúflyndur maður í eðli heldur en að rjúka upp og lýsa yfir þessum sínum miklu kennarahæfileikum, hvenær sem honum finnst einhver annar vera á skoðun, sem honum líkar ekki.

Hv. þm. sagði, og það er rétt, að ég væri ekki ýkjavel að mér í efnahagsmálum, — ég skal ekki fara að þræta um það, — og vildi segja, að það væri ósamræmi í því, sem ég hefði sagt, að hér hefði verið lengst af samfelld þróun fram á við, það sem af er þessari öld, með nokkrum afturkippum þó. Ég efast ekki um, að hv. þm. er svo vel að sér, að hann veit, að þetta er rétt, sem ég segi. Það hefur verið stöðug framþróun hér á þessu tímabili, en með nokkrum afturkippum, og alvarlegastí afturkippurinn var á tímabilinu milli 1930 og 1940. Þetta vitum við ofur vel, og ég veit, að hans stjórnmálaafskipti hafa mótazt að verulegu leyti af því ástandi, sem þá var, eins og mínar skoðanir líka. Hvorugur okkar vill svo illt, að sams konar ástand komi yfir almenning í þessu landi aftur, alveg eins og ég er viss um, að jafnvel þeim, sem þá áttu við bág kjör að búa, leið miklu betur en almenningi á Íslandi t.d. á tímabilinu milli 1850 og 1900, enda sýna dánartölur það ótvírætt, flótti úr landi og margar aðrar skýrslur.

Ég vil engan veginn gera lítið úr áhrifum verkalýðshreyfingarinnar í þeirri framþróun, sem hér hefur orðið. Ég sagði það áðan, að í henni eiga allir landsmenn sinn hlut, verkalýðshreyfingin eins og atvinnurekendur, allir flokkar, hver með sinum hætti, eins og í lýðræðisþjóðfélagi er. Við viðurkennum lýðræðisþjóðfélag einmitt af því, að við teljum, að þessi framþróun verði þá bæði tryggust og örust og bezt, ef allir kraftar fá að njóta sín með þessum hætti. En auðvitað er það ótalmargt annað en verkalýðshreyfingin, sem hér hefur ráðið úrslítum, og það er fyrst og fremst tækniþróunin, sem Íslendingar fyrst fá að njóta í upphafi þessarar aldar með tilkomu fyrst þilskipa, raunar nokkuð á síðasta hluta 19. aldarinnar, en aðalbreytingin verður með tilkomu togara, síðan síma, innlendri verzlun, auknum samgöngum og öllum þeim efnum, sem við þekkjum, og þar á togstreitan um skiptingu arðsins sáralítinn þátt í. Hin mikla tekjuaukning fæst fyrst og fremst fyrir tilkomu tækni og vísinda, þegar við komumst inn í nútímaheim. Síðan hefur það gerzt, að í stað þess, að hér myndaðist þjóðfélag fárra ríkra og margra fátækra, hefur, eins og hv. þm. lagði áherzlu á í ræðu sinni fyrir hálfum mánuði, tekizt að láta allan almenning fá mjög háar tekjur, þó að þjóðfélagið sjálft yrði ekki mjög ríkt. Þetta eru slíkar höfuðstaðreyndir, að þegar hv. þm. fer að tala í allt öðrum dúr, verður að mótmæla þeirri villukenningu, því að hann hefur lært upp sinn kommúníska barnalærdóm á fundinum í Osló fyrir 10 dögum, og sannaðist þá enn, að dregur hver dám af sínum sessunaut. Jafnvel hv. 5. þm. Reykv. er hollari honum en félagarnir að austan, sem hann þar var í samsulli með.

Hitt skulum við svo játa, að okkur vantar ýmsar hagfræðilegar upplýsingar hér, eins og þessir þm. hafa nú getið um. Það er engin nýjung. En ég segi: einnig í þessum efnum hefur orðið stórkostleg breyting til bóta á hinum allra síðustu árum. Með tilkomu Efnahagsstofnunarinnar, áður þeirrar starfsemi, sem Framkvæmdabankinn hafði, en einkanlega með tilkomu Efnahagsstofnunarinnar, með hagfræðideild Seðlabankans, með kjararannsóknanefnd, svo að nokkur dæmi séu tilfærð, er nú hægt að hafa handbæran fjölda upplýsinga, sem menn áður skorti, svo að hægt er að átta sig í fljótu bragði á mörgum staðreyndum, sem nauðsynlegar eru til þess að skilja þróunina og átta sig á, hvert stefnir. Með meiri mannafla er vafalaust hægt að afla fleiri upplýsinga.

En ég vil algerlega mótmæla þeim getsökum, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur í frammi um, að tekjumismunur og eignamismunur fari vaxandi í þessu landi. Eins og hann hefur öðru hverju manna ákveðnast bent á, er þetta ekki rétt, enda er það alveg víst, að allar skýrslur, sem fyrir hendi eru, sýna, að það er rétt, sem hann sagði fyrir hálfum mánuði, en ekki nú, þegar hann heldur hinu gagnstæða fram.

Og ég spyr: Hvaðan hefur hv. þm. það, og hvernig getur hann staðið við það að bera það á heila stétt eins og kaupmenn, að þeir steli frekar undan söluskatti en kaupfélög? Hvernig leyfir hv. þm. sér að koma hér og slá þessari fullyrðingu fram? Eru til nokkur gögn, sem sanna þetta, sem heimila honum að bera þetta á borð? Hafa fleiri kaupmenn verið teknir af þessum sökum og fundnir sannir að sök heldur en kaupfélög? Hefur verið rannsakað hjá öllum þessum aðilum? Hvenær hefur bv. þm. orðið sá hjartnanna og nýrnanna rannsóknari, að hann geti gefið slíkar yfirlýsingar? (EOl: Vill forsrh. ganga inn á að setja rannsóknarnefnd hér í þinginu til þess að athuga þetta?) Setja rannsóknarnefnd í þinginu til þess að rannsaka þetta? Hv. þm. var nú einu sinni í rannsóknarnefnd, sem heldur lítið kom út úr. Þessi mál eru til rannsóknar hjá réttum yfirvöldum landsins, og við skulum halda okkur að því, sem þar kemur fram.

Ég er ekki sérstaklega hrifinn af þeim rannsóknarréttarhugsunarhætti, sem hv. þm. öðru hverju er haldinn og allt of mikið minnir á Stalín-réttarhöldin og lýsingar Nóbelsverðlaunaskáldsins Halldórs Kiljans á sinni eigin villu áður fyrr, meðan hann var sjálfur viðstaddur rannsóknarréttinn, og hans fordæmingu á þeim vinnubrögðum nú eftir á. En það væri sök sér, að hv. þm. bæri fram slíkar fullyrðingar, eftir að rannsókn hefði farið fram, ef hann hefði setið í rannsóknarnefnd, sem hefði staðreynt þetta. En meðan engin slík rannsókn hefur átt sér stað og hv. þm. talar af fullkomnu þekkingarleysi, ætti hann ekki að bera fram slíka fullyrðingu, um leið og hann belgir sig upp yfir því, að hann einn viti allt eins og einvaldskonungarnir forðum. Það fer betur aðeins meiri hógværð í þeim efnum, og þessum ljúflynda manni væri betra að halda sig að sínu íslenzka uppeldi og innræti, en læra minna af rannsóknarherrunum austur í Moskva.