30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

147. mál, verðlagsmál

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er deilt hér um þjóðarauð, þjóðartekjur og skiptingu þeirra. Eins og hæstv. forsrh, ekki að tilefnislausu minnti á, bar þessi mál á góma fyrir hálfum mánuði, þegar málefni þróunarlandanna voru hér til umr., en við allir, sem tókum þátt í þeim umr., vorum sammála um það, sem líka er í samræmi við staðreyndir, að þjóðartekjur okkar Íslendinga eru með þeim hæstu hér í Evrópu. Ég vil til fyllri áréttingar, af því að enginn okkar mun hafa farið með tölur í því efni, vitna hér í skýrslu Efnahagsstofnunar Evrópu, sem útbýtt hefur verið á borð hv. alþm. Samkv. henni er sú þjóð Evrópu, sem hæstar þjóðartekjur hefur, Svíar, sem hafa árlega á mann 2280 dollara. Næstir eru Svisslendingar, sem hafa 2190 dollara. En þeir þriðju í röðinni af Evrópuþjóðum samkv. þessari skýrslu eru Íslendingar með 2110 dollara á mann. Næstir koma svo Danir með 1890 dollara, og aðrar Vestur-Evrópuþjóðir eins og Þjóðverjar og Englendingar eru þar lægri. Nú má vel vera, að þjóðarauður okkar Íslendinga sé ekki eins mikill samanborið við aðrar þjóðir og verðmæti þjóðarframleiðslunnar bendir til. En almennt er álitið, að þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur séu réttari mælikvarði á lífskjör og afkomu þjóðanna heldur en þjóðarauðurinn, og þess vegna minni áherzla lögð á það að gera hann upp.

Hv. þm. Alþb., sem hér hafa talað, hafa að vísu ekki gert ágreining um þetta atriði, en segja sem svo, að aðstaða verkalýðsins hér á landi sé óviðunandi vegna þess, að tekjuskiptingin sé svo ójöfn. Nú mættu upplýsingar um tekjuskiptinguna vissulega vera fullkomnari en þær eru, um það er ég fullkomlega sammála hv. 3. þm. Reykv. og ýmsum öðrum, sem hér hafa talað. En þær ófullkomnu upplýsingar, sem við höfum, finnst mér að bendi síður en svo til þess, að tekjuskipting sé hér ójafnari en gerist t.d. í nágrannalöndum okkar. Mér finnst, að þessar upplýsingar bendi frekar til hins gagnstæða. Í nóvember-Hagtíðindum á s.l. ári er yfirlit, sem hagstofan hefur birt yfir tekjuskiptinguna, að vísu samkv. skattaframtölum. Samkv. þessu yfirliti er sú starfsstétt, sem hæst er á blaði, læknar og tannlæknar, sem hafa haft 360 þús. kr. árstekjur. Næstir eru svo yfirmenn á fiskiskipum með 290 þús. kr. árstekjur. En lægstir eru bændur og gróðurhúsaeigendur með 161 þús. kr. árstekjur. Munurinn á þeim lægstu og þeim hæstu er samkv. þessu ekki nema um það bil tvöfaldur. (EOl: En reiknað í meðaltali?) Já, þetta er meðaltal .... (EOl: Nei, meðaltal af því, sem þjóðin hefur.) Nei, þetta eru meðaltekjur kvæntra karla, 25—66 ára. Ófaglærðir verkamenn hafa frá 172 þús. upp í 184 þús. kr. tekjur. Vinnuveitendur og forstjórar hafa samkv. þessu 247 þús. kr. tekjur. Þetta virðist ekki benda til þess, að tekjuskipting sé hér ójafnari en gerast mun í nágrannalöndunum, heldur þvert á móti hins gagnstæða.

Nú veit ég, að við þessu verður sagt, að skattframtölin sé ekki að marka, og vissulega eru miklir örðugleikar á því að fá fullnægjandi upplýsingar um tekjuskiptinguna í heild. Að því mun þó unnið af hagstofunni, og má vænta árangurs í þeim efnum. En ég get ekki látið hjá líða, — einmitt í sambandi við þetta, sem ég skal játa, að sérstaka rannsókn þyrfti að framkvæma til þess að fá um upplýsingar, — að minna á, að það hafa verið gerðar margar tilraunir til þess að framkvæma slíka rannsókn, og ég vil leyfa mér í því sambandi að minna á, að það var fyrir 10 árum, á síðasta þingi áður en vinstri stjórnin var mynduð, að samþ. var, ég má segja í Nd. Alþ., þáltill. um að skipa í það sérstaka rannsóknarnefnd með öllu því valdi, sem slíkar þn. hafa, að rannsaka milliliðagróða. Þessi n. var skipuð, hún réð sér framkvæmdastjóra, og auðvitað hafa þeir flokkar, sem þá skömmu síðar stofnuðu vinstri stjórnina, haft þar öruggan meiri hl. Sem framkvstj. var af n. ráðinn Bergur Sigurbjörnsson viðskiptafræðingur, sem er alkunnur dugnaðarmaður og mun ekki vera áhugalaus um það að fá þessi mál upplýst. En það hefur ekki nokkur stafur sézt eftir þessa n. Nú skyldi maður ætla, að einmitt vinstri stjórnin hefði haft sérstakan áhuga á því að fá þessi mál upplýst. En mér er ekki kunnugt um það, að nokkur stafur hafi sézt eftir þessa n., og ætti það að vera órækt dæmi um það, að örðugleikar á því að framkvæma þessa rannsókn eru töluvert miklir, og það er ekki ástæða til þess að ásaka núv. hæstv. ríkisstj. fyrir það, þó að hún hafi ekki komið þessum málum e.t.v. í það lag, sem æskilegt væri. En ég býst við, að það sé einmitt meira og betur unnið að því nú en verið hefur.