16.12.1965
Efri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins til þess að auðvelda hv. 4. þm. Norðurl. e. að skilja, hvað ég hef verið að fara með, svo að hann lenti ekki í óhemjulegu grufli út af því, sem ég vildi aðeins segja örfá orð. Hann taldi, að það hefði verið óskiljanlegt hjá mér að tala um, að það væri í senn um tekjuöflunarleið fyrir ríkið að ræða, en þó ekki tekjuöflunarleið fyrir ríkið.

Það, sem ég átti við, — það kann að vera, að ég hafi ekki útskýrt mál mitt nógu vel, — var það, að eins og sakir standa er það rétt, að það er tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð, vegna þess að þetta var tekið inn í fjárl. fyrir árið í ár. En hins vegar sagði ég, að það hefði aldrei verið eðlilegt að taka þetta inn í fjárl. og var gert sem neyðarúrræði á s.l. ári, og það hefði aldrei verið skoðun eða stefna Alþ., að eðlilegt væri, að þetta væri í fjárl., og þar af leiðandi væri hér ekki um að ræða venjulega tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð til þess að mæta þeim útgjöldum, sem að undanförnu hefur verið talið eðlilegt að hann hefði á sínum herðum að einhverju leyti. Ég hygg þess vegna, að það megi með fullum rökum segja, að þetta frv. sé annars eðlis en þau önnur frv., sem hér hafa verið lögð fram, svo sem um hækkun á aukatekjum og benzínskatti og eignarskatti. Það er að sjálfsögðu um beina fjáröflun fyrir ríkissjóð þar að ræða, en hér er um það að ræða að vísu að létta útgjöldum af ríkissjóði, en útgjöldum, sem aðeins hafa verið tekin inn í fjárl. eitt ár og að mínum dómi og ég hygg að dómi hv. alþm. yfirleitt hafi aldrei verið talið eðlilegt að væru í fjárl., þannig að ég vonast til, að hv. þm. átti sig á, hvað ég hef meint með því, þó að hann kunni að vilja halda fram skoðun sinni um, að það sé ekki fullkomin rökvísi í þessu. Það er annað mál.

Það er svo aftur hin hlið málsins, sem er alveg rétt hjá hv. þm., að það er auðvitað eðlilegt, að til þess að jafna aðstöðu í strjálbýlinu taki ríkið eitthvað á sínar herðar, og það hefur verið gert með þeim framlögum, sem Alþ. hverju sinni hefur veitt til stofnframkvæmda. Og eins og ég áðan sagði, er viðurkennt nú, að dreifiveiturnar, sem eftir eru úti um sveitirnar, eru svo óhagstæðar, að það kemur ekki til mála, að þær verði leystar fyrir lánsfé, sem verði lagt á rafveitukerfið að greiða.

Varðandi það svo, að allsherjar jöfnunarverð á raforku sé í rauninni ekki framkvæmanlegt, nema það komist ríkiseinokun á raforkuframleiðslu og raforkusölu, er ég hv. þm. að verulegu leyti sammála um, að það gæti orðið erfitt með öðrum hætti. Að vísu þarf það ekki endilega að vera ríkiseinokun. Við getum hugsað okkur, að það sé eitthvert samstarfsfyrirtæki, sem reki þetta. Landsvirkjunin er stofnuð sem visir að slíku fyrirtæki, sem hefur verið talað jafnvel um að fleiri aðilar, svo sem Laxárvirkjunin, kynnu að ganga inn í á síðari stigi málsins. Og ég held, að það sé ljóst, að þróunin í okkar raforkumálum hljóti á næstu árum að verða sú, að öll orkuverin verði tengd saman og þá er ákaflega erfitt að starfrækja þessi orkuver með mismunandi reglum og rekstrargrundvelli, svo að ég hygg, að það komi að þeim tíma, og mér finnst það ekki óeðlileg þróun, að jafnhliða því sem orkuverin verði tengd saman, myndist fyrirtæki, sameignarfyrirtæki ríkisins og þeirra aðila, sem þessi orkuver eiga, um áframhaldandi rafvæðingu landsins. Þá kemur það í rauninni af sjálfu sér, að raforkuverðið yrði það sama frá þessum orkuverum öllum. Við vitum það t.d., að innan rafmagnsveitna ríkisins er framkvæmd mjög veruleg verðjöfnun. Raforkuverð frá rafmagnsveitunum er alls staðar jafnhátt, enda þótt framleiðslukostnaður rafmagns sé mjög mismunandi. Sumar veiturnar bera sig og gætu í rauninni þróazt með lægra raforkuverði. Þarna hefur verið tekin upp alger verðjöfnun, og mér þykir ekki ósennilegt, að það stefni í þá átt með tímanum, þróunin muni leiða til þess, að þessi verðjöfnun komist á smám saman.