30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3200)

147. mál, verðlagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. vildi láta orð liggja að því hér, að á tímum vinstri stjórnarinnar hefðu verzluninni verið áætlaðar svo ríflegar álagningarreglur, að hún hefði í mörg ár á eftir eða nú alveg fram undir síðustu ár verið að fara fram á það að fá slíkar álagningarreglur aftur eins og hún hafði haft þá. En hæstv. viðskmrh. skaut því bara undan, að það, sem gerðist í millitíðinni, var það, að árið 1960 felldi núv. ríkisstj. gengi krónunnar, hækkaði verð á erlendum gjaldeyri um það bil 70% og vitanlega gerbreytti þannig þeim grundvelli, sem álagningin er miðuð við. Hefði verzlunin fengið eftir gengisbreytinguna miklu að leggja á jafnháa prósentutölu í álagningu, hefði verzlunin vitanlega fengið stórkostlegan hag af gengisbreytingunni beint. Þetta þótti vitanlega nauðsynlegt að færa nokkuð til baka, en hins vegar er nú svo komið, að nú er auðvitað búið að fá þetta allt saman upp unnið og meira til, þar sem hún hefur fengið alveg ótakmarkaða álagningarheimild á fjöldamörgum vöruflokkum. Þetta vitanlega hlýtur hæstv. viðskmrh. að vita, þó að hann skyti því undan og fyndist það betur viðeigandi. Það kom auðvitað önnur gengislækkun aftur árið 1961, sem enn gerði það að verkum, að hagur verzlunarinnar í þessum efnum batnaði.

Það er vitanlega ekki tími til þess í 5 mínútna ræðutíma að víkja að þeim atriðum, sem hér hafa komið fram. Og þó að hæstv. forsrh. segði, að hann skildi, að það væri ekki réttmætt af honum og öðrum ráðh. að halda hér langa ræðu yfir þeim, sem hefðu aðeins 5 mínútna ræðutíma, þegar ráðh. hafa ótakmarkaðan tíma, gleymdi hann því, þegar sótti fram í ræðuna, og talaði langt mál og talaði yfir þeim, sem voru búnir að missa allan sinn ræðutíma, og það vitanlega um algerlega óskyld mál þeim, sem hér voru raunverulega til umræðu.

Allt tal um það, að tekjur Íslendinga séu miklar, þjóðartekjur okkar séu háar og fyllilega sambærilegar við aðrar þjóðir og þjóðartekjurnar hafi aukizt nú síðustu árin, koma vitanlega ekki því máli við, sem hér er verið að ræða um. Og það er vitanlega hinn mesti misskilningur, sé svo, að hæstv. forsrh. haldi það, að núv. ríkisstj. eigi einhvern verulegan þátt í því, að þjóðartekjurnar hafa vaxið jafnmikið og raun er á á síðustu árum. Ríkisstj. á engan þátt í því, að síldarstofnarnir við Ísland hafa aukizt. Hún á engan þátt í því, að síldveiðarnar hafa orðið okkur jafntekjudrjúgar og þær hafa orðið nú á síðustu árum, það veit hún mætavel. Og hún á heldur engan þátt í þeirri verðhækkun á okkar útflutningsvörum, sem orðið hefur, svo að það er vitanlega alveg þarflaust fyrir ríkisstj. að tala um það, að batnandi þjóðarhagur nú síðustu árin sé eitthvað hennar pólitík að þakka.

Hér er svo verið að nefna það, að samkvæmt opinberum skýrslum séu meðaltekjur á hvern Íslending 2110 dollarar. Það þýðir, að meðaltekjur á hvert mannsbarn í landinu séu þá um 90 þús. kr., en það þýðir á 5 manna fjölskyldu 450 þús. kr. Hefur verið samið um eitthvert slíkt kaup fyrir venjulega erfiðismenn í þessu landi, um 450 þús. kr.? Nei, við vitum það — (Gripið fram í: Þjóðarframleiðsla.) Já, þetta var þjóðarframleiðslan, og hún skilar sér síðan út í þjóðartekjum, og það er einmitt það, sem um er að ræða, að þessum miklu tekjum þjóðarinnar er ekki jafnt skipt. Og jafnvel þó að menn hverfi síðan að því að taka framtalsskýrslur hinna einstöku starfsstétta og finni það út, að tilteknar stéttir, eins og t.d. kaupmenn, hafi ekki mjög miklu hærri tekjur en ýmsar aðrar vinnustéttir í landinu, þá vita allir, að aðstaða þeirra til þess að telja fram á skattskýrslum er allt önnur en þeirra, sem aðrir verða að telja fram fyrir með vinnumiðakerfi. Þeir eru einir til frásagnar um sinar tekjur. Nei, það er eins og ég hef sagt hér áður, það er brýn þörf á því, að upplýsingar fáist um, hve miklu það nemur, sem verzlunarstéttinni í landinu hefur verið rétt með hækkaðri álagningu, því að það er vitanlega hægt, ef vilji er fyrir hendi, að reikna út þá upphæð.