20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (3210)

183. mál, hlustunarskilyrði útvarps

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á síðasta þingi var fram borin fsp. af Jónasi G. Rafnar og Jónasi Péturssyni varðandi ráðstafanir til að bæta hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi, og urðu um þau mál allmiklar umr. hér í Sþ. 10. febr. 1965. Í þeim umr. upplýsti menntmrh., að það, sem sérstaklega væri til athugunar hjá landssímanum og ríkisútvarpinu, væri: Í fyrsta lagi, að 20 kw. langbylgjustöð verði reist á Eiðum með sömu bylgju og Reykjavíkurstöðin starfar á og dagskráin leidd þangað norður um radíófjölsíma. Í öðru lagi að fá samþykki til þess að nota aðra langbylgju fyrir 5 kw. stöðvar, aðra í grennd við Húsavík, en hina við Kirkjubæjarklaustur. Í þriðja lagi að halda endurvarpsstöðvunum í Skjaldarvík og Hornafirði á miðbylgjum, en auka afl hinnar síðarnefndu úr 1 kw. í 5 kw. með því að flytja núverandi Eiðasendi þangað. Í fjórða lagi að reisa í Skagafirði 5 kw. endurvarpsstöð til þess að bæta hlustunarskilyrði þar. Og í fimmta og síðasta lagi að reisa smám saman og koma upp FM últrastuttbylgjustöðvakerfi um allt landið. Í þeim umr. barst einnig í tal ástandið í þessum efnum víðast á Vestfjörðum, einkum á norðanverðum Vestfjörðum, og þá upplýsti ráðh., að þegar hinn nýi sendir yrði tekinn í notkun, væri vonandi komizt fyrir þá erfiðleika með öllu og Vestfirðingar fengju þá útvarp með eðlilegum hætti. Þar sem ekkert hefur síðan heyrzt um þessi mál, hvaða ákvarðanir hafi verið teknar, hef ég leyft mér ásamt 2. þm. Norðurl. v., að gera þessar fsp. til hæstv. menntmrh.:

„1. Hefur endanleg ákvörðun verið tekin um, með hvaða hætti ríkisútvarpið ætlar að bæta hlustunarskilyrði á þeim stöðum á landinu, sem búa við sífelldar útvarpstruflanir?

2. Ef svo er, hvenær hefjast þessar framkvæmdir og hvenær er áætlað, að þeim verði lokið?“ Það er eðlilegt, að slík fsp. komi fram, því aðeins og þm. hafa eflaust séð í flestum blöðum landsins, eru að koma kvartanir frá Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum út af útvarpstruflunum, og þessum kvörtunum linnti ekki sérstaklega á tímabili í vetur í svartasta skammdeginu. Og ég vil í þessu sambandi t.d. nefna það, að bæjarstjórn Ísafjarðar sendi ríkisútvarpinu kvörtun um það, að útvarpstruflanir af völdum lóranstöðvarinnar á Snæfellsnesi hafa farið mjög vaxandi og hlustunarskilyrði versnað á Ísafirði, og sömuleiðis hafi komið kvartanir víðar að, eins og t.d. frá Bolungarvík, að hlustunarskilyrði séu algerlega óviðunandi, og skoraði bæjarstjórn Ísafjarðar á forráðamenn ríkisútvarpsins að gera nú þegar ráðstafanir, sem að gagni kæmu í þessum málum. Bæjarstjórnin fékk ákaflega stutt og kurteist og elskulegt svar frá ríkisútvarpinu, þar sem bréfið er þakkað og ríkisútvarpið harmar þetta ástand mjög og hefur lagt málið fyrir verkfræðinga landssímans til álits og úrlausnar og vonar, að góð og fullnægjandi úrbót fáist.

Ég veit, að menntmrh. mun gefa svör við þessum fsp. En þetta mál er orðið svo hvimleitt og fólkið orðið þreytt á því að geta ekki notið útvarps víðast hvar í þremur landsfjórðungum, að við svo búið má ekki lengur standa. Og ég harma það, að frá því að þessar umr. fóru fram hér 10. febr. 1965 hafa a.m.k. hvað Vestfirði snertir — og ég hygg ég megi þar einnig tala um Skagafjörð og fleiri staði — ekki verið sendir neinir menn til þess að athuga um þessi mál, fyrr en fer að lengja daginn og útvarpstruflanir fara að minnka. En truflanir t.d. á norðanverðum Vestfjörðum eru frá því að haustinu og þangað til fer að lengja verulega daginn eða fram í marzmánuð, en þá lagast ástandið mjög mikið.