20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í D-deild Alþingistíðinda. (3211)

183. mál, hlustunarskilyrði útvarps

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef beðið ríkisútvarpið um upplýsingar um það mál, sem spurzt er fyrir um í þessari fsp. Það, sem ég segi hér á eftir sem svar við fsp., er byggt á upplýsingum ríkisútvarpsins.

Ríkisútvarpið telur, að hlustunarskilyrði séu nú góð á öllu Suðurlandsundirlendi og Suðvesturlandi, a.m.k. norður á miðja Vestfirði, og á Norðurlandi í Húnavatnssýslum, innanverðum Eyjafirði, frá Langanesi og nokkuð suður fyrir Djúpavog og að mestu í Austur-Skaftafellssýslu, þó að frátalinni Suðursveit og Öræfum. Segir ríkisútvarpið, að láta muni nærri, að 91% landsmanna hafi hlustunarskilyrði í fullkomnu lagi, en 9% hafi breytileg eða slæm hlustunarskilyrði. Beinlínis slæm hlustunarskilyrði, segir ríkisútvarpið, að um 4% hlustenda hafi, þ.e. í austanverðri Skagafjarðarsýslu, Ólafsfirði, Suður-Þingeyjarsýslu og nokkrum hluta Kelduhverfis og Vestur-Skaftafellssýslu. En breytileg hlustunarskilyrði og ekki ávallt fullnægjandi eru á norðanverðum Vestfjörðum, í vestanverðri Skagafjarðarsýslu, Svarfaðardal og Dalvík, Melrakkasléttu, Axarfirði og nokkrum hluta af Lóni, Suðursveit og Mýrdal. Þannig virðist ástandið vera, eins og sakir standa.

Ríkisútvarpið segir, að hlustendur sætti sig mjög misjafnlega við breytileg og slæm hlustunarskilyrði. Hafi t.d. komið tiltölulega fáar kvartanir úr Vestur-Skaftafellssýslu og Suður-Þingeyjarsýslu, þó að hlustunarskilyrði þar séu slæm. Aftur á móti hafi komið margar kvartanir úr Skagafirði, en þar eru skilyrði breytileg og slæm.

Í Skagafirði hafa hlustunarskilyrði versnað við tilkomu Eiðastöðvarinnar, sem starfar á sömu tíðni og Reykjavikurstöðin, en ekki hefur reynzt unnt að fá úthlutað nýrri tíðni fyrir Eiðastöðina. Þegar áætlanir voru gerðar um Eiðastöðina, var gert ráð fyrir sérstökum úrbótum á þeim svæðum, þar sem búast mátti við, að langbylgjustöðvar trufluðu hvor aðra. Þessar úrbætur hefur því miður ekki verið unnt að framkvæma enn sem komið er. En ríkisútvarpið stefnir að sjálfsögðu að úrbótum í þessu efni. Þegar næsta sumar verða gerðar bráðabirgðaráðstafanir til úrbóta fyrir þéttbýlustu staðina á þessum kvörtunarsvæðum, þ.e. fyrir Dalvík, Ólafsfjörð og Sauðárkrók. Þegar hafa verið gerðar slíkar ráðstafanir fyrir Húsavík, Kópasker, nokkuð af Kelduhverfi, Raufarhöfn, Álftafjörð og Lón.

Ríkisútvarpið vekur athygli á því, að jafnvel á þeim stöðum, þar sem hlustunarskilyrði eru góð, geti komið fyrir truflanir, sem ekki stafi af tæknigöllum á vegum útvarpsins sjálfs, heldur af staðbundnum orsökum, svo sem truflunum af rafmagnskerfi staðarins, ekki sízt götulýsingu, og hefur þetta t.d. sýnt sig á Norðfirði, Siglufirði og víðar, jafnvel hér í Reykjavík. Einnig geta slíkar truflanir stafað af bilun í tækjum eða ófullkomnum búnaði í sambandi við loftnet og jarðsamband.

Þó að breytileg og slæm hlustunarskilyrði séu hjá 9% og ótvírætt slæm skilyrði hjá 4% hlustenda, ætti þetta nokkuð að lagast við þær ráðstafanir, sem gera á í sumar. En sumar af þeim truflunum, sem hér koma fram, stafa af ráðstöfunum í öðrum löndum til þess að bæta úr sams konar ágöllum hjá þeim, og má þar til nefna nýtt dæmi, stöðina í Poznan í Póllandi, sem nýlega hefur verið stækkuð úr 20 kw. í 300 kw. og útvarpar á sömu tíðni og Akureyrarstöðin. Þessi stækkun Poznan-stöðvarinnar var framkvæmd þrátt fyrir mótmæli ríkisútvarpsins og raunar í trássi við alþjóðasamkomulag. Fleiri dæmi eru um slíkt, og hefur þetta skapað sívaxandi erfiðleika hér á landi, án þess að unnt hafi verið að reisa rönd við.

Gerð hefur verið áætlun um bætt hlustunarskilyrði, og hefur hún tvíþættan tilgang: í fyrsta lagi að bæta viðtöku á þeim svæðum, sem hafa breytileg eða slæm hlustunarskilyrði, og í öðru lagi að bæta tóngæði útsendinga um allt land. Hafa þegar verið gerðar ráðstafanir á Austurlandi til þess að bæta hlustunarskilyrði þar með nýrri langbylgjustöð á Eiðum, og fullnægir sú stöð svæðinu frá Langanesi suður fyrir Djúpavog. Bætir þessi stöð einnig útvarpsviðtöku á miðunum út af Austfjörðum. Sendirinn, sem áður var á Eiðum, hefur verið fluttur á Höfn í Hornafirði, og er verið að ljúka uppsetningu hans þar. Þessi sendir kemur í stað lítils sendis, sem áður var þar, og fullnægir svæðinu innan fjallahringsins og að nokkru leyti í Lóni.

Kröfur hlustenda um gæði tónflutnings hafa eðlilega aukizt á síðustu árum, eftir því sem viðtækjakostur hefur batnað og eftir því sem skilningur manna og áhugi á tónlist hefur aukizt. Þess vegna gerir áætlunin ráð fyrir byggingu FM-stöðva einnig fyrir svæði, þar sem hlustun var annars áður talin góð og fullnægjandi fyrir hlustun talaðs orðs og tónlistar að vissu marki. FM-útvarp veitir kost á mun fullkomnari flutningi tónlistar en langbylgjur.

Gerðar hafa verið mælingar og undirbúningsathuganir á nokkrum svæðum á Norður- og Suðurlandi vegna byggingar FM-stöðva. Eru framkvæmdir hafnar að því leyti, að reist hefur verið langbylgjustöð að Eiðum, stækkaður sendirinn á Höfn í Hornafirði og settar upp FM-stöðvar í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Norðfirði og Raufarhöfn, og sett hefur verið upp lítil FM-stöð í Vík í Mýrdal í tilraunaskyni. Auk þess verða í sumar settar upp litlar bráðabirgðastöðvar á Dalvík, Ólafsfirði og Sauðárkróki.

Að öðru leyti hefur framkvæmd FM-áætlunarinnar um endurbætur á hlustunarskilyrðum dregizt vegna þess, að hér er um mjög fjárfrekar framkvæmdir að ræða. Kostnaður við framkvæmd fyrri áfanga FM-áætlunarinnar var áætlaður 35 millj. kr. og kostnaður við síðari hlutann 25 millj. kr. eða samtals 60 millj. kr., og skiptist þetta á sex ára framkvæmdatímabil.

Eins og ég gat um áðan, hefur ríkisútvarpið þegar gert áætlanir, þessa allsherjaráætlun fyrir landið allt um byggingu FM-stöðva víðs vegar um landið, og svo áætlanir um það að bæta hlustunarskilyrði sérstaklega á þeim stöðum, þar sem þau nú hljóta að teljast verst. Mun ég í framhaldi af þessari fsp. ræða það sérstaklega við ríkisútvarpið, að framkvæmdum verði hraðað sem mest er unnt nú í sumar, til þess að þegar í haust verði ekki um að ræða það ástand, að hlustunarskilyrði verði nokkurs staðar á landinu talin vera óviðunandi eða mjög slæm. Vona ég, að þetta geti einnig tekið til Vestfjarða, sem hv. þm. ræddi sérstaklega, þegar hann mælti fyrir fsp. sinni. Að öðru leyti verður framkvæmdahraði heildaráætlunarinnar að fara eftir fjárhagsgetu útvarpsins, en hún er hins vegar háð hæð afnotagjalda og öðrum tekjum útvarpsins, þar eð það nýtur einskis framlags af almannafé, heldur stendur sjálft straum af öllum kostnaði af rekstri sínum og framkvæmdum.