20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (3213)

183. mál, hlustunarskilyrði útvarps

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er ekki kunnugur hlustunarskilyrðum á Vestfjörðum, sem hv. fyrirspyrjandi ræddi sérstaklega hér áðan, en dreg ekki í efa, að það sé rétt, sem hann segir um þá hluti og hér hefur verið viðurkennt. Hins vegar er ég allvel kunnugur hlustunarskilyrðum eins og þau hafa verið á Norðausturlandi og hef áður haft orð á því hér á hinu háa Alþingi, að ástandið í þeim málum í þeim landshluta væri fullkomlega óviðunandi.

Ég bjó eftir því áðan, að þegar hæstv. menntmrh. var að skýra frá því, hvaðan helzt hefðu borizt kvartanir um slæm hlustunarskilyrði, þá nefndi hann ekki Norður-Þingeyjarsýslu. Mér kom það dálítið á óvart, að hún skyldi ekki vera nefnd, vegna þess að þar hafa hlustunarskilyrði lengi verið mjög slæm. Mér er kunnugt um það, að nú fyrir nokkrum dögum var formaður Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga hér á ferðinni alveg sérstaklega til þess að ræða þessi mál við útvarpsstjóra og tæknimenn landssímans, sem um þessi mál fjalla. Mér er ekki kunnugt um það, hvort hann hefur einnig rætt við hæstv. menntmrh. um það efni, en för hans var gerð vegna þess, að ástandið er talið óviðunandi.

Hæstv. ráðh. orðaði það áðan þannig í upplestri sínum frá útvarpinu varðandi þetta mái, að slæm hlustunarskilyrði mundu vera í einhverjum hluta af Kelduhverfi. Ég hygg, að telja megi, að þau séu slæm í Kelduhverfi öllu, nema e.t.v. í félagsheimilinu Skúlagarði, þar sem gerðar voru einhverjar smávegis ráðstafanir, og á nokkrum heimilum, sem þar eru allra næst, og ég minnist þess, að ekki er mjög langt síðan úr Axarfirði austan Jökulsár bárust erindi, að ég ætla til okkar þm. kjördæmisins, um þetta mál.

Um þetta skal ég svo ekki hafa fleiri orð. Ég tók svo eftir, að hæstv. menntmrh., um leið og hann lýsti sex ára áætlun um byggingu FM-stöðva, segði hér áðan, að fyrir næsta haust yrði þannig hætt úr, þar sem ástandið er verst, að fyrir þann tíma yrðu alls staðar á landinu komin viðunandi hlustunarskilyrði. Vil ég nú spyrjast fyrir um það, hvort ég hafi ekki tekið rétt eftir þessu, sen, hæstv. ráðh. sagði, þannig að þess megi nú vænta, að úr þessum vandræðum verði bætt fyrir næsta haust í þeim byggðarlögum, þar sem hlustunarskilyrði eru á þann hátt, sem nú hefur verið lýst.