18.02.1966
Efri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem undanfarin ár voru nú fyrir s.l. áramót gerðar tilraunir til að ná samkomulagi um verð á bolfiski milli fiskseljenda annars vegar og fiskkaupenda hins vegar. Í verðlagsráði sjávarútvegsins náðist ekki samkomulag milli aðila, og var þar ákveðið að vísa málinu til yfirnefndar, svo sem heimilt er samkv. ákvæðum l. um verðlagsráð sjávarútvegsins. Eftir að sjútvmrn. hafði fyrir sitt leyti fallizt á að veita umbeðinn frest, lauk yfirnefndin störfum þann 6. jan. s.l. og birti álit sitt í öllum dagblöðunum og ríkisútvarpi þá þegar á eftir, en þar var samþ. með shlj. atkv. till. oddamanns n. Einn fulltrúi greiddi ekki atkv., en gerði sérstaka bókun, sem fylgdi skýringum yfirnefndar.

Till. fól í sér, að meðalverð á ferskfiski hækkaði um 17% frá fyrra ári. Verðhækkun þessi var grundvölluð á því skilyrði, að breyting yrði gerð á útflutningsgjaldi, þannig að það miðaðist við krónuupphæð á magneiningu, en ekki einungis við verðmæti, og yrði yfir höfuð sú sama á allar fiskafurðir. Innbyrðis er svo gjaldheimtunni sjálfri enn fremur breytt í nokkrum atriðum. T.d. skal gjaldið til fiskveiðasjóðs vera jafnvirði þess framlags, sem greitt hefur verið til sjóðsins af þorskafurðum, en greiðast framvegis af síldarlýsi og síldarmjöll. Umræddar breytingar, sem nánar er frá skýrt í grg, frv., eru taldar leiða til nokkurrar hækkunar gjalds af síldarlýsi og síldarmjöli og lækkunar gjalds að sama skapi á þorskafurðum, en áætlað er, að gjaldið geti vegna þessara breytinga gefið sem næst 40 millj. kr., er svari til 4% fiskverðshækkunar. Umræddar breytingar á fyrirkomulagi útflutningsgjalda eru að meginefni í samræmi við þær hugmyndir, er ræddar voru í yfirnefndinni. Um frávik, er á hafa verið gerð, hefur verið haft samráð við þá aðila, er fulltrúa áttu í yfirnefnd.

Ástæðan til þeirra breytinga, sem áttu sér stað, eftir að yfirnefndin lauk störfum, er fyrst og fremst tæknilegs eðlis varðandi sjálfa framkvæmdina. Í grg. frv. eru nákvæmlega skýrðar ástæðurnar til þeirrar breytingar. En meginástæðan er sú, að sá háttur, sem á hefur verið hafður í þessu efni, er talinn geta leitt til minni áhuga fiskkaupenda á frekari vinnslu afurðanna í landi, t.d. á framleiðslu fisks í neytendaumbúðum, en það verður að telja mjög óæskilega þróun. Af niðurlögðum og niðursoðnum vörum hefur á undanförnum árum verið greitt 2% útflutningssjóðsgjald. Með hliðsjón af framansögðu er lagt til með þessu frv., að gjald þetta verði nú að fullu og öllu fellt niður. Ráðstöfun þessi ætti að létta nokkuð undir með umræddri starfsemi sem mikil nauðsyn er á að eflist hér á landi.

Svo sem fram kemur í 3. gr. frv., er nú sem áður ætlað, að nokkur hluti útflutningsgjaldsins renni til starfsemi Landssambands ísl. útvegsmanna, eða 0.8%. Með tilvitnun til þessa ákvæðis, sem á sínum tíma var upp tekið vegna sérstakra starfa, er Landssamband ísl. útvegsmanna innti af hendi fyrir það opinbera, hafa samtök sjómanna, þ.e. Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandið, eindregið óskað eftir að fá hliðstæða fjárhagsaðstoð af útflutningssjóðsgjaldi og fært fram þau rök, að gjald þetta verki til lækkunar á fiskverði, ekki síður til sjómanna en útgerðarmanna, þar sem þeir eigi hvor um sig sinn hlut eða um helming aflans, þeir greiði þannig útflutningsgjaldið að sinum hluta. Landssamband ísl. útvegsmanna telur hins vegar, að breyting á þessum hlutföllum nú væri nánast brigð á samkomulaginu um fiskverðið, ef taka ætti nú af hluta þeirra til sjómanna, þar sem þeir greiði í styrktar- og sjúkrasjóði sjómanna ásamt launaskatti og gjaldi til atvinnuleysistryggingasjóðs o.s.frv. af hlut sjómanna og eigi þrátt fyrir fiskverðshækkunina í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

Þótt ekki sé unnt að verða nú við óskum sjómanna að þessu leyti, er það persónuleg skoðun mín, að réttmæti þessara óska verði, vart í efa dregið og ekki verði til lengdar gegn þeim óskum staðið. Sjómönnum er hins vegar nauðsyn á að sameinast meira í einum samtökum en nú á sér stað hjá þeim, m.a. til fullnægingar á þessum óskum, þannig að skipting þeirra tekna, er þannig fengjust samtökum þeirra til handa, yrði ekki bitbein þeirra í milli. Þá væri illa farið.

Eftir að fyrrnefnt samkomulag var gert í yfirnefnd verðlagsráðs, hafa saltfisksframleiðendur látið í ljós óánægju með, að þeim skuli ekki ætlað fé til endurbóta og framfara í verkunaraðstöðu sinni við saltfisksverkun, eins og frystiiðnaðinum er ætlað, og færa ýmis mikilvæg rök fyrir þessari skoðun sinni. Í forsendum yfirnefndarinnar er hins vegar gert ráð fyrir, að framlag til framleiðniaukningar verði greitt til sömu aðila og áður og af framangreindum ástæðum því ekki unnt að verða við þessum óskum nú. á hinn bóginn munu umr. um þetta atriði fremur heyra til sérstöku frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem innan skamms tíma verður lagt fram hér í hv. þd.

Um einstakar greinar frv. tel ég ekki þörf að ræða, svo vel sem þær eru skýrðar í þeim aths., sem frv. fylgja.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á, að afgreiðslu

þessa frv. verði hraðað svo sem kostur er hér í þessari hv. þd., því að það er fyrri deild málsins, þar sem allar áætlaðar tekjur frv. eru miðaðar við 1. marz n. k.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.