18.02.1966
Efri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil ekki hafa ýkjamörg orð um þetta mál á þessu stigi, enda verður því vísað til n., sem ég á sæti í, og mun málið þar verða athugað betur og reynt að fá fram þar ýmsar upplýsingar, sem ég tel nauðsynlegt að fyrir liggi, áður en endanleg afstaða er tekin til þessa máls. En tæplega er hægt við því að búast, að þær upplýsingar komi fram í þeim umr., sem hér fara fram við 1. umr. málsins. Og enn fremur byggist það, að ég verð fáorðari en ella, á þeirri ósk hæstv. sjútvmrh., að málinu sé hraðað svo sem tök eru á og það komizt sem fyrst til n. En ég verð þó að segja það nú strax, að þetta frv. og það, sem á bak við það býr, minnir mann heldur ónotalega á það, hvernig nú er komið fyrir höfuðatvinnuvegum landsins að undangengnu einu mesta góðæri, sem yfir okkar land hefur komið. Þegar litið er til árferðis, aflabragða og markaðsástands, ættu atvinnuvegirnir, ef allt væri með felldu að öðru leyti, að standa með hinum mesta blóma um þessar mundir. En því fer nú fjarri, að svo sé, þegar á heildina er lítið, þó að vitaskuld sé afkoman misjöfn eftir atvinnugreinum og landshlutum og eftir annarri aðstöðu. Hver atvinnugreinin á fætur annarri ber nú fram sína kveinstafi um versnandi afkomu, hallarekstur, samdrátt og yfirvofandi framleiðslustöðvun. Þar um liggur fyrir vætti margra, ekki aðeins einstakra atvinnurekenda, heldur og fyrirsvarsmanna heilla atvinnugreina. Það má t.d. spyrja, hvernig ástandið sé nú í landbúnaðinum. Formaður Stéttarsambands bænda segir m.a. svo í janúarhefti Freys, þar sem hann ræðir um rekstrarreikninga landbúnaðarins og afkomu landbúnaðarins, — hann segir:

„Þýðingarmesta ályktunin, sem draga má af niðurstöðum þessara reikninga, er sú, að bændur, eins og allur almenningur, tapa sífellt á verðbólgunni, að framleiðslukostnaðarverð á afurðum fjarlægist það að geta orðið samkeppnisfært á erlendum mörkuðum, eftir því sem dýrtið hér á landi eykst, og að kjör bænda batni allt of lítið borið saman við aðrar stéttir, þó að verðlagið hækki sífellt. Höfuðnauðsyn fyrir bændur sem þjóðfélagið í heild er, að verðbólgan verði stöðvuð.“

Þetta voru orð fyrirsvarsmanns landbúnaðarins.

Um iðnaðinn er það vitað, að hann hefur átt í sívaxandi erfiðleikum, ekki aðeins af völdum síhækkandi framleiðslukostnaðar og verðbólgu, heldur og vegna ónógra og óhagstæðra lána og vegna þess, að tollvernd var minnkuð allt of skyndilega. Hafa sum iðnaðarfyrirtæki beinlínis gefizt upp og orðið að hætta starfsemi og starfrækslu sinni fyrir þessar sakir. Er sú saga svo alkunn, að hana er óþarft að rekja hér. Þó má geta ummæla formanns Félags ísl. iðnrekenda, er hann viðhafði í grein í Morgunblaðinu 14. jan. s.l. Hann segir þar m.a.:

„Á árinu 1964 tóku erfiðleikar að gera vart við sig í ýmsum greinum verksmiðjuiðnaðarins. Stöfuðu þeir af stórauknu frjálsræði í innflutningi, lækkun tollverndar með nýjum tollal., sem sett voru á miðju ári 1963, og vegna örrar hækkunar framleiðslukostnaðar.“

Þetta segir þessi fyrirsvarsmaður iðnaðarins. En hvað er þá um sjávarútveginn að segja, þessa höfuðstoð íslenzks atvinnulífs, sem aðallega liggur auðvitað fyrir að ræða í sambandi við það mál, sem hér er til umr.? Um það efni segir það frv., sem hér liggur fyrir, sína sögu. Það er sjálfsagt hafið yfir allan efa, að fiskseljendur, útvegsmenn og sjómenn, þurftu að fá þá verðhækkun á ferskfiski, sem yfirnefnd ákvað, og hefur raunar komið fram af hálfu sumra þeirra og samtaka þeirra, að sú hækkun hafi verið allt of lítil og eftir þá hækkun sé ekki einu sinni fyrir hendi grundvöllur fyrir rekstri, eins og t.d. hefur komið fram hjá samtökum bátaútvegsmanna hér í Reykjavík. Og það er sjálfsagt einnig alveg fullsannað og kannað til hlítar, að fiskkaupendur, vinnslustöðvarnar, gátu ekki tekið þá hækkun á sig nema fá tilsvarandi tilslökun á útflutningsgjaldinu. Og hvað segja útgerðarmennirnir, ef við þá er talað um þessi málefni? Hvað segja þeir um ástand og afkomuhorfur sjávarútvegsins? Og hvað segja þeir útvegsmenn um það efni, sem til sín hafa látið heyra opinberlega að undanförnu? Og hvað sagði nýafstaðið fiskiþing um það efni? Ég skal ekki tefja tímann hér með því að fara langt út í að rekja það, sem fram hefur komið af hálfu útgerðarmanna í því sambandi, en aðeins á örfátt skal ég þó drepa. Ég nefni t.d. það, sem Finnbogi Guðmundsson útgerðarmaður segir í viðtali við Þjóðviljann 2. febr. Þar segir hann:

„Mér er óhætt að fullyrða um okkur flesta atvinnurekendur í sjávarútvegi, að við erum ákaflega kvíðnir út af framtíðinni vegna spennunnar á vinnumarkaðinum og hinnar gegndarlausu verðbólgu.“

Í svipaðan streng hafði raunar áður tekið í Þjóðviljanum Ólafur Jónsson útgerðarmaður í Sandgerði, en það viðtal er birt í Þjóðviljanum 23. jan., og skal ég ekki orðlengja um það. Eins og ég drap á lauslega áðan, lýsti formaður bátaútvegsmannafélagsins hér í Reykjavík, Andrés Finnbogason, því yfir á fundi með blaðamönnum 17. jan. 1966, að þrátt fyrir þessa verðhækkun, sem þó hafði verið ákveðin á ferskfiskinum með ákvörðun yfirnefndar, skorti mikið á, og segir eitthvað á þá lund, að útvegsmennirnir hér telji, að þrátt fyrir verðhækkunina væri ekki grundvöllur fyrir bolfisksveiðum. og nefndi til ákveðnar tölur, sem vantaði á hvern bát, til þess að í raun og veru væri rekstrargrundvöllur fyrir hendi varðandi útgerð hans.

Hinn margreyndi útgerðarmaður. Haraldur Böðvarsson, hefur einnig látið til sín heyra um þessi mál. Hann sagði í lok stuttrar greinar í Morgunblaðinu 15. þ.m., með leyfi forseta:

„Ég hef þetta ekki lengra að sinni, en vil að endingu benda á, að útgerðinni og vinnslustöðvunum var gerður slæmur grikkur með vaxtahækkuninni um áramótin, og ekki bætir það úr lánaþörfinni, að enn skuli standa bundið og innilokað meira af sparifé landsmanna en nokkru sinni fyrr.“

Og hvað sagði svo nýafstaðið fiskiþing um þessi efni? Í einni ályktun fiskiþingsins t.d., sem snertir að vísu sérstaklega einn þátt fiskveiðanna, línuútgerðina, segir svo:

„Á Vestfjörðum og hluta af Norðurlandi hefur línuútgerð verið aðaluppistaðan í atvinnulífinu 4—6 mánuði á ári. Leggist sú útgerð niður, svo sem allt útlit er fyrir að verði, ef ekki fæst viðhlítandi starfsgrundvöllur nú þegar, er mikill vandi fyrir dyrum um atvinnu á þessum stöðum.“

Jafnframt tók fiskiþingið það fram í sérstakri ályktun, sem ég kem e.t.v. að síðar, að það legði höfuðáherzlu á, að allt yrði gert, sem unnt væri, til þess að stöðva verðbólguna. Í Þjóðviljanum í gær var samtal við framkvæmdastjóra fyrirtækis, sem nefnist Fiskmiðstöðin í Örfirisey, sem er fyrirtæki allmargra útgerðarmanna. Þar segir m.a. svo:

„Höfuðmeinsemdin í þessum málum er enginn rekstrargrundvöllur fyrir báta til þess að stunda línuútgerð. Bátaflotinn er meira og minna lamaður. Sjómenn fást ekki á bátana, og útgerðarmenn geta ekki haldið úti bátunum vegna rekstrarkostnaðar í dýrtíðinni, vegna þess að fiskverðið er skammtað of naumt. Við höfum haldið úti tveim bátum frá því í haust og rekið þá með botnlausu tapi.“

Þetta segir Sæmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Fiskmiðstöðvarinnar. Allir vita eða ættu að vita, hvernig er komið fyrir togaraútgerðinni, og þar um má t.d. vísa til greinar eftir formann Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, Loft Bjarnason, sem birtist í dagblaðinu Vísi í fyrradag, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það hér nánar. En það er eins og kunnugt er og t.d. jafnvel hefur líka komið fram í Morgunblaðinu. ef ég man rétt, í einni grein, sem þar var skrifuð um þessi mál, að sennilega er hagur togaraútgerðarinnar nú með því allra versta móti, sem hann hefur nokkru sinni orðið.

Ég hef þannig drepið á aðeins nokkra vitnisburði þeirra manna um þessi mál, sem þau mega gerst þekkja af eigin reynd. Ég veit, að málshátturinn segir, að það sé enginn búmaður, sem ekki kunni að berja sér. En jafnvel þó að það sé haft í huga og sitthvað sé dregið frá vegna þess, held ég þó, að allir hljóti að vera sammála um, að ummæli þessara manna og ábendingar þeirra séu allt annað og miklu meira en barlómur og úrtöluvæl. Ég held, að fram hjá því verði ekki gengið, að atvinnuvegirnir, og þá ekkert síður sjávarútvegurinn en hinar höfuðgreinar atvinnuveganna, standi nú þrátt fyrir allt höllum fæti og horfi fram á versnandi afkomumöguleika og hallarekstur í mörgum greinum, ef engin breyting verður á til batnaðar. Það er, hygg ég, staðreynd, sem ekki verður um deilt. Vitaskuld er ástandið í þessum efnum misjafnt, eins og ég hef þegar drepið á, eftir landshlutum, eftir því, um hvers konar veiðar er að tefla, og eftir því t.d. líka, hver skip menn hafa til veiðanna. En þetta, sem ég hef sagt, hygg ég, að eigi við, þegar á heildina er litið og heildarútkoman tekin til athugunar.

Þegar maður sér þær staðreyndir fyrir sér, fer ekki hjá því, að maður spyrji: Hvað veldur því, að nú er svona komið fyrir sjávarútveginum? Það liggur í augum uppi, að þessu valda ekki léleg aflabrögð. Þvert á móti hafa aflabrögðin verið góð, já, alveg einstaklega góð, þegar á heildina er litið, svo góð, að aflamagn hefur víst á einu ári aldrei orðið meira hér á landi heldur en á s.l. ári. Að vísu er skylt að viðurkenna og benda á um leið, að það er síldin, sem þar á í sinn stóra þátt. Og jafnframt er auðvitað skylt að hafa í huga, að þótt aflabrögðin yfirleitt séu svona góð, þá er aflabrestur og hefur verið í einstökum landshlutum, og skyldi ég sízt af öllu gleyma því. Ekki veldur hér um slæmt markaðsástand, því að sannleikurinn er sá, að salan á sjávarafurðum mun yfirleitt hafa gengið sérstaklega vel, og verðlag á þeim mun hafa verið óvenjulega hagstætt, og eftir því sem ég bezt veit, munu markaðshorfur nú varðandi þessar vörur almennt vera taldar góðar. Hvað veldur því þá, að svo illa horfir fyrir þessum höfuðatvinnuvegi Íslendinga nú? Hver er orsökin? Svarið er: Það er verðbólgan, fyrst og fremst vaxandi verðbólga. En þá spyrja menn og væntanlega þá ekki hvað sízt fylgismenn núv. hæstv. ríkisstj.: Hvernig má það vera? Ætlaði stjórnin ekki að stöðva verðbólguna? Taldi hún ekki lausn verðbólguvandans sitt höfuðviðfangsefni? Jú, vissulega, og um það efni voru á sínum tíma höfð mörg, stór og fögur orð. Viðreisnin átti að lækna verðbólguvandann. Þá átti ekki lengur að vera með neinar smáskammtalækningar, heldur átti að gera einn heljarstóran holskurð og skera meinsemdina burt, svo að ekki þyrfti frekar við að fást. Og það var sagt mikið um það, hvað hér lægi við, ef ekkí tækist að stöðva verðbólguna. Því var m.a. lýst yfir einu sinni á sínum tíma af fyrirsvarsmanni ríkisstj., að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, væri annað unnið fyrir gýg. En staðreyndirnar tala nú sínu máli, að þrátt fyrir þessi mörgu fögru fyrirheit hefur stjórninni ekki tekizt að ráða við verðbólguna, heldur hefur verðbólgan þvert á móti farið hraðvaxandi, og það sem meira er, að nú loksins er stjórnin og talsmenn stjórnarinnar farin að viðurkenna alveg berum orðum, að sér hafi ekki tekizt að ráða við verðbólguna, það hafi ekki tekizt að halda verðbólgunni í skefjum. Og þetta er auðvitað sannleikurinn í málinu, að það hefur ekki tekizt að ráða við verðbólguna og halda henni í skefjum, heldur hefur hún farið, eins og ég sagði, hraðvaxandi, og því er nú komið sem komið er, að það má heita svo, að eiginlega sé allur rekstur á heilbrigðum grundvelli orðinn lítt mögulegur í þessu landi. Og þetta undirstrikuðu rækilega allir þeir fyrirsvarsmenn atvinnugreinanna, sem ég vitnaði til áðan. Formaður Stéttarsambands bænda lagði á það áherzlu, að það væri höfuðnauðsyn fyrir bændastéttina og þjóðfélagið í heild, að verðbólgan væri stöðvuð, og fiskiþing lagði á það höfuðáherzlu, að allt væri gert, sem unnt væri, til þess að stöðva verðbólguna, og að engar nýjar álögur yrðu lagðar á útgerðina. Og formaður Félags ísl. iðnrekenda segir eitthvað á þá lund, að það sé frumskilyrði fyrir framtíð iðnaðarins, að verðbólgan verði stöðvuð. En svona er nú komið, að það getur eiginlega enginn rekstur í þessu landi borið sig lengur. Þannig er nú komið. Og það er alvarlegt mál, þegar litið er til þess góðæris, sem við höfum átt við að búa almennt talað hér að undanförnu.

Það er að vísu svo, að verðbólgan er ekki nýtt vandamál. og það hafa svo sem fleiri ríkisstjórnir glímt við verðbólguna með misjöfnum árangri. En ég hygg þó, að þessi ríkisstj. hafi haft stærri orð og gefið meiri fyrirhelt um stöðvun verðbólgunnar og látið þar meir um mælt en flestar eða ég hygg að óhætt muni að segja allar ríkisstjórnir aðrar. En stjórninni hefur eins og raun ber vitni gersamlega mistekizt að hafa nokkurn hemil á verðbólgunni, sem hefur þvert á móti vaxið í hennar tíð meir en hjá flestum eða jafnvel öllum öðrum ríkisstjórnum, þegar alls er gætt.

En í stað þess að taka afleiðingum verka sinna og segja af sér, þegar svona er komið, svo sem flestar ábyrgar ríkisstjórnir hefðu gert, situr stjórnin áfram og virðist því miður lítið eða ekkert hafa lært af sínum mistökum. Það skal fúslega játað, að vandi sá, sem við er að eiga, er stór, og hann hefur lengi verið mikill, og ég hef aldrei gert lítið úr þeim vanda. Ég hef þvert á móti í öllu því, sem ég hef sagt um þessi mál, lagt á það áherzlu, að í viðureigninni við verðbólguna væri tæplega árangurs að vænta, nema allir landsmenn sneru bökum saman, en undir það hefur lítt verið tekið af hálfu stjórnarflokkanna. Þeir hafa talið sig vera nógu stóra karla til þess að geta ráðið við þessi mál upp á sitt eindæmi. Og þau eru ekki ófá köpuryrðin, sem hafa hrokkið úr penna, ekki aðeins úr penna óábyrgra atvinnuskrifara stjórnmálaflokkanna, heldur og bæði úr penna og munni forustumanna stjórnarflokkanna, þar sem þeir hafa látið að því liggja, að engin ráð þyrfti að sækja til Framsfl. og það þyrfti ekki á honum að halda við lausn þessara mála og það mundi ekki verða til hans leitað o.s.frv. Að sjálfsögðu látum við framsóknarmenn okkur slík orð í léttu rúmi liggja út af fyrir sig, og við verðum ekki uppnæmir fyrir því, þó að það sé kastað þannig smásteinum af þeim, sem sjálfir búa í glerhúsi, og við munum ekki fyrir þær sakir fara í neina fýlu eða draga okkur út úr pólitík. Við munum eftir sem áður og hvenær sem er vera til viðræðu um lausn þessara mála, þegar upp verða tekin þau vinnubrögð, að að þeim skuli unnið á skynsamlegan og réttan hátt. En hvenær verður það, sem þau vinnubrögð verða upp tekin, að snúast við þessum mikla og gífurlega vanda, sem að steðjar, á réttan hátt og með skynsamlegu móti? Um það skal ég engu spá, en það er víst, að það verður ekki gert undir forustu núv. hæstv. ríkisstj., því að eins og ég áðan sagði, er það vissulega mannlegt að skjátlast, og mörgum verða á mistök. En það er hygginna manna háttur að læra af reynslunni og læra af mistökum sínum. En því miður virðist stjórnin ákaflega lítið hafa lært á þeim mistökum, sem henni hafa á orðið í þessu efni, því að hún heldur áfram enn óbreyttri stefnu eða réttara sagt stefnuleysi, heldur áfram breiða veginn, sem liggur undan brekkunni, niður á við. Og hvernig halda menn, að það ferðalag endi? Ríkisstjórnin fæst ekki til þess að taka upp nýja stefnu, hún fæst ekki til þess að prófa nýjar leiðir í þessum efnum, sem henni þó hefur verið margbent á, leiðir, sem að vísu liggja á brattann í bili og kalla á nokkurt þor og þrek.

En í stað þess virðist stjórnin helzt sjá það úrræði nú að stofna til stórframkvæmda með atbeina erlends fjármagns á því svæði, þar sem þenslan er mest og vinnuaflsskorturinn alvarlegastur. Er þó augljóst, að slíkt hlýtur að verka á verðbólguna á svipaðan hátt og þegar olla er borin að eldi, hlýtur að ýta stórkostlega undir hana og magna hana margfaldlega. Hvernig halda menn, að sjávarútveginum með þeirri stöðu, sem hann hefur í dag, muni ganga að keppa við stórfyrirtæki, sem styðst við erlent fjármagn, um vinnuaflið? Manni verður að spyrja, hvort þessum mönnum sé sjálfrátt. Úr þeirri spurningu get ég ekki leyst. En það verður ekki komizt hjá því, og ég hef talið, að það yrði ekki komizt hjá því að minna á þessi atriði í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, því að höfuðgallinn á þessu frv. er sá, að það felur aðeins í sér bráðabirgðaúrræði, og kannske ekki einu sinni það, það er aðeins ótraust bót á gatslitið og margstagað fat, en það er ekki horfzt í augu við sjálft höfuðvandamálið, verðbólguna. Það er ekki með þessu frv. tekizt á við heildarvandann, sjálfan verðbólgufjandann, ef svo mætti segja. Þar er sveigt hjá sem fyrr.

Hér er í þessu frv. um það að ræða að færa 38 eða 40 millj. eða því sem næst á milli atvinnugreina innan sjávarútvegsins, létta þeirri upphæð af bolfiskafurðum, svo sem þær eru nú kallaðar, og leggja þessar 40 millj. á bræðslusíldarafurðir. Fé er sem sagt dregið frá einni atvinnugrein yfir til annarrar. Hér er því um eins konar verðjöfnun að ræða. Verðjöfnun á milli afurða er í sjálfu sér engan veginn óþekkt fyrirbæri hér á landi, og hún getur sjálfsagt, að fullnægðum tilteknum skilyrðum, átt fullan rétt á sér. En þegar úr því á að leysa, hvort verðjöfnun á milli atvinnugreina sé þannig réttmæt eða ekki, hlýtur það að mínu viti að vera höfuðatriði, hvert viðhorf eða afstaða þeirra stétta. sem þetta sérstaklega snertir og við eiga að búa, er til slíkrar verðjöfnunar. Það atriði liggur hér engan veginn ljóst fyrir. Það liggur engan veginn ljóst fyrir, hvert var viðhorf útgerðarmannanna sjálfra og hvert er viðhorf sjómannanna til þessarar verðjöfnunar. Að því er aðeins óljóst vikið í grg. þessa frv. Það atriði þarf að kanna. Um það þurfa að fást fullnægjandi upplýsingar í n. þeirri, sem fjallar um málið. Það hefur að sjálfsögðu mjög mikið að segja um það, hvort þessi ákvörðun er réttmæt eða ekki, hvað þeir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, leggja til í þessu efni. Það er, eins og ég hef þegar tekið fram, sjálfsagt ekkert umdeilanlegt mál, að fiskseljendurnir þurfa að fá þessa upphæð, sem þarna er um að ræða, og hefði kannske ekki veitt af ríflegri upphæð, eða fá hana í því formi, sem hér er nú ráð fyrir gert gagnvart þeim, að slíkri upphæð sé af þeim létt í opinberum gjöldum. Og það er sjálfsagt ekki heldur nokkurt vafamál. að fiskkaupendunum, fiskvinnslustöðvunum, er það um megn að taka það sem því svarar á sig. En einhver verður að borga þessar 40 millj. eða hvað það nú er, sem þarna er um að ræða, — og hver á að gera það? Það er náttúrlega sú þýðingarmikla spurning, sem svara þarf. Hér í þessu frv. er svarið það, að þessar millj. eru lagðar á bræðslusíldarútveginn. Vitaskuld koma þær til með að leggjast að lokum á útgerðarmennina, síldarútgerðarmennina og síldarsjómennina, því að verksmiðjurnar, bræðslurnar, hljóta auðvitað að ákveða verðið til þeirra miðað við þann kostnað, sem fyrir liggur, þegar verðið er ákveðið, og þar með þá einnig auðvitað hið hækkaða útflutningsgjald á þessum afurðum. Sú spurning hlýtur þá að vakna, og það hlýtur að vera eitt meginatriði í sambandi við þetta frv., hvort síldveiðarnar, síldarútgerðarmenn og síldarsjómenn, geti tekið þessar nýju álögur á sig. Vitaskuld er rétt og sanngjarnt að hafa í huga, um leið og þessarar spurningar er spurt, að nokkuð af þessari upphæð rennur aftur til baka til hinna sömu aðila.

Það er og hefur verið mikið talað að undanförnu um það, að síldveiðarnar hafi gefið miklar tekjur. Og það er vissulega rétt, að afli sumra síldveiðiskipanna hefur verið mikill, mjög mikill. og tekjur þeirra útgerðarmanna, sem þau skip eiga, og tekjur þeirra síldarsjómanna, sem á þeim skipum hafa verið, hafa sjálfsagt verið mjög miklar. En þegar við tölum um miklar tekjur síldveiðimanna, þá hættir okkur til þess að einblína á þessa toppa, á þá, sem hæstu veiðina hafa fengið og mest hafa þannig úr býtum borið við síldveiðarnar. En það má ekki gera í þessu sambandi, þegar um það er að ræða, að leggja þessar millj., sem hér er um að tefla, á þennan útveg. Afkoma síldveiðiflotans er mjög misjöfn, það vitum við. Sum skipin hafa lítið aflað. Þegar leyst er úr þeirri spurningu, sem ég bar hér fram áðan, hvort það væri hægt að leggja þetta á síldveiðiflotann. verður að sjálfsögðu að miða við meðaltalið. Það verður að spyrja um það, hverjar hafi verið meðaltekjur síldveiðisjómanna s.l. sumar og hver hafi verið meðalafkoma hjá síldveiðiskipunum. Um það þarf að leita upplýsinga, og þær upplýsingar fást vonandi í n., sem um frv. fjallar. Án þess að slíkar upplýsingar liggi fyrir, verður myndin, sem fæst um þessi efni, óljós og ófullnægjandi. Enn má minna á það, sem fiskiþing sagði um þessi efni. Að vísu má vera, að þar hafi aðrar veiðar frekar verið í huga hafðar en síldveiðarnar, um það skal ég ekki fullyrða, en almennt var þar sagt, eins og ég áðan sagði, að höfuðáherzlan var lögð á það, að allt yrði gert, sem unnt væri, til að stöðva verðbólguna og engar nýjar álögur yrðu lagðar á útgerðina.

Vitaskuld er þarna um að tefla, að nýjar álögur séu lagðar á þennan þátt útgerðarinnar, á síldveiðarnar. Þá verður auðvitað líka í þessu sambandi að því að spyrja, hverjar séu horfur á verðlagningu bræðslusíldarinnar á sumri komanda. Sé það ekkert kannað, mætti vel svo fara, að hér væri aðeins tjaldað til einnar nætur, vandanum ýtt á undan sér til vorsins eða sumarsins. Og í því sambandi er ekki úr vegi að minnast þeirra atburða, sem áttu sér stað s.l. sumar og svo óvenjulegir voru, að öllum hv. þdm. eru þeir sjálfsagt í svo fersku minni, að þá er óþarft að rekja. En þá var um það að ræða m.a., að nýjan skatt skyldi leggja á síldveiðarnar. Og hvernig brugðust síldveiðisjómennirnir við því? Þeir sigldu flotanum í höfn og biðu í höfn, þangað til úr vandanum hafði verið greitt og þeir fengið þá rétting sinna mála, sem þeir töldu viðhlítandi. Hvaða trygging er fyrir því, ef þessar álögur, sem hér er um að ræða, væru nú lagðar á í blóra við þá og í óþökk síldarsjómannanna, — hvaða trygging er fyrir því, að sagan frá í fyrrasumar endurtaki sig ekki? Þess vegna er enn og aftur ástæða til að undirstrika það, sem ég þegar hef sagt, að það er vitaskuld mjög nauðsynlegt, áður en þetta mál er afgreitt, að kannað sé, hver sé afstaða þessara manna, sem þetta mál snertir alveg sérstaklega, til þessara fyrirhuguðu ráðstafana. En ef sagan frá í fyrra endurtæki sig næsta vor, væri vissulega, eins og ég áðan sagði, aðeins tjaldað til einnar nætur í þessum málum.

Ég tel. og það má raunar ráða af því, sem ég hef hér þegar sagt, ekki tímabært að taka endanlega afstöðu til þessa frv. fyrr en þær upplýsingar, sem ég hér hef drepið á, liggja fyrir og reyndar ýmsar fleiri. Hér er vissulega um mikið vandamál að ræða, vanda, sem verðbólgan hefur átt drýgstan þáttinn í að skapa. Vitaskuld væri réttast og það eina rétta, — og það vildi ég hafa undirstrikað alveg sérstaklega með þeim orðum, sem ég lét falla í fyrri hluta minnar ræðu, — að ráðast gegn rótum meinsins, ráðast gegn verðbólgunni sjálfri. Það er sú eina viðhlítandi lausn á þessum vanda, sem finnanleg er. En sé það ekki gert, verður þó auðvitað með einhverjum hætti að ráða fram úr þessum vanda, því að ekki má útgerðin og fiskiðnaðurinn stöðvast. Um það hljótum við öll að vera sammála.