24.02.1966
Efri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram strax í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, sem mér finnst að hafi kannske ekki nægjanlega gætt hjá hv. stjórnarandstæðingum a.m.k., að þetta frv., sem hér er um að ræða, er staðfesting á samkomulagi, sem yfirnefnd hefur gert, yfirnefnd í verðlagsráði sjávarútvegsins, og er flutt til staðfestingar á því, sem þar gerðist. Það var skýrt tekið fram af mér, þegar frv. var hér lagt fram fyrst, að svo væri, og ég tel ástæðu til þess með hliðsjón af þeim umr., sem þegar hafa farið fram, að undirstrika þetta enn einu sinni. Mér finnst hafa á því borið í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, að þetta væri frv., sem ríkisstj. hefði smíðað eiginlega ótilkvödd, og þeir hafi efazt, eins og ég skal víkja að hér síðar, um nauðsyn á einstökum atriðum þessa frv. Þetta tel ég ástæðu til að undirstrika sérstaklega að gefnu tilefni.

Þegar frá eru teknar umr. um almenn efnahagsmál, sem einnig komu hér allverulega á dagskrá við 1. umr. málsins, verður að telja, að mörg þeirra atriða, ef frá eru teknar beinar spurningar, sé ekki þörf á að ræða öllu nánar. Þau eru þegar útrædd við 1. umr. málsins, og ekki þörf á málalengingum um þau atriði nú. Örfáum atriðum umfram þær beinu fsp., sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni, vildi ég þó víkja að. Það var ekki talin þörf á því af hv. 5. þm. Reykn., eða a.m.k. taldi hann varhugavert að færa á milli þær fjárhæðir, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég verð nú að segja, að þó að hv. 6. þm. Sunnl. teldi það einhverja nýtízkulega jafnaðarstefnu af minni hálfu, að þessar tilfærslur ættu sér stað, sem enn fremur undirstrikar það, að menn virðast ekki gera sér það ljóst, að þetta er ekki frv., sem smíðað er án gefins tilefnis, þess samkomulags, sem ég hef þegar getið um. Það hefur aldrei verið neitt bannorð í röðum jafnaðarmanna, að það væri fært frá þeim, sem taldir væru þess megnugir að bera byrðar, og það er sú niðurstaða, sem yfirnefndin hefur komizt hér að og er staðfest af flutningi þessa frv. Ég er kannske ekki eins lærður í sósíalisma og hv. 6. þm. Sunnl., en ég hef ekki rekizt á það, að slíkar tilfærslur gengju gegn þeirri stefnu, sem þar er boðuð, en má þó vera, að hann hafi betur numið þau fræði en ég.

Ekkert liggur á, sagði hv. 6. þm. Sunnl., að ákveða þetta nú. Það er alveg nóg að tala um þetta í sambandi við síldarverðið í vor. — Ef þær tilfærslur, sem hér er gert ráð fyrir, eiga að gefa þær tekjur, sem ráðgerðar eru, er af öllum talið nauðsynlegt, að öll ákvæði frv. taki gildi í senn, enda á sama hátt hægt að segja alveg gagnstætt: Það er óþarfi að fresta þessari ákvörðun til vors. Það er þegar ljóst, að þeirra tekna, sem þarna er um að ræða, er þörf, fullkomin þörf að óbreyttum öðrum ákvæðum, sem til tekna gætu komið. Það kemur svo ný ákvörðun um síldarverðið fyrir næstu síldarvertíð, ef það verður tekið upp, svo sem lög mæla fyrir, á sínum tíma. Ég á dálítið erfitt með, þegar ég les nál. hv. 2. minni hl. sjútvn. og hlusta á ræður því nál. til stuðnings, að átta mig á, hver raunveruleg afstaða hv. framsóknarmanna er. Af nál. og ræðuflutningi verður ekki önnur ályktun dregin en þeir séu frv. andvígir. Þó er niðurstaðan í báðum tilfellum sú, að þeir vilji ekki taka afstöðu til þessa þáttar málsins eins út af fyrir sig, þeir telji, eins og hv. 6. þm. Sunnl. sagði, að hér yrði, ef ætti að vera um raunhæfar úrbætur að ræða, að taka öll efnahagsmál þjóðarinnar til endurskoðunar, það hygg ég að sé ekki ranglega með farið. En til þessa þáttar eru hv. framsóknarmenn ekki reiðubúnir að taka afstöðu, og ég hygg, að það sé meðfram vegna þess, að undir athugun n. hafi þeir aðilar, sem þeir kannske meta meira en stjórnarstuðningsmenn í hv. þd., sannfært þá um það, að nauðsyn væri á þeim ráðstöfunum, sem frv. felur í sér. Ég hefði álitið, — það er mitt mat bæði á nál. og ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sér í lagi hv. 6. þm. Sunnl., — að eðlileg niðurstaða af þeim inngangi, sem í báðum tilfellum var fluttur, væri sú að vera andvígur frv. En það er ekki. Og ástæðurnar til þess, að þeir vilja ekki taka afstöðu til málsins, virðist vera þær upplýsingar, sem þeim hafa borizt undir meðferð málsins í þn.

Ég skal svo víkja, að svo miklu leyti sem þess er kostur hér óundirbúið í ræðustól, að spurningum hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann dregur í efa á sama hátt og aðrir hv. stjórnarandstæðingar, að nauðsyn sé á þeim gjöldum, sem yfirnefndin hefur einróma lagt til. Ég tel það einróma lagt til, þegar sú niðurstaða, sem þar var tekin, er samþ. með 4 shlj. atkv. og einn aðilinn, fulltrúi sjómanna þar, gerir þann fyrirvara einan, að hann telur n. sem slíka ekki vera til þess bæra að taka ákvörðun um þessa tilflutninga, sem fólust í niðurstöðum n. Þess vegna verður að álykta samkv. almennum fundarsköpum, að þessi ályktunarniðurstaða yfirn. hafi verið tekin einróma, þótt fyrirvari sé um þetta atriði, sem ég áðan nefndi. Hv. þm. dregur það í efa, að nauðsyn sé á tveimur veigamestu útgjaldaliðunum, sem hér er verið að afla fjár til, þ.e.a.s. tryggingagjöldunum annars vegar og gjöldunum til útflutningssjóðs hins vegar. Varðandi fiskveiðasjóðinn vildi ég aðeins segja það, að í öllum umr. um þann sjóð, þá ágætu stofnun, hefur verið yfir því kvartað, að lánsfjárgeta hans væri ekki sú, sem hún ætti að vera, hann þyrfti á meira fé að halda, þyrfti að lána til lengri tíma og lána stærra hlutfall en hann gerir í dag. Um fjárskortinn þar eða fjárvöntunina verður því varla efazt, miðað við a.m.k. þá þróun síðustu ára og þann öra innflutning fiskiskipa, sem orðið hefur á þeim árum. Ég held, að þar liggi ekki fé, sem ekki er notað.

Varðandi tryggingamálin er það öllu víðfeðmara og stærra mál, og sjálfsagt má þar endurbæta nokkuð um. Svo sem kunnugt er, voru nokkuð fljótlega, eftir að þetta Alþ. hófst, lögð fram tvö frv. af hálfu ríkisstj., sem miðuðu í þá átt annars vegar að auka ábyrgð útgerðarmanna á skipum af ákveðinni stærð og hins vegar að afla nýrra tekna til tryggingamálanna. Þetta frv. var flutt samkv. beiðni Landssambands ísl. útvegsmanna á sínum tíma og í anda þeirrar ályktunar, sem þá var gerð. Eftir að þessi frv. hins vegar komu hér fram út úr þessari endurskoðun, voru og eru efasemdir í hópi útgerðarmanna um, að sú stefna, sem þar er mörkuð, sé til lausnar þessum vanda. Það er því sýnilegt, að frekari athugun þessara mála verður að fara fram, og mér skilst, að það hafi m.a. falizt í þessum aðvörunarorðum hv. þm., að framhald á þeirri endurskoðun, sem áður hafði verið gerð, sé nauðsynleg, og ég er honum sammála um það.

Varðandi síðasta atriðið í ræðu hv. þm., þar sem hann minntist á kröfu sjómannasamtakanna og Farmannasambandsins um að fá gjald af þessum útflutningstekjum til samræmis við það gjald eða þau fjárframlög, sem gert er ráð fyrir að fari til L.Í.Ú., hlýtur það að stafa af því, að hann hafi ekki verið viðstaddur, þegar ég flutti framsöguræðu mína fyrir málinu, en meginhluti þeirrar ræðu fór í að útskýra einmitt þetta atriði málsins. Ég skýrði þar frá því, að þessar óskir hefðu verið uppi og komið formlega fram fljótlega eftir áramótin, en þá hafði verið gengið frá þessu samkomulagi, sem hér er nú verið að staðfesta með þessu frv. Og þó að ekki sé dregið í efa réttmæti þessara óska, er talið, að innkoma þess gjalds í þetta frv., sem þar um ræðir, geti raskað og raski óhjákvæmilega því samkomulagi, sem þarna var gert, og það þyrfti þá endurskoðunar í heild. Það er vitað að sjálfsögðu, sem við var að búast, að andstaða er við þetta hjá ýmsum aðilum. En þar við bætist, að frá þessu samkomulagi eða frá niðurstöðum yfirn. hafði verið gengið, þegar þessar óskir endanlega komu fram, auk þess sem þar við bætist svo, að dálitlum erfiðleikum yrði bundið að skipta þessu réttlátlega niður á sjómenn í dag. Sannleikurinn er sá, að þeir eru nánast í þrennum samtökum, þ.e.a.s. Sjómannasambandi Íslands og auk þess í sérstökum sjómannadeildum í einstökum verkalýðsfélögum, og svo Farmanna- og fiskimannasambandinu. Ég lagði því áherzlu á það í minni framsöguræðu og geri það hér með enn, að til þess að auðvelda framkvæmd þessa réttlætismáls, sem ég tel að það sé, þessara réttlætisóska sjómanna, er nauðsynlegt, að þeir reyndu að sameina sig betur í einhverju formi til þess að geta veitt þessu gjaldi viðtöku, næst þegar möguleikar gefast á að koma því inn á réttum tíma. Ég hef skýrt forustumönnum sjómannasamtakanna frá þessari afstöðu og eins frá því, að það er talið af aðilum, sem áttu aðild að samkomulaginu, að innkoma þessa ákvæðis nú væri brigð á gerðu samkomulagi, það sé ekki mögulegt að koma þessu inn, eins og á stendur. En ég tel það fullt sanngirnismál, að það verði tekið upp, um leið og málið í heild verður tekið upp að nýju, væntanlega á n. k. hausti.

Ég vil svo að lokum aðeins þakka n. fyrir ágætlega unnin störf og fyrir það að hafa orðið við óskum mínum um að hraða afgreiðslu málsins, sem hefur verið mjög vel staðið við.