24.02.1966
Efri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og hæstv. sjútvmrh. vék að, hafa ræður stjórnarandstöðuþm. mest beinzt að því að ræða, eins og oft áður, efnahagsmálin almennt, kenna núv. ríkisstj. um það, hve ótraustum tökum hún taki þessi vandamál. Maður skyldi ætla, að þessir fulltrúar væru búnir að gleyma því, að þeir eru fulltrúar fyrir þingflokka, sem á sínum tíma gáfust upp við að glíma við þessi mál og leysa í mesta góðæri, sem þá átti sér stað með þjóðinni. Á árinu 1958 var metafli hjá togaraflotanum. Þá stóðu yfir karfaveiðarnar með þeim árangri, að þessi stóru skip, togararnir fylltu sig á 2—3 sólarhringum. Öll þessi framleiðsla var flutt til landsins og unnin í frystihúsum. Skapaði þetta mjög mikla atvinnu í landinu og góðæri bæði til lands og sjávar. Maður skyldi halda, eins og ég segi, að þessir fulltrúar stjórnarandstöðunnar væru búnir að gleyma því, að þeir gáfust upp við að stjórna landinu og ráða við verðbólguna á þessum tímum. Nú virðast þeir aftur á móti hafa ráð undir hverju rifi, þegar þeir ráða engu eða mjög takmörkuðu.

Það hefur verið nokkuð um það deilt í umr. um þetta mál, hver afstaða útgerðarmanna sé og einn ræðumaður efaðist um það, að ég hefði athugað þetta á skrifstofu þess félags, sem ég væri í þjónustu fyrir, og nefndi þó í því sambandi það félag, sem hefur aldrei átt neinn bát.

En hvað sem því líður, er það upplýst í viðræðum, sem n. átti við fulltrúa frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, að einróma var samþ. af stjórn þeirra samtaka að mæla með samþykkt þessa frv. Í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna eru fulltrúar fyrir útgerðarmenn og félagssamtök í öllum fjórðungum landsins, úti um allt land. Félagsmálafulltrúi samtakanna upplýsti einnig á þessum fundi, að eftir að þetta lá fyrir og samningar höfðu tekizt um hækkun fiskverðsins, m.a. með þessum breytingum á útflutningsgjaldinu, hefði hann farið til margra félaga og skýrt þeim frá þessum niðurstöðum. Það hefði hvergi komið fram andstaða gegn þessari breytingu, sem hér átti að eiga sér stað.

Ég tel, að það gegni furðu, hve lítið hefur verið minnzt á það af ræðumönnum, hvaða áhrif þessi breyting, burt séð frá öllu öðru, hefur á útflutningsframleiðsluna, þar sem um er að ræða magngjaldið á þær vörur, sem mikla vinnu þarf að leggja í og aukinn kostnað, sem hefur það í för með sér, að það stórhækkaði áður álögurnar á þær framleiðsluvörur og dró úr, eins og ég sagði í minni frumræðu, áhuga manna til að framleiða verðmeiri vörur, sem skapa þjóðarbúinu auknar tekjur fyrir jafnmikið magn. Ég álit, að í þessu sambandi sé þetta mál út af fyrir sig, að taka þá ákvörðun að miða álagninguna við magn í þeim tilfellum, sem unnt er að auka verðgildi útflutningsvörunnar, og það skipti hér miklu máli.

Þá hefur verið um það rætt og á það bent, að margir hinna minni báta og jafnvel þeir, sem eru í miðflokknum, hafi á undanförnum síldveiðiárum, eftir að stærri bátarnir voru farnir að veiða síld með góðum árangri, eins og átt hefur sér stað nú sérstaklega 2—3 síðustu árin, ekki náð betri árangri en svo, að þeir hafi orðið að gera upp við sjómenn sina með kauptryggingu og sækja bætur í aflatryggingasjóð. Ég benti á það í minni frumræðu, að þróunin væri einmitt í þá átt, að minni bátarnir heltast úr lestinni, vegna þess að þeir hafa ekki möguleika á því að stunda veiðarnar á djúpmiðum, fjarri ströndum, og það hlýtur að leiða að því, að þessi þróun verði meiri hvað snýr að síldveiðunum. Það er enginn vafi á því, og það vitum við, að þeir eru á engan hátt samkeppnisfærir við stærri bátana, þessir minni bátar, og ekki í mörgum tilfellum, sízt þegar komið er fram á haust, færir um að stunda þessar veiðar á þeim miðum, þar sem síldina er helzt að fá, fjarri ströndum eða í 100—200 mílna fjarlægð frá landinu. Það var rétt, sem hér kom fram í sambandi við þessa báta, að þeir stunda jöfnum höndum þorskveiðar og síldveiðar, og það má segja, að uppistaðan í þeirra aflabrögðum sé jafnvel miklu meiri í bolfiskveiðunum, vegna þess að þeir eru styttri tíma við síldveiðarnar. Þess vegna hlýtur það að koma vel út, a.m.k. fyrir þessa bátaflokka, að þessi breyting á sér stað, þó að þeir þurfi að láta 2% í aukið útflutningsgjald af síldveiðunum, en fá síðan 4% hækkun á verði við bolfiskveiðarnar.

Ég held, að það hafi verið hv. 6. þm. Sunnl., sem sagði, að þessar nýju álögur ættu ekki að koma niður á þeim, sem hefðu breiðu bökin, t.d. síldarverksmiðjunum, skildist mér, heldur ætti þetta eingöngu að leggjast á útgerðina. Ég er ekki sammála því, að þetta þurfi að vera svo. Okkur er það vel kunnugt öllum, að afkoma síldarverksmiðjanna hefur verið mjög góð, og ég er sannfærður um það, að þær hefðu getað með tilliti til þess mikla aflamagns, sem borizt hefur í verksmiðjurnar, greitt meira en þær hafa greitt. Og ég er ekki kominn til með að sjá, þegar gengið verður frá verðáætlun á síldarverði næst, að það verði ekki eitthvað tekið tillit til þess að deila þessum kostnaði á milli útgerðarmanna, sjómanna og síldarverksmiðjanna. sem ættu vissulega að geta tekið sinn þátt í þeim auknu gjöldum, sem hér eiga sér stað, enda kom það fyllilega fram sem álit hjá formanni yfirn., þegar hann var spurður um þetta á fundi n., að hann var ekki á því máli, að þetta ætti allt að lenda á útgerðinni eða sjómönnum.

Þá hefur verið á það minnzt, að það mætti jafnvel spara í einstökum útgjaldalíðum, og þess vegna hefði ekki þurft að koma til þessi álagning varðandi útflutningsgjaldið. M.a. var talað um tryggingarnar og talað um, í hvaða ófremdarástandi þær væru hér hjá okkur Íslendingum. Hvort sem þau eru það eða ekki, tryggingarmálin, hefur þessi aðferð, sem viðhöfð hefur verið um tryggingarnar, að taka hluta af útflutningsgjaldi, sem lagt er á sjávarafurðirnar, þá hefur það verið gert eftir eindreginni ósk allra útgerðarmanna. Aftur er ég ekki sammála hv. þm., sem taldi, að gjöldin hjá okkur í sambandi við tryggingarnar væru miklum mun hærri en annars staðar, þegar það mál er skoðað niður í kjölinn. Það kom í ljós við þær fullyrðingar, sem hafðar voru á sínum tíma um þessi óhagstæðu kjör, sem talið var að væru hér á tryggingunum, að þegar það var borið saman við tryggingar í Noregi, var hér um allt aðrar tryggingar að ræða. Og úr því að farið er að tala um tryggingarnar í þessu sambandi, má mínna á það sérstaklega, að fiskiskipaflotinn okkar nýtur ekki sömu trygginga. Minni bátarnir fá ekki eins mikið tryggt og stærri bátarnir, og þess vegna væri ekkert óeðlilegt, þó að stærri bátarnir greiddu nokkuð meira til útflutningssjóðsins heldur en smærri bátarnir. Stærri bátarnir, sem eru yfir 100 tonn og hafa frjálsa tryggingu, tryggja bæði skip og vél. Ef eitthvað bilar í vélinni, eru þeir tryggðir fyrir því. Og fyrir þessu hafa útgerðarmenn fyrir alla muni viljað geta tryggt sig, því að við vitum það, að ef stór stykki brotna í verðmiklum, stórum og dýrum vélum, getur það verið þungt áfall fyrir viðkomandi útgerðarmann að eiga að bæta það úr eigin sjóði. Og það hefur verið aðstaða hjá tryggingafélögunum til þess að geta bætt þessi tjón, og mér er ekki kunnugt um, að það sé skoðun útgerðarmanna, að þeir eigi að hætta við þessar tryggingar. Ég veit, að með því að sleppa ýmsu úr þeim skilmálum, sem tryggingafélögin veita útgerðinni í dag, er hægt að færa þetta verulega niður, og eftir því, sem útgerðarmaðurinn tryggir minna, því minna kemur í hlut tryggingafélagsins að greiða, og þá segir sig sjálft, að það er auðvelt að lækka tryggingarprósentuna.

Annað var það, sem hv. ræðumaður vék að, hvort ekki mundi vera hægt að draga úr fram laginu til fiskveiðasjóðs. Í því sambandi nefndi hann tölur. Hann byrjaði ræðu sína með að átelja mig fyrir, hvað ég hefði farið með lítið af tölum í minni ræðu í sambandi við framsögu þessa máls. Ég held, að það hefði verið betra fyrir hann að fara með minni tölur, en hafa þær réttar, heldur en nefna þær tölur, sem hann gerði hér í sambandi við fiskveiðasjóðinn. Hann fullyrti hér, að hann hefði tekjur af eigin fé um 90 millj. kr. á ári. Ég held, að þar muni um helming. Ég held, að samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja 1964, hafi tekjur fiskveiðasjóðs af eigin fé verið 45 millj., svo að það er ekki alitaf, að það skipti öllu máli að nefna einhverjar tölur til þess að sanna sitt mál. Það skiptir meira máli, að það sé farið rétt með þær tölur, sem nefndar eru.

Annars vil ég segja það í sambandi við fiskveiðasjóðinn, og það held ég, að öllum útgerðarmönnum sé ljóst, að sú uppbygging, sem átt hefur sér stað í sambandi við fiskiskipaflota landsmanna á undanförnum árum, hefði ekki getað átt sér stað og sú öra þróun, sem hefur verið byggð upp í landinu varðandi þennan atvinnuveg, ef fiskveiðasjóðurinn hefði ekki verið þess megnugur að veita þá aðstoð, sem hann hefur gert, ekki sízt vegna þess framlags, sem hann hefur notið á þennan hátt.

Ég held svo, að það sé ekki fleira, sem hefur gefið mér tilefni til þess að svara í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram varðandi þetta mál, og læt ég því máli mínu lokið.