24.02.1966
Efri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. 2. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Þær ræður, sem hér hafa verið haldnar, síðan ég hafði framsögu fyrir nál. okkar 2. minni hl., gefa mér ekki tilefni til margra eða mikilla aths. Það stendur ómótmælt, sem var meginatriði í mínu máli, að sá vandi, sem hér er um að ræða, er þáttur í þeim vanda, sem óðaverðbólgan hefur skapað og skapar framleiðsluatvinnuvegunum öllum, aðeins í mismunandi mæli, og hér er um að ræða ráðstafanir, sem ekki leysa þann vanda til frambúðar.

Það kom fram hjá hæstv. sjútvmrh., að það væri hans mat á afstöðu okkar, að við mundum hafa sannfærzt í sjútvn. af þeim, sem við þar áttum viðræður við, um það, að þetta frv. væri bæði réttmætt og nauðsynlegt, og af því mundi afstaða okkar mótast. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt, því að ef það væri rétt, mundum við vera frv. fylgjandi. Við höfum bent á fjölmarga galla þessa frv. En hins vegar hefur það komið í ljós og kom einmitt í ljós við meðferð sjútvn. á málinu, að forustumenn þeirra stéttasamtaka, sem hér eiga mestan hlut að máli, eru þessum ráðstöfunum samþykkir — og væntanlega að okkar dómi vegna þess, að þeir hafa ekki neina trú á því, að hæstv. ríkisstj. taki þessi mál öðrum tökum. Við lítum hins vegar á þetta sem hreina bráðabirgðalausn, og þar sem þeir, sem þetta kemur mest við, eru því samþykkir, sjáum við ekki ástæðu til þess að beita okkur gegn málinu.

En hæstv. sjútvmrh. gaf mér í ræðu sinni tækifæri til þess að leiðrétta eina villu, sem ég gerði mig sekan um í fyrri ræðu minni. Það kom í ljós, að ég kunni slæm skil á jafnaðarstefnunni. Ég hafði kallað nýtízkulega jafnaðarstefnu hæstv. sjútvmrh. atriði, sem í frv. þessu eru fólgin og ég gagnrýndi. En hæstv. sjútvmrh. fullvissaði mig um það, að þau væru í fullu samræmi við jafnaðarstefnuna, eins og hún hefur alltaf verið. Þetta atriði, sem ég benti á og kallaði nýtízku jafnaðarstefnu, var það, að það er ekki verið að taka gróðann af þeim, sem bezt eru settir, heldur er verið að taka fé af síldarútgerðinni, sem hefur mjög misjafna afkomu, þ. á m. verið að taka fé af þeim, sem hafa ekki betri afkomu en það, að þeir sækja fé í atvinnutryggingasjóð og gera upp með kauptryggingu, og fá það öðrum atvinnugreinum, m.a. þeim, sem vitað er að hafa mjög góða afkomu. Ég skal ekki vefengja hæstv. sjútvmrh. um það, að þetta sé í samræmi við jafnaðarstefnuna, eins og hún hafi alltaf verið, ef hann vill heldur hafa það svo. Villa mín var fólgin í því, að ég hélt, að hún hefði áður verið skárri.