18.10.1965
Sameinað þing: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

1. mál, fjárlög 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Áður en ég geri grein fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1966, sem nú er til 1. umr., mun ég að venju í stórum dráttum skýra frá afkomu ríkissjóðs árið 1964 og jafnframt víkja nokkuð að horfum á yfirstandandi ári.

Á árinu 1964 varð mikil breyting til hins verra á afkomu ríkissjóðs. Um alllangt árabil hafði greiðslujöfnuður verið hagstæður, og var afkoma ríkissjóðs einkum mjög góð á árunum 1962 og 1963, en fyrra árið var 161.6 millj. kr. greiðsluafgangur og síðara árið 138.9 millj. kr. greiðsluafgangur. Gerði sú hagstæða afkoma ríkissjóði kleift í senn að leggja allverulegt fé fram til þess að grynna á ógreiddum ríkisframlögum, m. a. til hafnargerða og sjúkrahúsa, og jafnframt í fyrsta sinn að leggja fé í jöfnunarsjóð ríkisins til þess að mæta halla á erfiðleikaárum. Voru í því skyni lagðar til hliðar 100 millj. kr. Leiðir afkoma ríkissjóðs árið 1964 glöggt í ljós, hversu hyggileg sú ráðstöfun var. Hinn hagstæði ríkisbúskapur síðustu ára hefur verið einn jákvæðasti þáttur efnahagskerfisins, enda skiptir greiðsluhallalaus ríkisbúskapur mjög miklu máli í þeim efnum.

Fjárlög hafa af margvíslegum ástæðum hækkað mjög mikið ár frá ári, og hefur fjmrh. hvað eftir annað varað við óheillavænlegum afleiðingum óhóflegrar kröfugerðar á hendur ríkissjóði. Hins vegar er því ekki að leyna, að hinn hagstæði greiðslujöfnuður ríkissjóðs síðustu árin hefur gert fjmrh. erfiðara um vik að spyrna gegn ýmiss konar nýjum kröfum á hendur ríkissjóði, þar eð menn hafa talið, að hér væri um óþarfar úrtölur að ræða. Sú aðferð að miða tekjur ríkissjóðs alltaf við hið mesta góðæri og áætla ekkert fyrir vanhöldum hlaut að hefna sin, enda reyndist árið 1964 alvarleg og dýrkeypt áminning. Greiðsluhalli ríkissjóðs á árinu 1964 var samtals 220.7 millj. kr. Þar að auki varð á árinu lækkun á geymdu innheimtufé um rúmar 32 millj. kr., þannig að sé notuð aðferð Seðlabankans við ákvörðun greiðslujafnaðar, var greiðsluhalli á árinu samtals 253.2 millj. kr. Heildartekjur ríkissjóðs árið 1964 voru í fjárl. áætlaðar 2696 millj., en urðu 3009 millj. og fóru þannig 313 millj. kr. fram úr áætlun eða 16.1%. Árið 1963 fóru þær 17.3% fram úr áætlun. Munar þar mestu um 2½% viðbótarsöluskatt, sem á var lagður, eftir að fjárlög voru afgreidd, til þess að mæta sérstökum þörfum, sem síðar verður vikið að. Tekjur af rekstri ríkisstofnana urðu 47 millj. kr. undir áætlun, m. a. vegna þess, að nokkuð dró úr vindlingasölu áfengis- og tóbaksverzlunarinnar, og vegna hins, að tekjuáætlun fyrir stofnunina var óeðlilega há. Aðrar tekjur fóru yfirleitt fram úr áætlun, en þó ekki að sama skapi og undanfarin ár. Innflutningsverðmæti án skipa og flugvéla óx um 8.3% árið 1964, en um 19.1% árið áður. Hér gætir bæði áhrifa tollalækkunarinnar og mettunar markaðarins á sumum sviðum. Aðflutningsgjöld í heild fóru því aðeins 7% fram úr áætlun 1964 eða um 113 millj., en árið 1963 rúml. 200 millj. kr. Þar af fór gjald af innfluttum bifreiðum og bifhjólum 29½ millj. fram úr áætlun 1964, en 58½ millj. árið 1963. Stimpilgjöld fóru 15 millj. kr. fram úr áætlun, tekju- og eignarskattur rúml. 4 millj. og aukatekjur tæplega 4 millj. kr. fram úr áætlun. Af vegalögum leiddi, að tekjur til ríkissjóðs af bifreiðaskatti og innflutningsgjaldi af benzíni féllu niður, þó að þær væru ráðgerðar í fjárl., en gjöld til vega á 13. gr. A féllu einnig að miklu leyti niður.

Heildargjöld voru í fjárl. áætluð 2677 millj., en urðu 3268 millj. og fóru því 591 millj. kr. fram úr áætlun eða 22%. Árið 1963 fóru þau 12.2% fram úr áætlun. Munar þar einnig mestu um þau útgjöld, er lögð voru á ríkissjóð, eftir að fjárlög voru afgreidd, og hinn sérstaki söluskattur átti að mæta, svo sem nú skal nánar að vikið.

Með lögum nr. 1 frá 1964 var gert ráð fyrir veigamikilli nýrri aðstoð við sjávarútveginn. Samkv. þeim l. varð ríkissjóður fyrir nýjum útgjöldum á árinu 1964 sem hér segir: Greiddur var hagræðingarstyrkur til frystihúsa að upphæð 43 millj. kr. Veittir voru nýir styrkir til togaraflotans, sem námu 51 millj. Greiddar voru til fiskileitar 4 millj. og uppbætur á fiskverð 59.5 millj. og loks mótframlag gegn framlagi sjávarútvegsins til fiskveiðasjóðs rúmar 34 millj. Þá var með l. nr. 2 frá 1964 ákveðin hækkun á bótum almannatrygginga, sem kostaði ríkissjóð á árinu 26.8 millj. Samtals var hér um útgjaldaauka að ræða, sem nam 218.4 millj. kr. Til þess að mæta þessum nýju útgjöldum var söluskattur hækkaður um 2½%, og gaf sá tekjuauki ríkissjóði 248.8 millj. Þótt hér hafi verið umframtekjur 30.4 millj., bætti það ekki hag ríkissjóðs umfram áætlun fjárl., því að í ljós kom, að niðurgreiðslur höfðu verið vanáætlaðar um 55 millj. kr. Þeir útgjaldaliðir fjárl., sem langmest fóru fram úr áætlun á árinu, voru framlög til niðurgreiðslna á vöruverði og útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir. Urðu umframgreiðslur á þessum liðum samtals um 188 millj. Niðurgreiðslur á vöruverði voru auknar mjög verulega á árinu 1964 í því skyni að halda niðri verðlagi. Svo sem kunnugt er, var vísitölutrygging á laun aftur upp tekin með júnísamkomulaginu við verkalýðsfélögin. Námu viðbótarútgjöld ríkissjóðs vegna hækkaðra niðurgreiðslna síðari hluta árs 1964 um 68 millj. kr. Var gerð till. um að afla fjár til þess að standa straum af þessum mikla útgjaldaauka í sambandi við hækkun söluskatts á síðasta þingi, en þar sem verkalýðsfélögin töldu þá fjáröflun brjóta í bága við júnísamkomulagið, var fallið frá þeirri till. En afleiðingarnar birtast að sjálfsögðu í auknum greiðsluhalla, svo sem fjmrh. varaði við. Samtals kostuðu niðurgreiðslur á vöruverði ríkissjóð á árinu 1964 363.8 millj. kr. Voru rúmar 206 millj. af þeirri fjárhæð niðurgreiðsla á mjólkurafurðum. Útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir hækkuðu mjög á árinu og urðu 217.3 millj. Stafar hækkunin bæði af verðhækkun þessara vara á innanlandsmarkaði og auknum útflutningi, einkum mjólkurafurða, en söluverð þeirra á erlendum markaði er mjög óhagstætt. Útflutningsuppbætur og kjötafurðir urðu 77.3 millj. kr., en 139.9 millj. kr. á mjólkurafurðir.

Helztu umframgreiðslur á eignahreyfingum voru þessar: Til þess að gera ríkisábyrgðasjóði kleift að standa undir greiðslu vanskila á ábyrgðarlánum var sjóðnum veitt lán að upphæð 41.7 millj. kr. Nam þá framlag ríkissjóðs til ríkisábyrgðasjóðs á árinu alls 87.7 millj. Vegna sérstakra örðugleika og óhappa á atvinnusviðinu, sem ýmis byggðarlög urðu fyrir á árinu, veitti ríkissjóður atvinnubótasjóði 10.5 millj. kr. aukaframlag, og var heildarframlag ríkissjóðs til atvinnubótasjóðs á þessu ári þannig 20.5 millj. kr., sem er hæsta framlag til sjóðsins á einu ári. Til umbóta á húseigninni Borgartúni 7, þar sem margar ríkisstofnanir hafa nú aðsetur sitt, var varið 8.3 millj. kr., og auka varð rekstrarfé ríkisstofnana á árinu um 25.7 millj. Þá voru veitt lán um 12 millj. kr., aðallega rafmagnsveitum ríkisins.

Af greiðsluafgangi ársins 1963 var þriðjungi ráðstafað á árinu 1964 eða tæplega 45 millj., þar af 19.9 millj. til sjúkrahúsa, 20 millj. kr. til hafnargerða og 4.9 millj. kr. til atvinnubótasjóðs. Greiðsluhalli ríkissjóðs árið 1964 og ráðstöfun hluta af greiðsluhagnaði ársins 1963 olli því, að aðalviðskiptareikningur ríkissjóðs í Seðlabankanum var yfirdreginn um 221 millj. um síðustu áramót, en 64 millj. kr. innstæða var á honum í ársbyrjun.

Hér skal í stuttu máli gerð grein fyrir öðrum umframgreiðslum á árinu og orsökum þeirra. Alþingiskostnaður fór 8.2 millj. kr. fram úr áætlun. Er meginástæðan sú, að eftir að fjárlagaáætlun var samin, voru sett ný lög um þingfararkaup alþm. Var jafnframt ákveðið, að þau lög skyldu gilda varðandi síðari helming ársins 1963, og færðust þau útgjöld á árið 1964. Reyndist Þingfararkaup því vanáætlað um 4 millj. kr. Laun annarra starfsmanna voru einnig of lágt áætluð og enn fremur útgáfukostnaður Alþingistíðinda og viðhaldskostnaður og eftirlaunagreiðslur.

Útgjöld vegna stjórnarráðsins urðu 9.4 millj. umfram áætlun. Stafa 2.5 millj. kr. af þessari fjárhæð af launahækkunum, 1.3 millj. vegna kostnaðar við kjarasamninga, 1 millj. vegna kostnaðar við ráðherrabústað á Þingvöllum og 3.5 millj. kr. vegna vanáætlunar. Er reyndin sú, að um margra ára skeið hefur kostnaður við stjórnarráðið ætíð verið áætlaður of lágt og því árlega farið verulega fram úr áætlun fjári. Eru þau vinnubrögð að sjálfsögðu á engan hátt til góðs, því að afleiðingarnar hljóta að koma óheillavænlega í ljós eftir á með umframgreiðslum, sem gefa almenningi ástæðu til að draga þær ályktanir, að minna hóf sé á útgjöldum til stjórnarráðsins en til annarra ríkisþarfa, en því fer fjarri.

Utanríkismál fóru 1.8 millj. kr. fram úr áætlun vegna ýmissa útgjaldahækkana, sem urðu eftir samþykkt fjárl.

Umframgreiðslur á 11. gr. A til dómsmála urðu 10.8 millj. Stafar svo að segja öll þessi upphæð af auknum tilkostnaði við landhelgisgæzluna, eða um 9.6 millj. kr. Hagnaður bifreiðaeftirlitsins var 2 millj. umfram áætlun, en rekstrarkostnaður sýslumannaembætta 2 millj. umfram áætlun.

Kostnaður við innheimtu tolla og skatta reyndist 10.4 millj. kr. umfram áætlun. Kostnaður við tollgæzlu var 2 millj. umfram áætlun, en aðalumframgreiðslan, 7.7 millj. kr., var vegna vanáætlunar á kostnaði við skattstofur. Það er ótvírætt, að sú skipulagsbreyting að leggja niður allar skattanefndir, en setja í þess stað stór skattumdæmi með sérstökum skattstofum, hefur verið til mikilla bóta varðandi alla starfshætti í sambandi við skattálagningu og skatteftirlit. Það hefur hins vegar komið í ljós, að upphaflegar áætlanir um mjög verulegan, beinan útgjaldasparnað af þessum sökum hafa ekki verið raunhæfar. Eru reyndar sífellt að falla til ný verkefni, sem lögð eru á skattstofurnar. Skattstofurnar verða að hafa þeim mannafla á að skipa, að þær geti með eðlilegum hraða unnið úr skattframtölum, m. a. til þess að útsvarsálagning þurfi ekki að tefjast, og enn fremur þurfa þær að geta unnið að viðhlítandi eftirliti með framtölum og rannsókn skattamála. Það hlaut að taka nokkurn tíma að fastmóta þetta nýja skipulag, enda er það naumast enn farið að verka eins og til er ætlazt. Mun ég síðar víkja að skattamálunum í einstökum atriðum og skatteftirlitinu, en það þýðir ekki að blekkja sig með óraunhæfum tölum í því sambandi.

Útgjöld vegna heilbrigðismála stóðust áætlun. Vegna skipulagsbreytinga á vegamálaframlögum verður samanburður á þeirri grein óraunhæfur. Þar er ekki um umframgreiðslur að ræða, og verður nánar gerð grein fyrir þeim samanburðartölum við meðferð ríkisreiknings.

Samgöngur á sjó hafa farið óhugnanlega fram úr áætlun, eða 20.6 millj. kr. Er þar um að ræða rekstrarhalla á Skipaútgerð ríkisins. Er skipan þeirra mála algerlega óviðunandi, og mun ég síðar víkja nánar að framtíðarhorfum í því efni.

Vita- og hafnarmál stóðust áætlun, en útgjöld til flugmála sýna 8.1 millj. kr. umframgreiðslu. Raunveruleg umframútgjöld eru þó ekki nema 3 millj. kr., því að um 5 millj. kr. eru fyrningar, sem ekki koma til útgjalda og eru aðeins bókhaldsatriði. Hafa verið bókfærðar fyrningar þessar hjá flugmálastjórninni um allmargra ára skeið, sem gefur villandi mynd, þar sem ekki er um neinar fyrningargreiðslur að ræða. Mun þessu verða breytt, því að ekki er um hliðstæðar bókhaldsfyrningar að ræða hjá öðrum framkvæmdastofnunum ríkisins. Veðurþjónustan fór lítið eitt fram úr áætlun og enn fremur Skipaskoðun ríkisins, sem fyrst og fremst stafar af því, að skipaskoðunargjöld urðu 900 þús. kr. lægri en áætlað var í fjárl.

Útgjöld til kennslumála urðu 5.5 millj. kr. undir áætlun, en útgjöld á 14. gr. B, til safna og listastarfsemi, urðu 1.8 millj. kr. umfram áætlun, sem fyrst og fremst stafar af auknum kostnaði á ýmsum rekstrarliðum.

Útgjöld til kirkjumála reyndust 1.1 millj. kr. undir áætlun.

Útgjöld vegna landbúnaðarmála urðu 9.4 millj. kr. umfram áætlun. Er meginorsökin sú, að jarðræktarframlög fóru 6.3 millj. kr. fram úr áætlun vegna meiri jarðræktarframkvæmda en gert hafði verið ráð fyrir. Enn fremur varð að greiða styrki til framræslu, 1.9 millj. kr. umfram áætlun. Kostnaður við sauðfjárveikivarnir varð 500 þús. kr. umfram áætlun og ýmsir aðrir útgjaldaliðir á 16. gr. A 700 þús. kr. umfram áætlun.

Framlög til sjávarútvegsmála á 16. gr. B urðu 14 millj. kr. umfram áætlun. Kostnaður við fiskileit var 6.6 millj. kr. hærri en gert hafði verið ráð fyrir, og framlög til aflatryggingasjóðs voru vanáætluð um 6.4 millj. kr. Enn fremur fór kostnaður við fisk- og síldarmat 1 millj. kr. fram úr áætlun.

Framlög til iðnaðarmála urðu 400 þús. kr. undir áætlun.

Framlög til raforkumála stóðust áætlun og framlög til rannsókna í þágu atvinnuveganna urðu 1.5 millj. kr. undir áætlun.

Þá skal ég í stuttu máli víkja að horfunum um afkomu ríkissjóðs á árinu 1965. Er útlitið því miður engan veginn gott og allar líkur til, að mjög verulegur greiðsluhalli verði einnig hjá ríkissjóði á þessu ári. Undanfarin ár hafa tekjur ríkissjóðs yfirleitt farið mjög verulega fram úr áætlun fjárl., og reyndist einnig svo á árinu 1964, enda þótt engu að síður hafi verið þá sá mikli greiðsluhalli, sem ég hef nú gert grein fyrir. Horfurnar um tekjuöflun ríkissjóðs á yfirstandandi ári eru hins vegar þær, að tekjur ríkissjóðs á árinu munu ekki einu sinni ná áætlun fjárl. Tekjur á rekstraryfirliti fjárl. í ár eru áætlaðar 3523 millj. kr. Samkv. endurskoðaðri áætlun Efnahagsstofnunarinnar, sem gerð var nú í lok ágústmánaðar, er ekki gert ráð fyrir, að tekjurnar muni verða nema 3444 millj., eða um 79 millj. kr. undir áætlun fjárl.

Tekju- og eignarskattur er í fjárl. áætlaður 375 millj. kr., en þar að auki var í l. frá síðasta Alþ. um fjáröflun til íbúðabygginga gert ráð fyrir því, að þreföldun á fasteignamati til eignarskatts nægði til þess að standa undir 40 millj. kr. í framlagi ríkissjóðs til húsnæðismála. Voru því áætlaðar tekjur á þessum lið raunverulega 415 millj. kr. Það kemur hins vegar í ljós, að því fer víðs fjarri, að þessi áætlun standist. Bæði er það, að þessi margföldun fasteignamats gefur ekki nema helming þess, sem áætlað var, og enn fremur hitt, að lög um tekju- og eignarskatt frá síðasta þingi rýra þann tekjustofn ríkissjóðs mun meira en gert hafði verið ráð fyrir við undirbúning fjárl., enda þótt meðalhækkun álagningar muni vera um 33%. Er áætlað, að heildartekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarskatti á þessu ári verði aðeins um 335 millj. kr. eða um 80 millj. kr. undir áætlun.

Þá er í endurskoðaðri innflutningsáætlun Seðlabankans gert ráð fyrir því, að innflutningur á yfirstandandi ári verði nokkru minni en fjárlagaáætlunin var miðuð við. Standi sú áætlun Seðlabankans, rýrna tekjur ríkissjóðs af þessum sökum um 20 millj. kr. Þá eru allar horfur á, að bifreiðainnflutningur á þessu ári verði það minni en á s.l. ári, að tekjur ríkissjóðs af leyfisgjöldum verði um 25 millj. kr. undir áætlun. Loks hafa tekjur af ríkisstofnunum verið í fjárl. áætlaðar svo hátt, að horfur eru á, að þar hallist um a. m. k. 25 millj. kr.

Eini tekjuliðurinn, sem talið er að geti orkað til nokkurs mótvægis við þennan mikla tekjumissi, er söluskatturinn, sem gert er ráð fyrir að geti farið um 30 millj. kr. fram úr áætlun.

Jafnhliða þessum slæmu horfum um tekjuöflun er þegar vitað, að margir útgjaldaliðir ríkissjóðs muni fara mjög verulega fram úr áætlun. Má í því sambandi nefna 4% launahækkun ríkisstarfsmanna frá 15. júlí að telja, sem hvergi er gert ráð fyrir í fjárl., en verður að sjálfsögðu að inna af hendi. Jafnframt verður hliðstæð hækkun á tryggingabótum. Og loks er þegar komin fram 1% hækkun á verðlagsuppbótum. Til þess að gera sér nokkra grein fyrir því, hverju slíkar upphæðir geti numið, skal þess getið, að gera má ráð fyrir, að launagreiðslur ríkisins nemi nú um 900 millj. kr. og launahækkanir hafi bein áhrif á útgjaldaliði ríkisins, er nemi samtals um 1500 millj. kr. Veldur þannig 1% launahækkun ríkissjóði 15 millj. kr. aukaútgjöldum á ári.

Eftir að fjárlög þessa árs voru afgreidd, samþykkti Alþ. með sérstökum lögum að veita útgerðinni ýmiss konar aðstoð á þessu ári, sem áætlað er að valdi ríkissjóði 55 millj. kr. nýjum útgjöldum. Þá voru einnig eftir afgreiðslu fjárl. ákveðnar launabætur til opinberra starfsmanna, sem taldar voru óumflýjanlegar vegna launahækkana annarra stétta. Var áætlað, að þær launabætur mundu kosta ríkissjóð á þessu ári 65 millj. kr. Samtals var því hér um að ræða ný ríkisútgjöld umfram fjárlagaáætlun að upphæð 120 millj. kr.

Þar sem ekki var talið fært að leggja á nýja skatta til þess að mæta þessum auknu útgjöldum, taldi ríkisstj. óumflýjanlegt að gripa til þeirrar fjárlagaheimildar að lækka framlög til opinberra framkvæmda á yfirstandandi ári. Var ákveðið að lækka þessi framlög um 20% og var talið eftir lauslegri athugun, að sú lækkun mundi spara ríkissjóði um 120 millj. kr. Þegar til framkvæmda kom reyndist þetta mjög á annan veg, því að inn í niðurskurðaráætlunina höfðu verði teknir margir útgjaldaliðir fjárl., sem eru beinlínis lögbundnir eða hreinir áætlunarliðir, svo sem jarðræktarframlög. Var reyndin sú, að ríkissjóði spöruðust við þennan niðurskurð aðeins um 85 millj. kr. Afleiðingin verður því beinn útgjaldaauki ríkissjóðs um 35 millj. af þessum sökum. Þá má geta þess, að jarðræktarframkvæmdir hafa orðið svo geysimiklar á s.l. ári, að umframútgjöld ríkissjóðs á þessu ári vegna jarðræktarframlaga munu nema um 20 millj. kr. Þá eru horfur á áframhaldandi geigvænlegum hallarekstri Skipaútgerðar ríkisins einnig á þessu ári, þannig að aukaútgjöld til Skipaútgerðarinnar munu verða a. m. k. 15 millj. kr. Þótt reynt verði með öllu móti að spyrna gegn öllum umframgreiðslum, sýna þessi dæmi og ýmis önnur hliðstæð, að við sum aukaútgjöld verður ekki ráðið.

Þetta var sú mynd, sem við blasti, er við settumst við að reyna að koma saman fjárlfrv. fyrir árið 1966. Sú draumsýn, sem því miður hefur oft undanfarin ár markað afstöðu manna hér á hinu háa Alþ., að allan vanda mætti leysa með nýjum og nýjum framlögum ótæmandi ríkissjóðs, er óvefengjanlega að engu orðin. Við stöndum nú öll andspænis þeirri nöpru staðreynd að verða að endurskoða afstöðuna til ríkisútgjalda. Við þessar aðstæður geri ég ráð fyrir, að allir hv. þm. geti verið mér sammála um það, að engra góðra kosta hafi verið völ, enda þótt menn vafalaust muni svo greina á um þær leiðir, sem valdar hafa verið. E. t. v. munu einhverjir segja: Vandinn er ekki annar en sá að draga úr ónauðsynlegum útgjöldum ríkissjóðs. Þetta hljómar fallega, og ég er fullkomlega þeirrar skoðunar, að einbeita beri kröftum sínum að því að draga úr öllum ónauðsynlegum útgjöldum. En því miður hrökkva þeir möguleikar skammt til að mæta þeim vanda, sem við er að fást. Æskilegast væri auðvitað fyrir fjmrh. að geta sagt: Nú er mælirinn fullur, og nú fellst ég ekki á neinar útgjaldahækkanir. — En því miður er málið ekki svona einfalt. Meginhlutinn af öllum útgjöldum ríkisins eru annaðhvort lögbundnar greiðslur eða óumflýjanleg framlög til þess að stöðva ekki þá þjónustustarfsemi við borgarana, sem löggjöfin gerir ráð fyrir. Laun ríkisstarfsmanna hljóta að hækka til samræmis við laun annarra stétta í landinu, enda beinlínis lögboðið, og aðrir þeir liðir, sem langmestum hækkunum valda árlega, félagsmál og menntamál, eru jafnframt lögbundnir. Sama er um útflutningsuppbætur á landbúnaðarvöru. Hin geysiháu framlög ríkisins til niðurgreiðslna á vöruverði eru að vísu ólögbundin, en mjög mikil lækkun þeirra mundi valda verulegri hækkun ýmissa nauðsynjavara og með núverandi skipan mála valda hækkun kaupgreiðsluvísitölu, er í senn yki útgjöld ríkissjóðs og orsakaði aukin vandræði framleiðsluatvinnuveganna, sem þegar eru ærin. Jafnhliða þessum miklu erfiðleikum við að skera í stórum stíl niður útgjaldaliði fjárl. var svo hin brýna nauðsyn þess að gripa ekki til nýrrar tekjuöflunar, er óhjákvæmilega hlyti að leiða til allsherjarhækkunar vöruverðs í landinu eða taka samstundis aftur af borgurunum þau mikilvægu skatthlunnindi, er veitt voru með skattal. þeim, sem samþ. voru á síðasta þingi. Tel ég höfuðnauðsyn að haga nú afgreiðslu fjárl. á þann veg, að hvorki þurfi að skerða þessi hlunnindi né heldur valda allsherjarverðhækkun í landinu með almennri hækkun innflutningsgjalda eða hækkun söluskatts. En til þess að svo megi verða, þarf að koma til raunsær skilningur hv. þm. á allri fjárhagsaðstöðu ríkissjóðs og mikil hófsemi um alla kröfugerð. Greiðsluhallalaus fjárlög verður að afgreiða, og treysti ég á góða samvinnu við hv. fjvn. og hv. þm. yfirleitt, svo að því takmarki verði náð á þeim grundvelli, sem lagður er með fjárlagafrv. eða öðrum raunhæfum úrræðum, sem ég er að sjálfsögðu til viðtals um.

Ég mun þá í meginatriðum gera grein fyrir fjárlagafrv., breytingum frá fjárl. yfirstandandi árs og loks þeim úrræðum, sem till. eru gerðar um í því skyni að geta afgreitt greiðsluhallalaus fjárlög.

Í inngangi aths. með fjárlagafrv. er gerð grein fyrir þeim reglum, sem fylgt var við ákvörðun einstakra útgjaldaliða frv. Meginorsök útgjaldaaukningar ríkissjóðs eru launahækkanirnar. Samanburður á einstökum fjárlagagr. við fjárlög þessa árs verður torveldur, vegna þess að þær 43 millj. kr. til launauppbóta, sem veittar voru í einu lagi á 19. gr. fjárl. ársins 1965, dreifast nú á hina einstöku fjárlagaliði. Við bætist svo sú 6.6% hækkun, sem mæta átti með niðurskurði fjárfestingarliða á yfirstandandi ári, en að öðru leyti eru launaáætlanir miðaðar við 3.66% vísitöluhækkun, sem í gildi var í sumar, þegar frá fjárlagaáætlun stofnananna var gengið. Það er því ljóst, að við hina einstöku rekstrarútgjaldaliði fjárlagafrv. munu enn bætast hækkanir vegna nýrra launauppbóta, sem síðan hafa komið til. Er þegar vitað um 4% almenna launauppbót ríkisstarfsmanna í samræmi við kjarasamning á sl. sumri, sem fellur á ríkissjóð frá 15. júlí s.l. að telja og engin fjárveiting er fyrir í þessa árs fjárl. Að auki er til komin 1% hækkun á verðlagsuppbótum. Og loks hefur enn ekki verið endanlega gengið frá kjaramálum ríkisstarfsmanna. Gerðu ríkisstarfsmenn kröfur um svo stórfelldar launahækkanir umfram þau 4%,. sem ríkisstj. samþykkti, að útilokað er með öllu að fallast á slíkar kröfur án beins úrskurðar kjaradóms. Teygði ríkisstj. sig þó eins langt til samkomulags og frekast var auðið, en umboðsmenn ríkisstarfsmanna töldu sig verða að krefjast enn meiri hækkana. Vildu báðir aðilar reyna að leysa málið með frjálsum samningum. En því miður reyndist það ekki auðið, og varð því að velja dómsúrskurðarleiðina. Engu verður um það spáð nú, hver verður úrskurður kjaradóms, en óvarlegt er að gera ekki ráð fyrir einhverjum hækkunum og með hliðsjón af þeim 5%, sem þegar eru áfallin, hugsanlegum hækkunum á úrskurði kjaradóms og jafnframt til að mæta að einhverju leyti hækkunum, sem svo að segja öruggt má telja að verði á næsta ári, eru í 19. gr. áætlaðar 100 millj. kr. til þess að mæta þessum væntanlegu og þegar vituðu útgjöldum. Má telja öruggt, að sú áætlun sé ekki of há.

Samkv. fjárlagafrv. ársins 1966 er rekstrarafgangur á rekstraryfirliti 208.8 millj. kr., en á sjóðsyfirliti eru tekjur samtals 3790 millj. og gjöld samtals 3765 millj. Verður þá hagstæður greiðslujöfnuður 25.4 millj. kr. Efnahagsstofnunin hefur áætlað tekjur ríkissjóðs á næsta ári af núgildandi tekjustofnum. Er í þeirri áætlun reiknað að fullu með aukningu innflutnings og launatekna, miðað við reynslu síðustu ára, og er ekki nema að litlu leyti tekin til greina lækkun tekjuskatts, sem umreikningur samkv. skattvísitölu hlýtur að valda. Þar sem enn er ekki hægt að ákvarða þá vísitölu, verður ekki nákvæmlega sagt um áhrif hennar. Þessi tekjuáætlun hefur verið tekin affallalaus í frv. og því ekki gert ráð fyrir neinum varasjóði til að mæta áföllum. Þar sem tekjuáætlun er þannig í toppi og miðuð við góðærisástand og gera má að sjálfsögðu ráð fyrir að auki, að einhverjar hækkanir verði á frv. í meðförum Alþingis, er vægast sagt teflt á tæpasta vað með ekki meiri greiðsluafgangi í frv. Jafnframt er svo þess að gæta, að samningar hafa ekki verið gerðir við Seðlabankann um úrræði til að jafna þá miklu skuld, sem myndazt hefur vegna greiðsluhalla 1964 og fyrirsjáanlegs greiðsluhalla á yfirstandandi ári. Samanburður við fjárl. yfirstandandi árs er erfiður að því leyti, að hluti ríkisútgjaldanna er ekki í fjárl. ársins 1965, heldur mætt eftir á með niðurskurði framkvæmda. Segja má þó, að raunhæfur samanburður fáist með því að bæta við útgjaldahlið fjárl. yfirstandandi árs um 35 millj. kr., sem útgjöldin uxu umfram tekjuauka vegna niðurskurðar verklegra framkvæmda. Verða útgjöld fjárl. 1965 þannig 3547 millj., en útgjöld samkv. fjárlagafrv. 1966 samtals 3765 millj. Er þannig hækkunin frá fjárl. þessa árs samtals um 218 millj. kr., og þó raunar tæpar 200 millj., en framlag ríkissjóðs til húsnæðismála umfram eignarskattsauka í ár er talið með í útgjaldahlið ríkissjóðs. Má segja, að öll þessi hækkun stafi af þegar áföllnum eða fyrirsjáanlegum launahækkunum.

Í aths. með einstökum gr. frv. er að finna nákvæmar skýringar á breytingum einstakra liða frá fjárl. ársins 1965. Mun ég ekki rekja þær breytingar, en mun aðeins drepa á þá líði, sem ég tel að þarfnist frekari skýringar.

Auk óumflýjanlegs aukakostnaðar vegna launahækkana, sem áður er að vikið, er aðalútgjaldaauki stjórnarráðsins 2 millj. kr. hækkun á öðrum kostnaði. Er hér ekki um neina nýja útgjaldaliði að ræða, heldur hefur þessi kostnaður árum saman verið allt of lágt áætlaður í fjárl. Er engin skynsamleg ástæða til að stefna Þannig að fyrirsjáanlegum umframgreiðslum.

Lagt er til að veita sérstaka fjárhæð, 1.1 millj. kr., til hagstofunnar vegna tímabundinna verkefna, sem stofnunin vinnur að. Er þar um að ræða endurskoðun á grundvelli framfærsluvísitölunnar, kostnað við útgáfu nafnskírteina og kostnað við vélaúrvinnslu manntalsins 1960. Eru þessi útgjöld öll óumflýjanleg.

Aðalhækkunin á útgjöldum vegna utanríkisþjónustu er á tveimur liðum: Annars vegar vegna stofnunar sérstaks fastafulltrúaembættis Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sem ríkisstj. ákvað snemma á þessu ári jafnframt því, að niður var lögð sérstök aðalræðismannsskrifstofa í New York. Er áætlað, að nettó-útgjaldaauki vegna þessarar skipulagsbreytingar nemi 2.5 millj. kr. Hins vegar vegna sérstaks aukaframlags til Sameinuðu þjóðanna til þess að bæta úr fjárhagsörðugleikum þeirra. Nemur þetta viðbótarframlag tvöföldu fastaframlagi eða rúmum 3.4 millj. kr. Taldi ríkisstj. ógerlegt fyrir Ísland að skerast úr leik, þegar öll hin Norðurlöndin samþykktu slíkt aukaframlag, enda ekki sízt mikilvægt fyrir smáþjóðirnar, að friðargæzlustarf Sameinuðu þjóðanna sé ekki brotið niður.

Áætlað er, að kostnaðurinn við Alþ. hækki um rúmar 82 millj. Er það bæði vegna sýnilegrar vanáætlunar á yfirstandandi ári, launahækkana. og tilkomu nýs húsnæðis, sem Alþingi hefur leigt fyrir starfsemi sína.

Fjárveitingar vegna innheimtu tolla og skatta hækka um rúmar 15 millj. kr. auk eðlilegrar hækkunar vegna launabreytinga. Er orsök hækkunarinnar óhjákvæmileg aukning tollgæzlunnar, fyrst og fremst í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Aðeins vegna flutnings á afgreiðslu Loftleiða til Keflavíkurflugvallar verða þar ný útgjöld 1.3 millj. kr. vegna tollgæzlu. Kostnaður við ríkisskattanefnd og skattstofur reynist enn of lágt áætlaður í núgildandi fjárl. Hefur starfsmannakerfi skattstofanna verið tekið til rækilegrar endurskoðunar nú í sumar, og hefur reynzt óumflýjanlegt að heimila allmikla fjölgun starfsmanna til þess að tryggja nægilega aðstöðu til eftirlits með skattaframtölum og viðhlítandi hraða við álagningu skatta, en seinagangur í því efni veldur sveitarfélögunum miklum erfiðleikum í sambandi við álagningu útsvara. Undirbúningur hins nýja fasteignamats hefur gengið allt of hægt. Hefur verið lögð sérstök áherzla á að hraða þeim undirbúningi, þannig að matinu gæti orðið lokið á árinu 1967. Er hér um geysiumfangsmikið starf að ræða, og til þess að auðið sé að vinna að framkvæmdum með viðunandi hraða, er talið óumflýjanlegt að verja til þess 10 millj. kr. á næsta ári.

Útgjöld vegna dómgæzlu og lögreglustjórnar hækka verulega. Er þar þó ekki um nýja kostnaðarliði að ræða, heldur óhjákvæmilegan kostnaðarauka vegna launahækkana og hækkunar annars kostnaðar. Oft hefur verið kvartað um óviðunandi seinagang á afgreiðslu mála hjá ýmsum hinum stærri embættum, og hefur því þótt óumflýjanlegt að heimila smávægilega aukningu starfskrafta við nokkur þessara embætta. Vegna vanáætlunar á útgjöldum til embætta sýslumanna, bæjarfógeta og lögreglustjóra síðustu árin reynist óumflýjanlegt að hækka þann lið sérstaklega til að vinna upp þann mismun. Vegna laga frá síðasta þingi um laun hreppstjóra hækkar sá útgjaldaliður allverulega. Þá hækkar annar löggæzlukostnaður um 4.3 millj., sem stafar einnig að töluverðu leyti af of lágri áætlun í fjárl. að undanförnu. Kostnaður við landhelgisgæzlu hækkar um 3 millj., og er þó gert ráð fyrir, að landhelgisgæzlan hætti rekstri varðskipsins Sæbjargar. Að því skipi hafa verið mjög lítil not fyrir landhelgisgæzluna, en verulegur kostnaður við útgerð þess.

Hin nýju læknaskipunarlög, sem samþ. voru á síðasta Alþ., leiða af sér verulega hækkun, fyrst og fremst vegna þeirrar sérstöku staðaruppbótar til 20 héraðslækna, sem ákveðin er í lögum til þess að reyna að bæta úr hinum miklu erfiðleikum við að fá viðunandi læknaþjónustu í strjálbýlinu. Vegna hækkunar daggjalda á sjúkrahúsum vex rekstrarhalli ríkisspítalanna aðeins um 3.1 millj. kr. þrátt fyrir miklar launahækkanir. En þar eru þó ekki öll kurl til grafar komin, því að hækkun daggjaldanna leiðir beinlínis af sér mikinn útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Er orsökin sú, að skylduframlag ríkissjóðs til Tryggingastofnunar ríkisins hækkar um nær 8 millj. kr. umfram tekjuauka með hækkun daggjaldanna. Í fljótu bragði virðast því næsta fráleitir búskaparhættir að hækka daggjöld á ríkisspítölum. En hér koma til greina hagsmunir annarra sjúkrahúsa, sem óumflýjanlegt var að sinna. Framlag til byggingar héraðssjúkrahúsa og ríkisspítala er hækkað um samtals 3.2 millj. miðað við raunverulega fjárveitingu á yfirstandandi ári. Mun að auki verða að gera sérstakar ráðstafanir til að afla fjár vegna byggingar landsspítalans, og fyrirsjáanlegt er, að vangoldin framlög ríkissjóðs til sjúkrahúsa muni aukast mjög á næsta ári, einkum vegna borgarsjúkrahússins í Reykjavík, en borgaryfirvöldin gera ráð fyrir að verja til byggingar þess um 100 millj. kr. á yfirstandandi og næsta ári. Þá er og fyrirsjáanlegt á næstunni stórátak vegna byggingar Kleppsspítalans, en vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs nú verða ekki í fjárl. næsta árs gerð nein ný átök til að leysa þann vanda, en lengi verður því ekki frestað.

Rekstrarhalli Skipaútgerðar ríkisins hefur vaxið svo geigvænlega síðustu árin, að við það verður með engu móti unað lengur. Fjárveiting til að greiða rekstrarhalla Skipaútgerðarinnar var hækkuð um 6 millj. kr. í fjárl. yfirstandandi árs, en því fer víðs fjarri, að sú 24 millj. kr. fjárveiting nægi til greiðslu rekstrarhallans. Var hallinn 1964 tæpar 38 millj., horfur á, að hann verði svipaður í ár, og í fjárhagsáætlun Skipaútgerðarinnar var hallinn á næsta ári áætlaður 35.6 millj. Skipulagsbreytingum á rekstri þessa fyrirtækis verður ekki lengur skotið á frest. Víðtækar athuganir hafa farið fram á rekstri Skipaútgerðarinnar síðustu árin, og hafa hagsýslusérfræðingar talið auðið að draga mjög verulega úr rekstrarhallanum. Forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur verið á annarri skoðun í sambandi við þær tillögur, og ekki hefur tekizt að fá fram neinar skipulagsbreytingar. Nú enn einu sinni er sérstök nefnd að athuga úrræði til lausnar þessu mikla vandamáli. Er tillagna þessarar n. að vænta, áður en fjárl. verða endanlega afgreidd, en það er ákveðið mín skoðun, að óviðunandi sé að eyða fjármunum ríkisins á þennan hátt og verði að finna úrræði til þess að gegna hlutverki Skipaútgerðarinnar með miklu minni tilkostnaði. Fjárveiting til Skipaútgerðarinnar er í frv. áætluð hin sama og í fjárl. þessa árs.

Greiðslur á hafnarlánum hækka um tæpar 5 millj. kr., og eru þá útgjöld á þessum lið orðin 16.8 millj. kr. Er hér um að ræða árgjöld af lánum vegna landshafna og Þorlákshafnar, en í Þorlákshöfn hefur verið ráðizt í mjög kostnaðarsama hafnargerð, sem út af fyrir sig er nauðsynleg sem eina viðhlítandi höfnin á Suðurlandsundirlendinu, en því miður hefur verið hafizt handa um að gera, án þess að nokkur fjárhagsgrundvöllur væri til staðar. Hafa því árgjöld af lánum hafnargerðarinnar fallið á ríkissjóð. Er óumflýjanlegt að koma viðhlítandi skipulagi á fjárhagsmálefni þessarar hafnargerðar sem allra fyrst. Þar eð fjáröflun til hafnargerðar hefur verið tekin upp í framkvæmdaáætlun ríkisins nú síðustu árin, hefur að þeim málum verið unnið á miklu auðveldari hátt fjárhagslega fyrir sveitarfélögin en áður, en engu að síður eru þó fjárhagsmálefni margra hafnargerða í landinu stórt og sívaxandi vandamál, sem verður ekki lengur skotið á frest að gera sér grein fyrir. Virðast vaxandi erfiðleikar á því, að sveitarfélög á ýmsum stöðum á landinu getið risið undir hluta sínum af stofnkostnaði við hafnargerðirnar. Leiðir það til vaxandi vanskila á hafnarlánum, sem falla þá á ríkissjóð vegna ríkisábyrgðanna. Hefur ráðh. hafnarmála að tilmælum mínum ákveðið að láta í vetur framkvæma heildarathugun á þessu vandamáli, því að ekki tjóar að halda áfram á þessari braut, heldur verður að gera sér grein fyrir því, hvort óumflýjanlegt sé að auka aðstoð ríkisins við hafnargerðir á vissum stöðum, þar sem óhjákvæmilegt er talið að byggja höfn, en tekjumöguleikar hafnarinnar litlir á næstu árum og geta sveitarfélaganna ekki nægileg.

Talið er auðið að lækka allverulega fjárveitingu til greiðslu viðhaldskostnaðar við Reykjavíkurflugvöll. En ekki þótti sanngjarnt að lækka sem þessu nam fjárveitingu til flugmála, þar eð fjárveiting til flugvallagerðar er mjög óveruleg miðað við þau miklu viðfangsefni, sem þar eru fram undan. Er fjárveiting til flugvallagerðar hækkuð um 2.4 millj. kr., miðað við raunverulega fjárveitingu á þessu ári. Vegna Vestfjarðaáætlunar hefur verulegt nýtt fé komið til flugvallagerðar í þeim landshluta á þessu ári.

Engin úrræði eru lengur til þess að skjóta sér undan að auka mjög verulega kostnaðarhlutdeild Íslands í greiðslu við rekstur veðurathugunarskipa á Norður-Atlantshafi. Hefur Ísland undnafarinn ár ekki greitt nema lítinn hluta af eðlilegri kostnaðarhlutdeild í þessari þjónustu, sem er fáum þjóðum nauðsynlegri en Íslandi. Þrátt fyrir hækkunina vantar þó enn verulega á, að eðlileg hlutdeild Íslands sé greidd, en ekki er þó talið fært að ganga lengra að sinni.

Gert er ráð fyrir, að óumflýjanlegt reynist að hækka fjárveitingu til landbúnaðarmála um rúmar 18,3 millj. kr. Áætlað er, að kostnað vegna sauðfjárveikivarna megi lækka um rúmar 9 milljónir, í von um, að engin ný óhöpp verði á því sviði á næsta ári. En því miður fer því fjarri, að þessi sparnaður nægi til þess að mæta öðrum óhjákvæmilegum útgjaldaauka á þessari grein. Áður hef ég drepið á hina stórkostlegu aukningu jarðræktarframkvæmda á s.l. ári, sem mun leiða til nærri 20 millj. kr. umframgreiðslu á yfirstandandi ári. Telur Búnaðarfélagið óráðlegt annað en gera ráð fyrir, að þessi þróun haldi áfram í ár, og með hliðsjón af því eru fjárveitingar til jarðræktar og framræslu hækkaðar um nær 20 millj. kr. Þá hefur komið í ljós, að framlag ríkissjóðs til stofnlánadeildar landbúnaðarins sé mjög vanáætlað í fjárlögum þessa árs, og er fjárveiting á þeim lið hækkuð um 6.5 millj. kr., sem þó er vafasamt að nægi. Á síðasta Alþingi voru sett ný lög um gróðurvernd. Er þar gert ráð fyrir nýjum átökum á sviði sandgræðslu, sem tvímælalaust er hið mesta nauðsynjamál. Er því lagt til að hækka fjárveitingu til sandgræðslustöðva og gróðurverndar um 1 millj. kr. Þá hefur því miður reyndin orðið sú, að stofnkostnaður við matsölu þá í London, sem ákveðið hefur verið að setja upp til kynningar á íslenzkum matvælum, fyrst og fremst landbúnaðarafurðum, og ríkisstj. var heimilað að gerast helmingsaðili að með heimild í 22. gr. fjárl. yfirstandandi árs, verður sýnilega mun meiri en áætlað var í upphafi. Aðrir hluthafar í fyrirtæki þessu, sem eru Samband íslenzkra samvinnufélaga, framleiðsluráð landbúnaðarins og Loftleiðir, hafa samþykkt að auka að sínu leyti hlutafé til þess að mæta þessum viðbótarkostnaði, og er þá talið óumflýjanlegt, að ríkið geri það einnig að sínum hluta og hækki hlutafjárframlag sitt í 4 millj. kr.

Framlög til sjávarútvegsmála hækka lítið og gefa ekki tilefni til sérstakra skýringa. Menn munu vafalaust veita því athygli, að ekki er í fjárlfrv. gert ráð fyrir neinni sérstakri aðstoð við sjávarútveginn, hliðstætt því, sem veitt var á yfirstandandi ári. Orsökin er ekki sú, að talið sé líklegt, að sú aðstoð geti með öllu fallið niður á næsta ári, heldur hitt, að athugunum á hag og afkomuhorfum útgerðarinnar er enn ekki lokið og löggjöf sú, sem þessi aðstoð byggist á, gildir aðeins fyrir yfirstandandi ár og fjárveitingu til þeirra þarfa er ekki í fjárl. Er á þessu stigi málsins því hvorki auðið né heldur eðlilegt að taka nokkra sérstaka fjárveitingu í fjárlfrv. í þessu skyni. Hins vegar verður að sjálfsögðu að gera sérstakar ráðstafanir um fjáröflun til að mæta þeim útgjöldum.

Í sambandi við raforkumálin er vert að vekja athygli á því, að gert er nú ráð fyrir, að öll fjárveitingin til nýrra raforkuframkvæmda gangi til rafvæðingar í sveitum, en áður var þessi fjárveiting að hluta hagnýtt til annarra framkvæmda. Verður því að afla fjár til óhjákvæmilegra framkvæmda rafmagnsveitna ríkisins með lántökum.

Vegna löggjafar frá síðasta Alþingi um rannsóknir í þágu atvinnuveganna verður allveruleg breyting á uppsetningu fjárveitinga til rannsóknarstofnananna, og jafnframt hækka nokkuð fjárveitingar til þeirra.

Á útgjöldum til menntamála verða enn á næsta ári miklar óhjákvæmilegar hækkanir, svo sem verið hefur árlega, eða um 53 millj. kr. Mesta hækkun til einstakrar stofnunar er til Háskóla Íslands, rúmar 4 millj. kr. Hefur verið heimiluð ráðning 7 lektora og 4 prófessora, og er þessi aukning starfsliðs í samræmi við 10 ára áætlun háskólaráðs um nauðsynlega eflingu háskólans. Hefur varðandi flesta útgjaldaliði verið farið eftir tillögum háskólans. Fjárveiting til styrktar íslenzkum námsmönnum hækkar um rúmar 2.5 millj. með hliðsjón af fjölgun námsmanna og hækkuðum námskostnaði. Mest hækkun til annarra æðri skóla er til menntaskólans í Reykjavík 2.5 millj. kr. og kennaraskólans um 2.3 millj. Framlög til barnafræðslu hækka um 18.8 millj. Þar af hækkar fjárveiting til byggingar barnaskóla um 5.6 millj. Er þó gert ráð fyrir, að fjárveitingar verði ákvarðaðar eftir sömu reglu og raunverulega var gert á yfirstandandi ári. Framlög til gagnfræðamenntunar hækka um 13.8 millj., þar af til byggingar gagnfræða- og héraðsskóla um 5.4 millj., einnig miðað við raunverulega fjárveitingu yfirstandandi árs. Óumflýjanlegt er talið að áætla 4 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til greiðslu kostnaðar vegna yfirvinnu fastra kennara, eftirvinnu og eyðu í stundaskrám.

Hin stöðugt vaxandi útgjöld vegna skólabygginga eru vandamál, sem að verður vikið á öðrum stað. Hér skal aðeins minnzt á menntaskólana. Eru byggingarmál þeirra sérstakt vandamál, sem nauðsynlegt er að leysa. Efst á blaði hlýtur að vera að skapa viðunandi starfsskilyrði í þeim þrem menntaskólum, sem nú eru starfandi. Er nú nýlokið viðbyggingu við menntaskólann í Reykjavík, hafizt hefur verið handa um byggingu til að nýta betur möguleika menntaskólans á Laugarvatni, og húsnæðismál menntaskólans á Akureyri eru í því öngþveiti, að talið er óumflýjanlegt að hefjast nú sem fyrst handa um byggingu hliðstæðrar viðbótar við þann skóla og við menntaskólann í Reykjavík. Þá er hafin bygging nýs menntaskóla í Reykjavík, þar eð gamli menntaskólinn hefur þegar brotið af sér öll bönd. Á síðasta þingi var samþykkt, að reistir skyldu menntaskólar á Austurlandi og á Vestfjörðum. Að sjálfsögðu kemur ekki til mála að hefja byggingu þeirra skóla, fyrr en viðunandi ástand er fengið í sambandi við starfsemi hinna menntaskólanna. Engu að síður hefur þótt rétt að taka upp í fjárl. næsta árs byrjunarfjárveitingar til þessara væntanlegu skóla auk nokkurrar hækkunar á fjárveitingu til framkvæmda við hina menntaskólana, og er þá gengið út frá, að fyrst um sinn verði þessum fjárveitingum varið til að hraða þeim framkvæmdum, sem í gangi eru, en síðan endurgreiddar, þegar hafizt verður handa um byggingu nýrra menntaskóla.

Fé það til alls konar styrktarstarfsemi sem veitt hefur verið á 14. gr. B. fjárl., hefur lengi verið hálfgert vandræðamál og bæði í ráðuneytinu og í fjvn. rætt um nauðsyn þess að gera víðtæka skipulagsbreytingu á þeirri grein. Þar er að finna fjölda persónulegra styrkja, sem vægast sagt eru harla handahófskenndir og ekki eiga allir mikinn rétt á sér. En reyndin hefur orðið sú, að erfiðlega hefur reynzt að fella niður styrk, sem einu sinni hefur verið upp tekinn, enda þótt allar aðstæður hafi gerbreytzt. Hér er yfirleitt um fjárhæðir að ræða, sem skipta ekki verulegu máli fyrir fjárhag ríkissjóðs, en þessar nafnbundnu styrkveitingar eru á ýmsan hátt harla ógeðfelldar, og veldur stöðugri gagnrýni, hvers vegna einn fær styrk, en annar ekki, þótt um fullkomlega sambærilega aðstöðu sé að ræða. Lagt er nú til í frv. að sameina alla hina persónulegu styrki í heildarfjárveitingar á tveimur liðum, annars vegar styrk til ritstarfa og útgáfustarfsemi og rannsóknarstarfa, hins vegar styrk til tónlistarstarfsemi, verði fénu síðan ráðstafað skv. ákvörðun menntmrn. eða menntamálaráðs. Fjárveitingar eru hinar sömu og í fjárl. yfirstandandi árs og ekki gengið út frá því fyrir fram, að neinir tilteknir þessara styrkja verði raunverulega niður felldir, en þó reynt að styðja þá styrkari rökum en nú eru fyrir hendi í ýmsum tilfellum og styrkirnir ekki veittir, nema raunverulega sé um einhver styrkhæf menningarframlög að ræða á þessum sviðum. Þessi skipulagsbreyting hefur verið gerð í fullu samráði við menntmrn. Taldi rn. sér skylt að eiga frumkvæðið um þessa breytingu, en að sjálfsögðu verður fjvn. Alþingis að meta, hvort hún getur einnig fyrir sitt leyti á hana fallizt.

Langmesta hækkun á einstökum fjárlagagreinum eru fjárveitingar til félagsmála, sem hækka um 106 millj. kr. Raunveruleg hækkun er þó nokkru minni eða sennilega um 90 millj., því að aukafjárveiting er á 19. gr. fjárl. yfirstandandi árs til að mæta útgjaldaauka vegna 3% launahækkunar. Langmestur hluti þessarar útgjaldaaukningar er hækkun framlaga til almannatrygginga, sem nánar er gerð grein fyrir í grg. frv. Framlag til atvinnubótasjóðs er hækkað um 5 millj. kr., og er það í samræmi við fyrirhugaða löggjöf um eflingu þess sjóðs. Uppbætur á lífeyri hækka um 13.1 millj. kr.

Miðað við óbreyttar niðurgreiðslur á vöruverði á hverja einingu mun sá útgjaldaliður hækka um 16 millj. kr. og verður þá 559 millj. kr. Er hér um geigvænlegan útgjaldalið að ræða og augljós þörf skipulagsbreytingar í þessum efnum. En úrlausn þess vanda er ekki auðveld, eftir að verðtrygging launa hefur verið upp tekin að nýju.

Miðað við 10% verðhækkun landbúnaðarafurða verður að gera ráð fyrir 26 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, og eru þær uppbætur þá í hámarki, enda má gera ráð fyrir, að útflutningur landbúnaðarafurða verði það, miðað við s.l. ár og horfur á þessu ári.

Hin miklu útgjöld ríkissjóðs vegna vanskila á ríkisábyrgðalánum hafa lengi verið mikið vandamál. Fóru þær greiðslur vaxandi ár frá ári og leiddu til þess, að sett voru lög um ríkisábyrgðasjóð, þar sem reynt var að fastmóta betur reglur um veitingu ríkisábyrgða. Sú veigamikla breyting varð, að ábyrgð ríkissjóðs skyldi þar eftir yfirleitt vera einföld ábyrgð og Seðlabankanum jafnframt falið að kanna tryggingar fyrir ábyrgðarlánum og annast innheimtu. Hefur reynslan af þessari löggjöf verið mjög góð, sem ljósast kemur fram í því, að ríkisábyrgðir, sem veittar hafa verið samkvæmt hinum nýju reglum, hafa ekki leitt til neinna vanskila á síðustu þremur árum, að undantekinni ábyrgð til eins fyrirtækis, sem varð gjaldþrota. Hins vegar hafa haldið áfram stórfelld vanskil á fyrri ríkisábyrgðarlánum, sem flest voru sjálfskuldarábyrgðarlán, og hafa þó öll tækifæri verið notuð til þess að innheimta umrædd vanskil og breyta vanskilaskuldum í samningsbundin ný lán. Þetta hefur skilað þeim árangri, að vanskilin hafa farið minnkandi. Árið 1962 voru útborganir úr ríkisábyrgðasjóði vegna vanskila 140.5 millj., innborgaðar vanskilaskuldir 11.1 millj. og nettóútgjöld ríkissjóðs vegna vanskila þannig 129.3 millj. Árið 1963 voru útborguð vanskil 135.1 millj., innborganir 27.4 millj. og nettóútgjöld vegna vanskila 107.7 millj. Árið 1964 voru útborganir vegna vanskila 147.9 millj., innborganir 45.7 millj. og nettóútgjöld sjóðsins vegna vanskila 101.3 millj. Árið 1962 lagði ríkissjóður ríkisábyrgðasjóði 49 millj. kr. auk 40 millj. kr. lántöku í Seðlabankanum. Árið 1963 var fjárlagaframlag til sjóðsins 38 millj. og greiðsla umfram fjárl. 55.7 millj., eða alls 93.7 millj. kr. Á árinu 1964 var fjárveitingin 46 millj. og umframgreiðsla 41.7 millj., eða alls 87.7 millj. Ekki er enn vitað um útkomuna í ár, en hún ætti þó að verða mun betri, og óhætt þykir að ákveða fjárveitinguna 1966 50 millj. kr. í trausti minni vanskila. Er auðvitað óviðunandi að þurfa að greiða fyrir ótal aðila, ekki sízt einkaaðila, stórar fjárhæðir árlega af opinberu fé á þennan hátt.

Á grundvelli fenginnar reynslu af starfi ríkisábyrgðasjóðs er nú unnið að undirbúningi reglugerðar til að fastmóta starfshætti sjóðsins, en hin stórfelldu vanskil á ríkisábyrgðalánum um langt skeið eru glögg ábending til meiri varfærni með ríkisábyrgðir en oft hefur verið ráðandi.

Unnið er nú að undirbúningi framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1966, og er lögð áherzla á að hraða því verki. Þarf m. a. að afla fjár til vissra framkvæmda á sviði skólabygginga, sjúkrahúsa og flugvallagerða, og verður væntanlega leitað eftir lántökuheimildum í þessu skyni, áður en fjárlög verða afgreidd.

Ef auðið átti að vera að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án almennra skattahækkana, varð óhjákvæmilega að grípa til margvíslegra úrræða, sem auðvitað hlutu að koma við þjóðfélagsborgarana með ýmsum hætti, en þó ekki verka eins óheppilega og almenn hækkun söluskatts, verðtolls eða tekjuskatts. Skal ég nú í stuttu máli gera grein fyrir þessum úrræðum.

Við samningu fjárlfrv. var í byrjun reiknað með óskertum framlögum til fjárfestingar, miðað við fjárl. yfirstandandi árs, og þó raunar með verulegum hækkunum, einkum vegna skólabygginga. Þegar öll kurl voru til grafar komin, var augljóst, að því miður var þessi leið ekki fær, ef forðast átti almennar skattahækkanir, og var því að því ráði horfið að leggja til, að fjárveitingar til fjárfestingar yrðu í flestum greinum hinar sömu og þær raunverulega urðu á yfirstandandi ári, en sumir liðir þó töluvert hærri, eins og ég hef áður að vikið. Miðað við mikla fjárfestingarþenslu og óhóflega eftirspurn eftir vinnuafli, sem sérstaklega kemur illa við framleiðsluatvinnuvegina, er raunar bæði nauðsynlegt og eðlilegt að takmarka eftir föngum opinberar framkvæmdir. Enn fremur ber að hafa í huga, að gert er ráð fyrir margvíslegum fjárfestingarframkvæmdum með lánsfé, og verði að auki ráðizt í stórvirkjun og byggingu alúminíum- og kísilgúrverksmiðju á næsta ári, koma þar enn til mjög miklar framkvæmdir.

Í öðru lagi er lagt til, að létt verði af ríkissjóði þeim þunga bagga að greiða rekstrarhalla rafmagnsveitna ríkisins, sem áætlað er að mundi nema um 40 millj. kr. á næsta ári. Er auðvitað með öllu óeðlilegt, að slíkur halli sé greiddur úr ríkissjóði, heldur verði raforkuverð við það miðað að standa undir rekstrarkostnaði. Er enda raforkuverð hér á landi lágt miðað við mörg önnur lönd. Mun ríkisstj. flytja frv. um að afla þessa fjár með eðlilegum hætti.

Í þriðja lagi er lagt til að fella niður þær eftirstöðvar af fjárveitingu ríkissjóðs til vegagerðar, sem eru í fjárl. yfirstandandi árs, 47 millj. kr., en urðu í reynd með 20% niðurskurði ekki nema 38 millj. Með hliðsjón af því, að hér er um lítinn hluta heildarfjárveitinga til vegaframkvæmda að ræða og að ríkið hefur afhent til vegagerðar tiltekinn tekjustofn, sýnast ekki nein sérstök rök mæla með því, að þessi fjárveiting standi áfram í fjárl. Af hálfu efnahagsmálasérfræðinga hefur verið talið eðlilegt, að benzínskattur yrði hækkaður verulega frá því, sem hann er nú, og þær auknu tekjur notaðar í þágu ríkissjóðs. Ég tel þá till. ekki eiga rétt á sér. Hins vegar hefur verið sæmilega að vegaframkvæmdum búið með afhendingu þessa tekjustofns miðað við margar aðrar framkvæmdir í þjóðfélaginu. Hefði vegaframlagi ríkissjóðs á næsta ári verið haldið óbreyttu miðað við hið raunverulega framlag á þessu ári, sem hlaut að verða með óbreyttu skipulagi, hefðu þannig tapazt á tveimur árum yfir 17 millj. kr. til vegaframkvæmda. Hefði það hlotið að raska mjög verulega vegáætluninni. Sýnist það því ótvírætt þjóna betur hagsmunum vegagerðarinnar að fella alveg niður þennan fjárlagalið, en gera jafnframt að sjálfsögðu ráðstafanir til þess að afla fjárins með hækkun á benzínskatti. Mun ríkisstj. gera ráðstafanir til, að svo verði gert, og tryggja þannig, að vegagerðin fái fullkomlega það fjármagn, sem henni er ætlað í vegáætlun.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að hækka enn álag á fasteignamat til eignaskatts, svo að raunverulega verði náð því marki, sem ákveðið var með samþykkt síðasta Alþingis, að aflað skyldi á þennan hátt nægilegs fjár til þess að standa straum af því 40 millj. kr. nýja framlagi til húsnæðismála, sem ákveðið var með breyt. á húsnæðismálalöggjöfinni á síðasta þingi. Sú hækkun, sem þá var gerð, skilaði aðeins helmingi þessarar fjárhæðar, og þarf því að hækka álagið enn til þess að skila þeim 20 millj. kr., sem á vantar.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að hækka aukatekjur ríkissjóðs, þ. e. ýmis leyfisbréfagjöld, dómsmálagjöld, gjöld fyrir fógetagerðir o. fl., sem yfirleitt eru litlar fjárhæðir og hafa staðið óbreyttar síðan 1960. Miðað við núverandi aðstæður eru mörg þessara gjalda orðin óeðlilega lág. Er reiknað með að afla á þennan hátt 20 millj. kr. nýrra tekna.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að afla með hækkun á verði áfengis og tóbaks nýrra tekna, er nemi 60 millj. kr. á næsta ári.

Í sjöunda lagi er gert ráð fyrir að leggja á sérstakan farmiðaskatt í sambandi við ferðalög til útlanda, ef ekki er um námsmenn eða sjúklinga að ræða Ferðalög til útlanda fara mjög vaxandi, og er það góðra gjalda vert, að menn skoði sig um í heiminum. En því miður hefur verðlagsþróunin gert það að verkum, að það er auðið að njóta sumarleyfisins á mun ódýrari hátt erlendis en ferðast um sitt eigið land. Auk þess er auðið að kaupa erlendis margvíslegar nauðsynjavörur mun ódýrar en þær eru seldar hér á landi, enda þótt eingöngu sé miðað við það, sem menn flytja löglega með sér á þann hátt til landsins. Það hlýtur alltaf að vera miklu minni hluti þjóðfélagsborgaranna, sem getur hagnýtt sér þessi hlunnindi. og þar sem í sambandi við þau er notkun á dýrmætum gjaldeyri, sem að sjálfsögðu er sameign þjóðarbúsins, er ekki óeðlilegt, að þeir, sem hlunnindanna njóta, greiði eitthvað sérstaklega til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins, ef aðstaða þeirra og hinna, sem heima sitja, er orðin óeðlilega misjöfn, svo sem nú verður að telja að sé. Á sínum tíma þótti mikill fengur að fá ferðagjaldeyri, þótt menn yrðu að greiða 25% álag, og miðað við þá gjaldeyrisupphæð, sem nú er veitt út á hvern farseðil, verður kostnaður ferðamanna með hinum nýja gjaldeyri mun lægri en meðan ferðagjaldeyrisálagið hélzt. Og hvað sem tekjuöflun í ríkissjóð liður, verður sú þróun að teljast mjög óheillavænleg, ef það reynist mönnum miklum mun hagstæðara fjárhagslega að ferðast til fjarlægra landa en eyða sumarleyfum sínum heima fyrir. Áætlað er, að tekjur af þessu nýja ferðagjaldi geti numið um 25 millj. kr. á næsta ári.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera í stórum dráttum grein fyrir afkomu ríkissjóðs árið 1964, afkomuhorfum á yfirstandandi ári og fjárlfrv. fyrir árið 1966 í einstökum atriðum. Mun ég þá víkja að nokkrum málum, sem grundvallarþýðingu hafa fyrir ríkisbúskapinn og að minni hyggju þarf að veita alveg sérstaka athygli.

Því miður fer því mjög fjarri, að viðhorf þjóðfélagsborgaranna til ríkisins og einkum ríkissjóðs sé með æskilegum hætti. Sú skoðun er allt of rík, að ríkissjóður sé einhver ópersónulegur aðili, sem allir geti gengið í að vild sinni, en helzt enginn þurfi að leggja fé til eða þá a. m. k. af mjög skornum skammti. Á sama hátt er sú hugsun allt of útbreidd, að óþarft sé að skera reikninga og fjárkröfur við nögl sér, ef ríkið á að greiða. Skattsvik hafa verið almennur þjóðarlöstur, og tollsvik eiga sér stað í ríkum mæli, þótt á báðum þessum sviðum sé reynt að efla eftirlit og auka viðurlög. Í þessum efnum er brýn þörf hugarfarsbreytingar. Þjóðfélagsborgararnir verða að gera sér grein fyrir því, að sviksemi í eðlilegum gjaldskilum til ríkisins er raunverulega sama eðlis og fjársvik í viðskiptum manna á milli. Ríki og sveitarfélög verða með einhverjum hætti að fá nauðsynlegt fé til þess að standa undir þeim kröfum, sem borgararnir sjálfir gera til hins opinbera. Niðurstaðan verður því sú, að sviksemi í greiðslu opinberra gjalda bitnar ekki á ríkissjóði eða sveitarsjóðum, heldur á samborgurunum, það, sem einn svíkur undan skatti, verður óhjákvæmilega annar að greiða. Skattsvik og tollsvik eru því beinn fjárdráttur úr hendi annarra þjóðfélagsborgara. En til þess að skapa þetta nauðsynlega hugarfar í sambandi við greiðslur til almannaþarfa hljóta borgararnir að gera þá kröfu til ríkisvalds og sveitarstjórna, að gætt sé fyllstu ráðdeildar og hagsýni í notkun opinbers fjár, og með síauknum opinberum fjárráðum verður þetta aðhald æ brýnna. Forráðamenn opinbers fjár verða að temja sér það hugarfar, að jafnmikilvægt sé að spara hverja krónu, hvort sem þeir hafa til ráðstöfunar eina milljón eða 10 millj. En því miður er hættan sú, að á opinberum sviðum, svo sem í einkalífi okkar, sljóvgist tilfinningin fyrir hverri peningaeiningu, eftir því sem upphæðirnar vaxa. Það er augljóst, hversu hlutfallslega hlýtur að vera miklu kostnaðarmeira fyrir smáþjóð en stórþjóð að halda uppi fullkomnu ríkiskerfi og allri þeirri þjónustu við borgarana, sem nútíma menningarþjóðfélag krefst. Þess vegna verðum við að gæta hófs í þessum efnum. Það er auðvitað ágætt að geta fetað í spor milljónaþjóða um framkvæmdir og uppbyggingu margvíslegra þjóðfélagsstofnana. En ef við ætlum ekki að reisa okkur hurðarás um öxl, verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Þjóð, sem er ekki fjölmennari en eitt borgarhverfi í stórborg, getur ekki leyft sér það sama og stórþjóðir gera.

Okkur er hollt og nauðsynlegt að læra af öðrum þjóðum, en okkur tjóar ekki um viðmiðun framkvæmda og uppbyggingu stofnana að vitna til þess eins, að svona sé það hjá öðrum þjóðum, svo sem oft er gert, og því verði það að vera eins hjá okkur. Við eigum að sjálfsögðu markvisst að stefna að auknum framkvæmdum og framförum, en við verðum að miða kröfur okkar í þeim efnum við fjárhagsgetu okkar sjálfra, en ekki, hvað aðrar þjóðir gera. Okkur er að sjálfsögðu hin mesta nauðsyn að tryggja okkur menntamenn og vísindamenn á sem flestum sviðum og leitast við að skapa þeim starfsskilyrði, en við verðum um leið að treysta á skilning þessara ágætu manna á því, að hvorki er líklegt, að við getum skapað þeim jafnfullkomin starfsskilyrði og stórþjóðirnar veita sínum vísindamönnum, né heldur greitt þeim þau laun, sem þeir gætu e. t. v. átt kost á hjá miklu stærri þjóðum.

Það er oft talað um ríkisbáknið og þá átt við hið opinbera stjórnsýslukerfi, og það þykir oft hagkvæmt í stjórnmálabaráttunni og líklegt til vinsælda að tala um það, að sívaxandi ríkisútgjöld stafi fyrst og fremst af ofþenslu í ríkisbákninu og lausn allra meinsemda sé að draga úr þeim útgjöldum. Svo sem ég áðan sagði, verður það hlutfallslega mjög kostnaðarsamt fyrir eins litla þjóð og okkur Íslendinga að halda uppi öllum þeim sömu þjóðfélagsstofnunum og stjórnsýslukerfi, sem margfalt stærri þjóðir hafa, þótt í minni mæli sé hjá okkur. Er því hófsemi í öllum útgjöldum á þessu sviði hin mesta nauðsyn. Einmitt af þessum sökum þótti mér ekki ófróðlegt að láta fram fara sérfræðilega athugun á því, hver væri hinn raunverulegi stjórnsýslukostnaður ríkisins og hver hefði verið þróun hans undanfarin ár, en slík athugun hygg ég að hafi ekki áður farið fram. Það er að vísu nokkurt álitamál um ýmsa þætti útgjalda, hvort þeir eigi að teljast til stjórnsýslukostnaðar eða til almennra þjóðfélagsþarfa. En það skiptir ekki höfuðmáli til samanburðar, ef sömu útgjaldaliðir eru hafðir til viðmiðunar öll árin. Leiðir þessi athugun í ljós, að miðað við fast verðlag hefur stjórnsýslukostnaður á árunum 1955–1965 hækkað um 82.2%, eða sem svarar 6.1% árlegs vaxtar að meðaltali. Mest er hækkun stjórnsýslukostnaðarins árið 1956 11.8% og 1960 16.3%, en minnst árið 1964 3.9% og árið 1959 og 1961 var um beina lækkun að ræða, 2% hvort árið. Þegar skoðað er, hversu stjórnsýslukostnaður er mikill hluti af ríkisútgjöldum, kemur í ljós, að það hlutfall hefur farið lækkandi síðustu árin, var á árunum 1955–1958 að meðaltali um 15% á ári, en á árunum 1960–1963 milli 11 og 12%, 1964 10.8% og í fjárl. 1965 áætlað um 10.5% af ríkisútgjöldum. Hlutfall stjórnsýslukostnaðar af þjóðarframleiðslu hefur verið svipað öll þessi ár, eða frá 1.9% til 2.1% og var 1.9% árið 1964. Hvort hér er um eðlilega þróun að ræða, verður ekki fullyrt án nánari athugana. En líklegt er þó, að aukning stjórnsýslukostnaðarins á þessu tímabili hafi ekki verið óhæfileg.

Á síðustu áratugum hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar til þess að reyna að kanna úrræði til aukinnar hagkvæmni og sparnaðar í ríkisrekstri og koma á auknu eftirliti með meðferð ríkisfjár. Sérstakar sparnaðarnefndir hafa verið skipaðar oftar en einu sinni og þær skilað ýtarlegum álitsgerðum. Og í tíð vinstri stjórnarinnar var skipuð þriggja manna nefnd, sem verður að leggja blessun sína yfir allar nýjar mannaráðningar ríkisstofnana. Allt var þetta góðra gjalda vert, svo langt sem það náði, en það var fyrst í fjmrh.-tíð Gunnars Thoroddsens, sem var gerð tilraun til þess að koma á skipulegri hagsýslu og kerfisbundinni athugun á rekstrarfyrirkomulagi ýmissa ríkisstofnana.Var aðalendurskoðanda ríkisins falin yfirstjórn hagsýslumála og honum til ráðuneytis ýmsir embættismenn og formaður fjvn. Alþingis. Er engum efa bundið, að margt jákvætt hefur leitt af þessari starfsemi, þótt ekki hafi af ýmsum ástæðum reynzt auðið að framfylgja öllum till. hagsýslumanna. Skal sú saga ekki rakin hér, en minna má á sameiningu áfengis- og tóbakseinkasölu, sameiginlega gjaldheimtu ríkis og Reykjavíkurborgar, niðurlagningu sérstaks eftirlits með sparisjóðum og opinberum sjóðum, athugun á vinnubrögðum í ýmsum ríkisstofnunum og aðstoð við hagkvæmari vinnubrögð og nýskipan skattheimtu.

Það er augljóst, að halda þarf áfram á þeirri braut að treysta eftirlit með notkun opinbers fjár og vinna að kerfisbundinni hagsýslu í sem flestum greinum ríkisrekstrarins. Hagsýslustarf síðustu ára hefur veitt mikilvæga reynslu, sem hægt er að byggja á frekari aðgerðir. Þessi reynsla færir okkur heim sanninn um það, að mikið vantar á, að eftirlit með notkun ríkisfjár sé nægilega traust. Felst ekki í þessum orðum neinn áfellisdómur á forstjóra ríkisstofnana eða embættismenn ríkisins, heldur er í ýmsum greinum um hreina skipulagsgalla að ræða. Árlegar launagreiðslur ríkisins nálgast nú 1 milljarð kr. á ári. En samningsgerð við ríkisstarfsmenn, eftirlit með framkvæmd samninga, launaflokkun og eftirlit með yfirvinnu og aukaþóknun til starfsmanna er unnið í hjáverkum af störfum hlöðnum starfsmönnum í fjmrn. Þar sem svo miklu varðar fyrir ríkið og rétta framkvæmd þessara mála, verður að sjálfsögðu ekki hjá því komizt að ráða sérstakan launamálafulltrúa við fjmrn., sem hafi yfirumsjón með framkvæmd kjarasamninga og hafi jafnframt forustu um að vinna að því kerfisbundna starfsmati í samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem brýn nauðsyn er að taka upp sem fyrst, því að núv. flokkun starfsmanna í launaflokka byggist engan veginn á nægilega traustum grundvelli. Þá er það samdóma álit rn. og hagsýslumanna, að ekki sé í hjáverkum unnt að vinna að nægilega traustu eftirliti með rekstri ríkisstofnana, heldur þurfi að koma á fót sérstakri hagsýsludeild í fjmrn., sem hafi víðtækt vald til afskipta af fjárhagsmálefnum ríkisstofnana og geti einbeitt sér að tillögugerð um aukna hagkvæmni í ríkisrekstrinum.

Það er jafnframt ljóst öllum þeim, sem vinna að undirbúningi fjárl., að sá undirbúningur er ekki nægilega rækilegur. Það þarf að vera auðið að kanna miklu betur en nú er gert fjárhagsáætlanir hinna einstöku ríkisstofnana, þannig að rekstraráætlun sé byggð á traustum og raunhæfum grundvelli og niðurskurður útgjalda byggður á það traustum rökum, að ekki þurfi eftir á að koma til umframgreiðslna, eins og oft vill verða. Að undirbúningi fjárl. er hins vegar unnið á erfiðasta tíma ársins og það í hjáverkum embættismanna rn., sem þá er einmitt undirmannað vegna sumarleyfa. Eftir að fjárl. hafa verið afgreidd, skortir svo verulega aðstöðu til þess að fylgjast nægilega örugglega með framkvæmd þeirra, sjá um, að stofnanirnar fylgi nákvæmlega fjárlagaáætlunum og breyti starfsháttum sínum, ef fé hefur ekki fengizt í samræmi við upphaflegar óskir stofnananna, og í stuttu máli að skapa þá tilfinningu hjá öllum þeim aðilum, sem hafa með ráðstöfun opinbers fjár að gera, að þeir verði að standa reikningsskap gerða sinna. Ríkisendurskoðunin vinnur að vísu mikilvægt verk, og hefur verið lögð áherzla á, að endurskoðunin sé eigi aðeins töluleg, heldur sé fylgzt með því, að heimildir hafi verið til fjárráðstafana, og athygli rn. vakin á því, ef um óeðlilega kostnaðarliði er að ræða. Þótt þetta aðhald hafi mikla þýðingu, kemur það þó eftir á og getur ekki í tæka tíð girt fyrir útgjöld, sem kynnu að hafa verið talin miður nauðsynleg eða jafnvel heimildarlaus. Til þess að geta betur fylgzt með útgjöldum ríkisstofnana er unnið að því, að þær sendi mánaðarlegt yfirlit, en því miður skortir mannafla til að vinna úr þeim yfirlitum sem skyldi.

Það er því hin mesta nauðsyn að geta í senn haft lengri tíma til þess að vinna að undirbúningi fjárl. og koma á traustara eftirliti með því, að fylgt sé þeim útgjaldaramma, sem Alþ. hefur markað með fjárl. Ég tel því mikla nauðsyn á að koma traustara skipulagi á undirbúning fjárl. og eftirlit með framkvæmd þeirra. Kemur til athugunar að sameina það verkefni hagsýslunni. Af þessu leiðir að nokkru ný útgjöld,en þau eru mjög smávægileg miðað við það, sem í húfi er, ef ekki er auðið að leggja nægilega traustan grundvöll að fjárhagsáætlunum ríkisins og fylgjast með, að fyllstu hagsýni sé gætt í notkun þess fjár, sem á hverju ári er tekið af þjóðfélagsborgurunum til hinna margvíslegustu opinberra þarfa.

Þá er ljós nauðsyn þess, að gætt sé hinnar fyllstu hagsýni um hagnýtingu þess mikla fjármagns, sem ríkissjóður árlega veitir til margvíslegra framkvæmda, sem annaðhvort eru algerlega á vegum ríkisins eða er greitt sem hluti af kostnaði við framkvæmdir sveitarfélaga. Að undanskildum skólabyggingum sveitarfélaga eru þessar framkvæmdir yfirleitt unnar á vegum hinna ýmsu framkvæmdastofnana ríkisins eða undir eftirliti þeirra. Ég efast ekki um það, að forstöðumenn hinna ýmsu framkvæmdastofnana vilji leggja sig fram um, að framkvæmdaféð hagnýtist sem bezt. En það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að í sambandi við margar opinberar framkvæmdir er gagnrýni borgaranna hvað háværust. Ber því ekki heldur að neita, að ýmsir annmarkar eru á framkvæmdum hins opinbera. Undirbúningur framkvæmda er í mörgum greinum fjarri því að vera nægilega traustur, áður en í framkvæmdirnar er ráðizt, og einkum eru kostnaðaráætlanir oft ófullkomnar og opinberar byggingar reynast oft óhæfilega dýrar. Þá hafa framkvæmdastofnanirnar oft ekki getað unnið svo hagkvæmt sem skyldi að ýmsum verkefnum sínum, þar eð þær hefur mjög skort viðhlítandi vélakost. Nefnd, sem sérstaklega hefur til athugunar vélakost ríkisstofnana og bifreiðaeign ríkisins, hefur unnið að till. í þessu efni, sem nauðsynlegt er að taka til rækilegrar athugunar á næstu mánuðum. Margir verktakar eru nú orðnir í landinu, sem hafa miklu fullkomnari vélakost en framkvæmdastofnanir ríkisins í ýmsum greinum. Hefur mikil breyting orðið í þessu efni á síðustu árum, og þarf því að athuga rækilega, hvort ekki sé hagkvæmara að bjóða út mun meira af framkvæmdum en nú er gert og framkvæmdastofnanirnar hafi þá fyrst og fremst það verkefni að undirbúa rækilega útboð og noti síðan sérfræðinga sína til að hafa eftirlit með framkvæmdum. Loks er nauðsynlegt að athuga rækilega, hvort ekki er hægt að ná betri kjörum varðandi innkaup efnivöru til framkvæmda með því að láta innkaup til ríkisstofnana vera í ríkara mæli á einni hendi. Hefur ríkisstj. nú sett á laggirnar nefnd fróðra manna til þess að gera heildarathugun á því, hversu hægt sé að láta framkvæmdafé ríkisins nýtast sem bezt, og skal þá taka til athugunar bæði undirbúning framkvæmda, eftirlit með þeim, hagnýtingu útboða og innkaup efnivöru. Það skal skýrt tekið fram, að í þessari athugun felst ekki neitt vantraust á forráðamenn framkvæmdastofnana ríkisins, en það er ljóst, að hér er um svo mikilvægan þátt ríkisbúskaparins að ræða, sem auk þess er undir stöðugri smásjá almennings, að nauðsynlegt er að kanna öll þessi atriði til hlítar.

Sá þáttur opinberra framkvæmda, sem tilfinnanlegast vex ár frá ári, eru skólabyggingarnar, en að ríkisskólunum fráskildum eru þær byggingar ekki í höndum ríkisins, sem þó greiðir stóran hluta byggingarkostnaðarins, heldur í höndum sveitarfélaganna. Eftir að fjármálaeftirlit skólanna var sett á stofn, urðu mikilvægar umbætur í sambandi við eftirlit með skólabyggingum, en þó fer því mjög fjarri, að þau mál séu komin í viðhlítandi horf. Skólabyggingamálin eru nú í sérstakri athugun á vegum menntmrn., og er að vænta till. í þeim efnum á næstunni. En persónulega er ég þeirrar skoðunar, að taka eigi upp þá reglu að greiða vissa fjárhæð á rúmmetra í skólabyggingum eða hlutdeild ríkissjóðs í byggingarkostnaði verði miðuð við vissa hámarksfjárhæð, er miðist við hóflegan byggingarkostnað á hverjum tíma.

Bifreiðakostnaður ríkisins er töluvert vandamál, sem oft hefur verið til athugunar, en erfiðlega gengið að setja fastar reglur um. Er m. a. nokkuð handahófskennt, hvaða embættismenn ríkisins hafa ríkisbifreiðar til afnota, og í ýmsum tilfellum munu slík bifreiðaumráð hafa verið nokkurs konar launauppbót, meðan laun forstöðumanna ríkisstofnana voru óhæfilega lág. Í sumar setti ríkisstj. ákveðnar reglur um hámarksupphæð, er við skyldi miða endurnýjun þessara bifreiða og greiðslu rekstrarkostnaðar þeirra. Jafnframt hefur fjmrn. falið bifreiða- og vélanefndinni að gera um það till. fyrir næstu áramót, hvaða embættismönnum sé talið rétt og nauðsynlegt að hafa ríkisbifreiðar til umráða, og jafnframt verði bifreiðastyrkjakerfið tekið til endurskoðunar. Mælir margt með því, að heppilegra sé að greiða embættismönnum bifreiðastyrki, þegar bifreiðakostnaður er óumflýjanlegur, heldur en ríkið eigi bifreiðarnar.

Verulegu fjármagni er árlega varið til byggingar embættisbústaða víðs vegar um landið. Í löggjöf um ýmis embætti er gert ráð fyrir embættisbústöðum, en naumast er þó hægt að segja, að fullt samræmi sé í þeim reglum. Víða um landið, þar sem erfitt er um húsnæði eða torvelt að selja húseignir á fullu verði, verður ekki hjá því komizt að hafa embættishústaði. Hins vegar sýnist mér fráleitt að byggja embættisbústaði í höfuðborginni og öðrum þéttbýlissvæðum, þar sem verðgildi húsa er stöðugt. Er það hvorki til góðs ríkinu né viðkomandi embættismanni, og virðist eðlilegra á þeim stöðum að reyna að greiða fyrir því með lánsfé, að embættismennirnir geti sjálfir eignazt sitt húsnæði, enda er reyndin sú, að embættisbústaðir eru yfirleitt mjög dýrir í byggingu og það, sem einum hentar, hentar alls ekki þeim næsta. Fulltrúar úr þeim ráðuneytum, sem hinir ýmsu embættisbústaðir heyra undir, vinna nú að heildarathugun þessa máls.

Aðild Íslands að margvíslegri, alþjóðlegri samvinnu hefur farið vaxandi með ári hverju. Sem frjáls og fullvalda þjóð verður Ísland að eiga aðild að mörgum alþjóðasamtökum, og ýmis þessi samtök færa landinu beinan fjárhagslegan hagnað, svo sem t.d. alþjóðaflugmálastofnunin, sem greiðir nú um 60 millj. kr. ársframlag til ýmissa greina flugþjónustu hér á landi. Hins er ekki að dyljast, að þessi alþjóðasamvinna er í mörgum greinum mjög kostnaðarsöm fyrir okkur, eigi aðeins vegna árstillaga, heldur eigi síður vegna sífelldra ferðalaga íslenzkra embættismanna á margvíslegar ráðstefnur. Er því ekki að leyna, að ásókn í slíkar ráðstefnuferðir fer vaxandi, og er það ekki aðeins íslenzkt vandamál, heldur vandamál, sem flestar aðrar þjóðir munu einnig þurfa við að glíma. Hér sem víðar er meðalhófið vandratað. Við verðum á viðhlítandi hátt að gæta hagsmuna íslenzku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi, en jafnframt gæta alls hófs um ráðstefnuferðir, bæði um tölu fulltrúa og hvenær brýn nauðsyn sé að senda fulltrúa. Yfirleitt hafa íslenzkar stjórnarstofnanir mjög takmörkuðu starfsliði á að skipa, og sífelldar utanfarir embættismanna valda ekki aðeins kostnaði, heldur geta torveldað ýmis nauðsynleg störf viðkomandi stofnana. Hef ég talið rétt að reyna að fá heildarmynd af þessu vandamáli og því falið ríkisendurskoðuninni að afla upplýsinga um utanferðir og ferðakostnað embættismanna og stofnana á s.l. ári í því skyni að gera sér grein fyrir, hvort auðið er að setja fastar reglur um þetta efni. Margvíslegar ráðstefnur, einkum norrænar, eru í vaxandi mæli haldnar hér á landi, og opinberar gestakomur aukast einnig. Hvort tveggja hefur þetta þýðingu fyrir landið, sem ekki má vanmeta, og ekki er hægt að komast hjá ýmiss konar risnu og veizluhaldi ríkisstj. og jafnvel annarra opinberra aðila í þessu sambandi. Rétt er að geta þess, að ríkisstj. hefur lagt áherzlu á að hafa það hóf, sem auðið er, á í þessu efni, án þess þó að verða íslenzkri gestrisni til skammar, og hefur m. a. verið reynt eftir föngum að hafa móttökur og veizlur í ráðherrabústaðnum, sem dregur mjög úr þessum kostnaði.

Till. hafa á ýmsum tímum komið fram um sameiningu ríkisstofnana, bæði frá sparnaðarnefndum og fjvn. Því miður hefur reyndin orðið sú, að erfitt er að koma við þeirri sameiningu, og eru ýmis ljón á vegi. Lengi hefur t.d. verið talað um að sameina skógrækt og sandgræðslu, sem eru mjög skyldar stofnanir, sameina öryggiseftirlit og skipaskoðun ríkisins og fela iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans matvæla- og mjólkureftirlit. Ekkert af þessu hefur tekizt áð framkvæma. Kann að vera, að sparnaður sé ekki umtalsverður við slíka skipulagsbreytingu, en nauðsynlegt er þó að halda áfram athugun á þessum möguleikum, og er það eitt þeirra viðfangsefna, sem hagsýslustarfsemin þarf að beinast að. Þarf að finna hagkvæmt tækifæri til slíkrar sameiningar stofnana, svo sem var í sambandi við tóbaks- og áfengiseinkasöluna, en það mál hafði árum saman verið til umr., áður en tókst að fá samstöðu um framkvæmdir.

Flestar framkvæmdastofnanir ríkisins hafa eigin véla- og viðgerðarverkstæði. Er nú í sérstakri athugun, hvort eigi sé hagkvæmt að sameina þessa þjónustu að einhverju eða öllu leyti.

Prestakallaskipunin er nú í endurskoðun að tilhlutan kirkjumrh. Skal ég ekki ræða það mál á þessu stigi, en þess er að vænta, að menn líti það mál raunsærri augum en gert hefur verið með hliðsjón af gerbreyttum þjóðfélagsháttum. Vegna mjög bættra samgangna sýnist fækkun prestakalla á ýmsum stöðum á landinu sjálfsögð og eðlileg ráðstöfun, og jafnframt ætti að létta af prestum búskaparbasli, sem er þeim nú margfalt erfiðara en áður fyrr, og virðist eðlilegt, að aðsetur presta sé í þéttbýlisstöðum eða við menningarmiðstöðvar í sveitum, þar sem þeir jafnframt gætu sinnt kennslu í kristnum fræðum. Hef ég ekki talið rétt að fallast á óskir biskups um fjárveitingu til nýrra prestsembætta í Reykjavík, fyrr en þessari endurskoðun prestakallaskipunarlaga er lokið.

Prestssetursjarðir og aðrar ríkisjarðir eru vaxandi kostnaðarliður fyrir ríkið, en tekjur af þessum eignum hverfandi litlar. Tel ég tvímælalaust rétt að stefna að því að selja sem flestar ríkisjarðir, þar sem ekki er um að ræða jarðhita eða önnur sérstök verðmæti, enda eru ábúðarl. þannig úr garði gerð, að naumast er gerandi að eiga jarðir í ábúð. Er ríkið sem landeigandi lögum samkv. skyldugt til að leysa til sín byggingar á ríkisjörðum frá fráfarandi ábúanda. Hefur alvara þessa skipulags bezt komið í ljós á þessu ári, þar sem ríkið hefur orðið að greiða einum ábúanda 1 millj. kr. fyrir byggingar, sem hann hefur reist á ríkisjörð.

Vegna verðrýrnunar er orðið miklu kostnaðarsamara að slá ýmsar mynteiningar en svarar verðgildi þeirra. Er nú í athugun, hvort eigi sé rétt að afnema hinar minni mynteiningar og jafnframt fela Seðlabankanum myntsláttuna. Í framhaldi af því kemur til athugunar að fela Seðlabankanum sem viðskiptabanka ríkissjóðs að einhverju eða jafnvel öllu leyti þau störf, sem skrifstofa ríkisféhirðis nú annast.

Ég hefði haft löngun til að ræða mörg önnur atriði, þar sem endurskoðunar er þörf í ríkisbúskapnum, en tímans vegna er það ekki fært, og læt ég því hér staðar numið. Vert er að hafa í huga í þessu sambandi, að breytingar eru örar á mörgum sviðum í þjóðfélaginu og það, sem kann að hafa verið gott og eðlilegt á einum tíma, getur verið úrelt nú. Það þarf því ekki að taka það sem gagnrýni á einn né neinn, þótt rætt sé um nauðsyn víðtækra breytinga á ýmsum sviðum, og það varðar miklu fyrir þjóðina, að hún geri sér grein fyrir hinum breyttu aðstæðum og forráðamenn hennar þori jafnframt að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum, þótt þær kunni að raska gömlu skipulagi. Það er þannig ekki aðeins prestakallaskipunin, sem eðlilegt er að endurskoða og samrýma nýjum aðstæðum, heldur hlýtur einnig hin gamla hreppa- og sýsluskipun að koma til rækilegrar endurskoðunar og breytinga á næstu árum. En út í það skal ég ekki fara nánar hér.

Ég geri ráð fyrir því, að bæði hv. þm. og ýmsir aðrir áhugamenn um þjóðfélagsmál eigi ýmsar hugmyndir, er horft geti til bóta í skipan ríkiskerfisins. Allar slíkar hugmyndir er mér sérstaklega ljúft að taka til athugunar, og ekki hvað sízt teldi ég æskilegt, ef embættismennirnir sjálfir, forstöðumenn ríkisstofnana og aðrir þeir, er gerst þekkja til mála, vildu koma á framfæri hugmyndum í þessum efnum.

Fyrir forgöngu fyrrv. fjmrh., Gunnars Thoroddsens, hafa á síðustu árum verið gerðar mikilvægar lagfæringar á tekjuskattslögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Mun óhætt að fullyrða, að álögur í beinum sköttum til ríkis og sveitarfélaga séu nú orðnar hér hófsamlegar og síður en svo hærri en í öðrum sambærilegum löndum. Hvort að frekari skipulagsbreytingu þessara mála skuli stefnt, t.d. með algeru afnámi beinna skatta til ríkisins og afhendingu þess tekjustofns til sveitarfélaganna, skal ég ekki ræða á þessu stigi málsins, enda hef ég ekki myndað mér ákveðna skoðun um það efni. En að sinni tel ég ekki rétt að gera frekari breytingar á hvorki lögum um tekju- og eignarskatt né tekjustofna sveitarfélaga, enda ófært að breyta slíkri löggjöf á hverju ári, heldur þarf að fá nokkurn tíma til þess að reyna löggjöfina í framkvæmd. Er ekki þörf sérstakra breyt. nú vegna lögfestingar þeirra reglna á síðasta þingi, að álagningarstigar skuli breytast samkv. skattvísitölu, þannig að skattþunginn á ekki að vaxa með vaxandi tekjum manna að krónutölu.

Skattsvik hafa verið hér landlæg meinsemd og fjöldi manna ekki séð neitt athugavert við að undirrita rangar drengskaparyfirlýsingar í sambandi við skattaframtöl. Því miður hefur þessum vanda stundum verið mætt með opinberum ráðstöfunum, sem beinlínis hafa ýtt undir vöxt meinsemdarinnar, svo sem með veltuútsvörum á sínum tíma, sem beinlínis voru rökstudd sem skattsvikaútsvör, og öðrum óhæfilegum álögum. er jafnvel neyddu menn til að svíkja undan skatti til að bjarga sjálfum sér og atvinnurekstri sínum. Með skattamálaendurbótum síðustu ára hefur verið horfið inn á þær heillavænlegu brautir í þessum efnum að gera skattaálögur svo bærilegar, að hægt væri með fullri sanngirni að krefjast þess, að menn teldu rétt fram til skatts, og var þá jafnframt eðlilegt að herða viðurlög við skattsvikum og gera skipulegar ráðstafanir til að uppræta meinsemdina. Tilkoma skattrannsóknardeildarinnar hefur verið tvímælalaust jákvætt spor í þessa átt. Þótt erfitt sé að sannreyna til hlítar áhrif þessarar nýju skipunar, bendir þó margt í þá átt, að skattaframtöl fari batnandi. Mun verða lögð áherzla á að tryggja skattrannsóknardeildinni viðhlítandi starfsskilyrði, og hefur jafnframt verið lögð áherzla á, að skattstofur um land allt vinni að nákvæmri rannsókn skattaframtala, svo sem tími þeirra frekast leyfir. Fjmrn. hefur nýlega gert á opinberum vettvangi grein fyrir störfum rannsóknardeildarinnar til þessa og geri ég þau því ekki frekar að umræðuefni nú. Sumir hafa reynt að gera lítið úr því starfi, sem unnið hefur verið á einu ári, og haft í frammi hinar furðulegustu reikningskúnstir í því sambandi. Tel ég þetta með öllu ómaklegt. Framtíðarárangur veltur mjög á skipulagi rannsóknaraðferða í upphafi, og þegar auk þessa mikilvæga undirbúningsstarfs hefur þegar á fyrsta starfsári verið hafin rannsókn 120 mála, er síður en svo hægt að segja, að deildin hafi verið aðgerðalítil.

Jafnframt því, að með l. frá síðasta Alþ. er á ýmsan hátt bætt rannsóknaraðstaða skattrannsóknardeildarinnar við embætti ríkisskattstjóra, beitti ég mér fyrir því, að mönnum var gefið tækifæri til þess í vissan tíma að koma skattaframtölum sínum í rétt horf og greiða eðlilegan skatt, ef um undandrátt hefði verið að ræða. Hvort menn hagnýttu sér þetta tækifæri eða ekki, skipti ekki öllu máli, heldur hitt, að með þessu vildi ég gera mönnum ljóst, að ætlunin með tilkomu rannsóknardeildarinnar væri sú að taka skatteftirlitið nýjum tökum, beita hér eftir ströngum viðurlögum við skattsvikum og menn gætu því ekki neinn um sakað nema sjálfa sig, ef þeir notuðu ekki þetta tækifæri til þess að koma málum sínum í lag. Án slíks tækifæris til leiðréttinga gátu menn með nokkrum rétti fundið að því að verða nú allt í einu beittir þungum viðurlögum, eftir að áratugum saman hafði refsiákvæðum skattalaga lítt eða ekki verið beitt. Ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri velja að sjálfsögðu leiðirnar til þess að ná sem beztum árangri í skatteftirlitinu, en ég vil, að það sé öllum mönnum ljóst, að rn, mun styðja það á allan tiltækan hátt í sínu mikilvæga starfi, og vona, að sú stund sé ekki langt undan, að skattsvik verði fordæmd af almenningi sem hver önnur fjársvik og menn virði drengskaparyfirlýsingar sínar á skattaframtölum eigi minna en í öðrum viðskiptum.

Refsingar fyrir skattsvik eru auðvitað ekki neitt takmark í sjálfu sér, heldur úrræði til aðvörunar. En takmarkið er að fyrirbyggja skattsvikin, og því verður lögð áherzla á að skipuleggja sem bezt upplýsingaöflun um tekjur einstaklinga og fyrirtækja, og hafa sérfræðingar ýmis atriði í því sambandi til athugunar, m. a. eru lög um bókhald í endurskoðun, en þau eru á margan hátt orðin úrelt. Lögð verður áherzla á að hraða eftir föngum undirbúningi þess að innleiða hér á landi það skipulag, að beinir skattar verði innheimtir af tekjum manna, jafnóðum og þær falla til, og að því stefnt, að svo geti orðið á árinu 1967. Skattasérfræðingar telja mál þetta erfiðara í framkvæmd hér en víða annars staðar einmitt vegna hinna mjög breytilegu tekna, og hefur þó annars staðar tekið mörg ár að undirbúa slík greiðslukerfi. Þá hefur rn. leitazt við að fylgjast með undirbúningi og umr. um nýtt skattform, svokallaðan verðaukaskatt, sem er nú til umr. í ýmsum löndum og til stendur að lögfesta í Danmörku á næstunni. Hvort slíkt skattheimtukerfi er til bóta, skal ósagt látið á þessu stigi málsins. En nauðsynlegt er að fylgjast með því máli, ekki sízt ef óumflýjanlegt reynist að breyta í grundvallaratriðum tekjuöflunarkerfi ríkisins. Ef til kæmi aðild Íslands að Fríverzlunarbandalagi Evrópu eða svipuðum viðskiptasamtökum, er gert óumflýjanlegt að hverfa að meira eða minna leyti frá verndartollum og tekjuöflunartollum í sambandi við innflutning vara. Loks er nauðsynlegt að kanna úrræði til þess að gera skattakerfið einfaldara 3 framkvæmd, því að það er á ýmsan hátt allt of flókið.

Tollakerfið er í mikilli deiglu um þessar mundir. Hafa margvíslegar lagfæringar verið gerðar á tollum á síðustu árum, og er tvímælalaust góð reynsla af þeim breytingum í meginefnum. Hátollar hafa verið lækkaðir, sem dregið hefur verulega úr ólöglegum innflutningi ýmissa vara. Mikilvægar tollabreytingar hafa verið gerðar til hagsbóta framleiðsluatvinnuvegunum, einkum útflutningsframleiðslunni. Unnið hefur verið að frekari till. um tollabreytingar til lækkunar, en endanleg ákvörðun ekki tekin um það, að hve miklu leyti eða hvenær verði í þær breytingar ráðizt. Er nauðsynlegt að fylgjast með áhrifum síðustu tollabreytinga á afkomu iðnaðarins. Sérstök athugun hefur farið fram á því efni. Jafnframt er æskilegt, að áður liggi fyrir niðurstöður eða ákvarðanir varðandi hugsanlega aðild að EFTA, því að þá mun reynast óumflýjanlegt að taka allt tollakerfið til skipulegrar endurskoðunar.

Á þessu stigi málsins eru tollsvikin alvarlegasta vandamálið, og ber hina brýnustu nauðsyn til þess að uppræta þau eigi síður en skattsvikin. Lögð hefur verið áherzla á að efla eftir föngum tolleftirlitið og gerðar ráðstafanir til að fjölga mönnum við tollgæzlustörf. Hefur tollgæzlunni nú í sumar tekizt að koma í veg fyrir mjög alvarlegar smygltilraunir og raunar oft áður upplýst alvarleg smyglmál, þótt eigi hafi verið eins stórkostlegt smygl um að ræða og nú. Verður að taka þessi mál hinum föstustu tökum. Hefur tollamálanefndin nú að undanförnu haft til sérstakrar athugunar ýmsa þætti í framkvæmd tollgæzlu og tolleftirlits. Hefur að mestu verið gengið frá frv. að nýrri löggjöf um tollgæzlu og tolleftirlit, og í sérstakri athugun er, hvort ekki sé óumflýjanlegt að herða mjög refsingar við smygli. Þá hafa verið undirbúnar fastar reglur í sambandi við heimilaðan tollfrjálsan innflutning ferðamanna og áhafna skipa og flugvéla, en fastar reglur hafa ekki verið til um þau efni og framkvæmd tollgæzlunnar því að þessu leyti mjög torveld. Er engum efa bundið, að árlega er fluttur til landsins varningur án tollgreiðslu, sem nemur ótrúlega háum fjárhæðum. Er hvort tveggja, að með vaxandi ferðalögum Íslendinga til útlanda vaxa kaup erlendis á ýmsum vörum til eigin nota, sem ekki er greiddur tollur af, en hitt er þó alvarlegra, að ástæða er til að halda, að í stórum stíl sé smyglað inn söluvarningi, sem jafnvel er hafður til sölu í verzlunum. Er hér um ótrúlegt blygðunarleysi að ræða, sem leggja verður allt kapp á að uppræta, og hafa farið fram athuganir á ýmsum úrræðum í því efni.

Sú grundvallarstefna, sem heilbrigður ríkisbúskapur hlýtur að byggjast á, er að halda uppi því ríkiskerfi, þjónustu við þjóðfélagsborgarana og stuðningi við alhliða þjóðfélagsframfarir, sem nútíma menningarþjóðfélag hvílir á, en þó innan þeirra marka, að fjáröflun til hinna sameiginlegu þarfa lami ekki heilbrigt framtak þjóðfélagsborgaranna og getu þeirra og vilja til að bjarga sér sjálfir. Vandinn er því sá að finna eðlilega hlutdeild ríkisins í þjóðartekjum og halda sig síðan innan þess ramma. Það er vafalaust mjög vandasamt að komast að nákvæmlega réttri niðurstöðu um þetta atriði, en það er þó mjög nauðsynlegt að reyna að finna slíka viðmiðun til þess að forðast það, að ríkið valdi sjálft jafnvægisleysi í þjóðarbúskapnum. Það hefur komið í ljós, að þrátt fyrir kvartanir um háa skatta tekur íslenzka ríkið í sinn hlut minna af þjóðartekjum en mörg önnur lönd. Við verðbólguþróun síðustu áratuga hefur raunar aldrei verið skoðað niður í kjölinn, hversu langt væri hæfilegt að ganga í þessum efnum, heldur hefur hverju sinni verið reynt að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegar hafa verið til að standa undir sívaxandi útgjöldum og nýrri og nýrri löggjöf, sem lagt hefur auknar kvaðir á ríkissjóðinn og sveitarfélögin. Það er líka fyrst á síðustu árum, að skýrslugerð hér á landi má teljast komin í það horf, að hægt sé með viðhlítandi undirstöðu að gera áætlanir fram í tímann.

Framkvæmdaáætlanir ríkisstj. nú allra síðustu árin eru spor í þá átt að skipuleggja opinberar framkvæmdir og fjáröflun til þeirra. Nauðsynlegt er, að framkvæmdamál sveitarfélaga séu tekin svipuðum tökum, og er nú einmitt fyrirhuguð ráðstefna þeirra í haust til þess að ræða ýmsa þætti í framkvæmdum þeirra og fjáröflun í því sambandi. Á síðustu árum hefur aðstaða sveitarfélaganna til fjáröflunar verið bætt á ýmsan hátt, langmest með þeirri hlutdeild í söluskatti og aðflutningsgjöldum, sem fyrrv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, hafði forgöngu um. Þá má einnig nefna framlög til kaupstaða og kauptúna af fé til vegagerða og loks frv. um lánasjóð sveitarfélaga, sem gera má ráð fyrir að verði lögfestur í einhverju formi, en þarfnast áður nánari athugunar með hliðsjón af eflingu stofnlánasjóða almennt og endurskipulagningu þeirra, sem ríkisstj. mun beita sér fyrir á þessu þingi.

En það er ekki nóg að afla fjár til framkvæmda ríkis og sveitarfélaga, heldur verður jafnframt að skipuleggja framkvæmdirnar á þann hátt, að þær hafi ekki verðbólguáhrif í þjóðfélaginu og séu innan þeirra marka, sem ég áðan greindi. Lántökur til framkvæmda eiga fullan rétt á sér, þegar um arðbærar framkvæmdir er að ræða, sem auka tekjumöguleika og greiðslugetu, en að öðru leyti verður að fara mjög varlega í lántökur og halda þeim innan þess ramma, að skuldabaggi verði ekki beinlínis til þess að draga úr æskilegum framkvæmdum á næstu áratugum.

Jafnframt því að skipuleggja þannig sem bezt framkvæmda- og fjárfestingaráætlanir ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir tekjumöguleikum þeirra. Fyrir því hef ég beðið Efnahagsstofnunina að reyna að kanna það, hversu langt ríkið megi ganga í tekjuöflun á næstu árum til þess að raska ekki eðlilegu jafnvægi í þjóðfélaginu, og innan þess ramma verður svo að sjálfsögðu að halda útgjöldum ríkisins næstu árin. Verður í því sambandi að reyna að gera sér grein fyrir því, hver séu helztu viðfangsefni ríkisins á næstu árum, hvaða útgjöldum margvísleg núverandi löggjöf sé líkleg til að valda ríkissjóði á þessu árabili, og hefja þá í tæka tíð endurskoðun þeirrar löggjafar, ef sýnilegt er, að af henni muni leiða of þunga byrði.

Herra forseti. Þótt ríkisbúskapurinn hafi færzt úr réttum skorðum á s.l. ári, er heildarmynd efnahagsþróunarinnar uppörvandi. Aukning þjóðarframleiðslunnar síðustu árin hefur verið óvenjumikil, verðlag framleiðsluvara þjóðarinnar hagstætt og eignamyndun meiri en áður hefur þekkzt. Gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur haldið áfram að aukast og nam í ágúst rúmum 1800 millj. kr. Innlán í lánastofnunum fara stöðugt vaxandi, hafa hækkað 8 fyrstu mánuði þessa árs um 864 millj., en 749 millj. á sama tíma í fyrra, sem þó sýndi meiri aukningu en áður. Þessi þróun efnahagsmálanna hefur tryggt okkur það lánstraust á alþjóðlegum lánamarkaði, að við getum aflað okkur þar fjár til stórframkvæmda, sem ella hefðu verið óviðráðanlegar. Alhliða framfarir og framkvæmdir hafa verið örar og eftirspurnin eftir vinnuafli meiri en framboð. Það er því ástæðulaust annað en líta björtum augum til framtíðarinnar, ef rétt er á málum haldið. Forsenda jákvæðrar sóknar til meiri framfara og bættra lífskjara er, að þjóðin almennt geri sér grein fyrir undirstöðuatriðum efnahagslífsins og snúizt sé að vandamálum hvers tíma með djörfung og raunsæi. Réttmæt gagnrýni á það, sem miður fer, er nauðsynleg. En þeir, sem reyna að villa mönnum sýn, vinna illt verk.

Enn sem fyrr er meginvandamálið það, að við gerum kröfu til hraðari kjarabóta en aukning þjóðarframleiðslu leyfir, og því hefur ekki tekizt að hafa hemil á verðbólgunni. Með kjarasamningunum á s.l. ári sáust fyrstu merki almenns skilnings á því, að óhófleg kröfugerð á hendur atvinnuvegunum leiddi til ills fyrir alla. Það er hin brýnasta þjóðarnauðsyn að halda áfram að glæða þann skilning, og það er áreiðanlegt, að gagnkvæmur skilningur og heiðarleg samvinna ríkisvalds, launþega og vinnuveitenda er eina úrræðið til haldgóðrar lausnar verðbólguvandamálsins. Í þessu sambandi verður að leggja áherzlu á að komast út úr vítahring víxlhækkana kaupgjalds og verðlags. Fyrir ríkisbúskapinn hefur verðbólgan hin óheillavænlegustu áhrif og knýr stöðugt á um nýja tekjuöflun.

Þótt verðbólguvandamálið verði ekki leyst að fullu nema með réttum skilningi allra þeirra, sem úrslitaáhrif hafa á verðmyndun í landinu, er auðið að gera ýmsar ráðstafanir, sem stuðla að lausn vandans. Það þarf eftir megni að tryggja það, að menn geti ekki hagnazt óeðlilega á verðbólgunni. Þegar hefur verið hafizt handa í þá átt með takmarkaðri verðtryggingu. En það þarf að stefna að sem almennastri verðtryggingu sparifjár og lána til langs tíma. Þá er því ekki að neita, að vaxtafrádráttarheimild í skattalögum beinlínis stuðlar að skuldasöfnun á verðbólgutímum hjá þeim, sem hafa háar tekjur, en breyting á þeirri skipan er því miður ekki auðveld af ýmsum ástæðum.

Að lokum þetta: Látum ekki skilningsleysi á eðli vandamálanna verða okkur að fótakefli. Aðstaða okkar er góð og tækifærin mörg, og þótt leið okkar til aukinna framfara og velmegunar sé grýtt á stöku stað, er undirstaðan þegar orðin það traust, að með samstilltu átaki verður létt að ryðja hindrununum úr vegi.