25.02.1966
Neðri deild: 46. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Það voru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hæstv. sjútvmrh. sagði hér . Í rauninni var það nú aðeins eitt atriði, sem nokkru máli skiptir, en hann lét orð að því liggja, að það mundi vera sú leið út úr þessum vanda, að hægt yrði að leggja þennan nýja skatt á síldarverksmiðjurnar, en ekki aðeins síldveiðisjómennina og eigendur síldveiðiskipa. En þetta er mesti misskilningur. Hann verður þá að breyta lögum til viðbótar við það, ef hann ætlar að koma því fram. Verðlagning á síldarafurðum fer fram samkv. ákveðnum lögum, og til allra sannanlegra útgjalda hjá síldarverksmiðjum og öðrum þeim, sem kaupa, er tekið tillit að öllu leyti. (Gripið fram í.) Jú, afkomu. Ég ætlast til þess, að það hafi verið tekið tillit til afkomu þeirra áður, það sé ekkert nýtt, að það hafi verið tekið tillit til hennar. Þær eru látnar leggja fram grg. um það, hvernig afkoman hafi verið og hvert þeirra gjaldþol sé og hvaða útgjaldapóstar hvíli á rekstrinum. Ég efast ekkert um, að það verður staðið að síldarákvörðun með sama hætti nú á næsta vori og áður. Ef hins vegar er ætlunin að láta síldarverksmiðjurnar bera þetta gjald, þá skulum við bara breyta frv. í þá átt. Ég held, að það sé ekki meiningin, mér dettur ekki í hug að búast við því, því að lögin gera ráð fyrir allt öðru. Hér er um það að ræða að mynda fastan útgjaldalið, ákveðinn skatt, sem alltaf hefur verið dreginn frá í sambandi við verðákvörðunina, og að verður eflaust gert eins nú, enda í rauninni í samræmi við gildandi lög.

Það er mesti misskilningur, ef hæstv. ráðh. hefur fallið fyrir þeim röksemdum hjá einhverjum, að mér sé svo sérstaklega sárt um síldarverksmiðjur. Ég á eins mörg börn í sjó í sambandi við jafnt báta og frystihús, sem í sambandi við síldarverksmiðjur. Málið snýr ekki þannig við hjá mér. Og ég á ekki von á því, að sú síldarverksmiðja, sem útvegsmenn og sjómenn á Norðfirði eiga hlutdeild í, muni skorast undan því að borga það síldarverð, sem ákveðið verður hverju sinni. Ég á ekki von á því. Rétt er því fyrir hæstv. ráðherra að líta á þetta mál alveg raunhæfum augum. Hér er um það að ræða að lækka verðið á hverju síldarmáli frá því, sem annars hefði verið hægt að ákvarða það, sem nemur a.m.k. 10 kr. Og þessi 10 kr. lækkun jafngildir því, að hlutur síldveiðisjómanna mundi lækka um 20 millj. kr. á ári, miðað við veiðimagnið á s.l. ári, og mundi einnig nema því, að eigendur síldveiðiskipa fengju um 20 millj. kr. minna fyrir sinn afla en hægt hefði verið að láta þá hafa annars, og það er af þeim ástæðum, að þessa upphæð á að taka og flytja til allt annarra aðila.

Um það, sem hæstv. ráðh. sagði hér varðandi þau orð, sem ég lét falla hér um formann Sjómannafélags Reykjavíkur, skal ég ekkert þræta við hann. Ég tel mig fylgjast sæmilega vel með í sjávarútvegsmálum, og ég segi það eins og það er, ég minnist þess ekki að hafa séð þessa kröfu koma fram frá sjómönnum nokkurn tíma áður. En hitt er svo annað mál, að ef menn vildu fara að hafa þann hátt á, þegar þeir leggja slíkan skatt sem þennan á brúttóaflaverðmæti, að þá fari helmingur þess skatts til sjómannanna eftir einhverjum öðrum krókaleiðum, þá skiptir skatturinn auðvitað engu máli. En ef aðeins lítið brot af þeim hluta, sem á að falla í hlut sjómannanna, á að ganga í sjóði einhvers tiltekins félags, er það greiðsla að mínum dómi fyrir að hafa staðið hér að óréttlátu máli.

Bókun Tryggva Helgasonar var mjög skýr og eðlileg. Hann sat hjá við afgreiðslu þeirrar tillögu, sem var um fiskverðið, en fól í sér einnig ákvörðun varðandi þetta mál. Hann lét bóka, að hann væri samþykkur fiskverðshækkuninni, en taldi, að hitt væri alls ekki málefni fiskverðsákvörðunarnefndarinnar, að fjalla um þessa skattlagningu, og það var vitanlega rétt afstaða. Viðtöl voru síðan í blöðum við Tryggva Helgason á eftir, þar sem hann lýsti yfir alveg ótvíræðri andstöðu við þessa skattlagningu, svo að það fer ekkert á milli mála, hver afstaða hans var, enda tel ég, að það hafi komið mjög skýrt fram á þeim viðtalsfundi, sem sjútvn. þingsins höfðu m.a. við hann um þetta mál.

Hvort hinn landskunni aflamaður, Eggert Gíslason skipstjóri, hefur rætt við hæstv. ráðherra um löndunarmöguleika í Noregi og löndunarmöguleika norskra skipa á Íslandi á þeim grundvelli, að hann vildi þetta vegna þess, að hann fengi hærra verð í Noregi, eða af einhverjum öðrum ástæðum, það sé ég ekki að skipti máli. En það ætla ég, að jafnglöggur maður og hann hafi áttað sig á því, hvað það er miklu betra að fá um 100 kr. meira fyrir hvert mál en að fá lægra verð, svo að hann muni taka fullt tillit til þess, þegar hann velur sér stað til að landa á. Og hann mun ekki verða einn um það, þegar þar að kemur. Sannleikurinn er sá, að það er þegar farið að bera á því með þann verðmismun, sem nú er, að ýmsir síldveiðiskipstjórar vilji gjarnan koma afla sínum í sölu erlendis og fá þar meira fyrir hann en þeir fá hér heima og það af ofur eðlilegum ástæðum, a.m.k. þegar aðstæður eru þannig. En ég greindi frá þessu aðeins til að benda á þær hættur, sem ég tel vera á því að skapa óeðlilegan mun á milli verðsins hér og í Noregi á þessari vöru. Ég held, að það sé mikil nauðsyn á því, að reyna að halda uppi réttlátu verði á síldarafurðum, ekki síður en á öðrum afurðum.

Ég skal svo ekki við 1. umr. lengja þessar umr., nema sérstakt tilefni gefist til, frekar en orðið er.