28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál hér allýtarlega við 1. umr. þess og gaf þá hér þær upplýsingar um málið, sem mér fannst mestu máli skipta, til þess að hægt væri að glöggva sig á málinu sem heild. Við það, sem ég sagði þar, komu hér ekki fram neinar aths. við meginatriði málsins, og hygg ég, að það hafi í rauninni komið skýrt fram, að öll meginatriði, þau sem ég dró hér fram um efnisatriði málsins, eru fullkomlega rétt. Hitt er svo annað mál. að það eru skiptar skoðanir um það hvaða afstöðu beri að taka til málsins þrátt fyrir þær meginstaðreyndir, sem ég lagði á áherzlu í ræðu minni, þegar málið var til 1. umr. Ég mun því ekki nú að þessu sinni ræða hér málið í löngu máli, ég sé ekki til þess neina ástæðu, en víkja aðeins að örfáum atriðum.

Ég hef bent á það, að verðlagning á fiski um s.l. áramót, þegar ákveðið var að hækka fiskverðið að meðaltali um 17%, er ekkert aðalatriði þessa máls. Það stendur enginn ágreiningur, ekki a.m.k. á milli mín og þeirra, sem að þessu frv. standa, um þá verðlagningu. Ég tel, að fiskverðshækkunin þá hafi ekki mátt vera minni, en hins vegar eru mikil rök fyrir því að mínum dómi, að fiskverðshækkunin hefði þurft að vera meiri. Það er heldur ekkert aðalatriði varðandi skoðun mína og meiri hl. eða þeirra, sem standa að þessu frv., hvort fiskkaupendurnir í landinu, frystihúsin, hefðu getað borgað þessa fiskverðshækkun án alls stuðnings eða ekki. Ég held því fram, að það sé ekki sannað mál, að frystihúsin hefðu ekki getað hjálparlaust risið undir þessari hækkun. En það er þó ekkert aðalatriði í þessum efnum frá minni hálfu. Ég er sannfærður um það, að ýmis frystihús í landinu hafa haft þannig aðstöðu nú um tveggja ára skeið, að þau hafa haft góðan rekstur og hefðu vissulega getað risið undir þessari fiskverðshækkun, sem þarna var ákveðin. En ég er líka jafnviss um, að það eru til ýmis önnur frystihús, sem búa við miklu lakari rekstur. Sem sagt, hvort frystihúsin hafa getað greitt 13% af þessari fiskverðshækkun eða 17%, það er ekkert aðalatriði málsins. Ég hefði fyllilega verið til viðtals um það að reyna að brúa þetta bil á milli 13% og 17%, eða þetta, sem nú er metið í kringum 40 millj. kr., ef það hefði almennt verið álit manna, að það þyrfti að hlaupa undir bagga með frystihúsunum sem heild í þessum tilfellum. Sú upphæð, sem hér var um að ræða, tei ég að skipti hér ekki höfuðmáli. Það mátti eins og oft áður finna þar ýmsar leiðir til þess að brúa bilið. En þessa leið, sem valin hefur verið, tel ég ranga og hættulega, og ég er á móti henni.

Ég vil í þessum efnum taka það alveg skýrt fram, að það er ranglega eftir mér haft og mitt mál ranglega skilið, þegar því er haldið fram, að ég sé á móti því, sem lagt er til í þessu frv., vegna þess að ég telji, að frystihúsin hafi grætt slíkar milljónafúlgur á undanförnum árum. Mér kemur ekki til hugar að halda slíku fram. Ég veit, að þar er um mjög misjafnan rekstur að ræða. Sum frystihúsin hafa hagnazt vel, enda liggur það nú fyrir í opinberum framtölum þessara aðila, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. En það á ekki við um þau öll. En ég álit, að það hefði verið miklu eðlilegra að bregðast við þessum vanda á eitthvað svipaðan hátt og gert hefur verið áður. Ef það hefði virkilega verið skoðun manna, að þessi baggi væri ekki leggjandi á frystihúsin sem heild, hefði verið miklu réttara, að þjóðarheildin hefði lagt fram þá fúlgu, sem hér væri um að ræða, til þess að brúa bilið að þessu sinni. En hin leiðin, sem valin var, að ákveða það, að tiltekin grein sjávarútvegsins skuli bera þennan bagga og styrkja á þann hátt aðra starfsgrein, sem ég efast um fyrir mitt leyti að búi við lakari kjör heldur en sú, sem á að greiða, þegar almennt er lítið á málið, á móti því er ég algerlega, og ég hef varað við þeirri leið, sem hér er verið að leggja inn á, og ég vil benda á það, að hér kom fram í ræðu hv. formanns sjútvn. Nd., sem hér talaði næst á undan mér, hann lýsti því beinlínis yfir sem sinni almennu skoðun, að svo ætti að halda á málunum, að þegar ein grein, t.d. sjávarútvegsins, getur ekki risið undir sínum framleiðslukostnaði, eigi sú önnur grein sjávarútvegsins, sem kann að búa við betri kjör, að koma til hjálpar. Á móti þessu er ég algerlega og tel hér um mjög hættulega stefnu að ræða, ekki sízt vegna þess, að vitanlega verður þetta þannig, eins og nú er stofnað til, þá eru í mörgum tilfellum þeir, sem eiga í vök að verjast, eins og vissir síldarútvegsmenn eiga, látnir standa undir stuðningi til frystihúsanna almennt í landinu, þar sem eru innan veggja einnig þeir, sem búa við miklu betri rekstrarafkomu heldur en sumir síldveiðiútgerðarmenn gera.

Ef frv. þetta verður samþ. eins og það liggur fyrir, er óumdeilanlega að því stefnt að leggja þau gjöld á síldarafurðir, að verðið á hverju síldarmáli til bræðslu lækkar um 10 kr. frá því, sem nú er. Um þetta er ekki hægt að deila. Þessi tilfærsla nemur því, miðað við núverandi verðlagningu, enda hefur enginn reynt að neita þessu. Það hefur að vísu aðeins verið látið í það skína, svona eins og til þess að gera sinn hatt svolitið fegurri, að þessi skattur gæti vel komið til með að leggjast að einhverju leyti á síldarbræðslu í landinu, sem búið hafi við góða afkomu. En því fer alls fjarri að óbreyttum lögum. Það er ekki verið að leggja þennan skatt á einn eða neinn hátt á síldarbræðsluna í landinu, slíkt er hrein blekking. Verðlagningin á síld fer þannig fram, að þar er miðað við það að taka fullt tillit til þess verðs, sem fæst fyrir afurðirnar, og einnig til þeirra gjalda, sem viðurkennd eru sem útgjöld í rekstrinum, og útflutningsgjöldin eru þar viðurkennd fullkomlega sem útgjaldaliður, og ég efast ekkert um, að það verður eins og nú og það hefur verið, að útflutningsgjöldin verða hér dregin frá sem hver annar kostnaðarliður og síldarverðið verður miðað við það. Ef ætti að leggja þetta á síldarverksmiðjurnar í landinu, þyrfti að breyta lögum til þess.

Ég hef einnig bent á, að þessi nýi síldarskattur þýðir það, að þá eru útflutningsgjöldin á bræðslusíldarafurðum orðin svo há, að það nemur 40 kr. á hvert síldarmál, því að útflutningsgjöldin eru þá komin upp í 8%, sem mun vera algert einsdæmi, að leggja slíkan skatt á útflutningsvöru hjá nokkurri þjóð. Ég tel, að þessi skattur sé orðinn allt of hár og nái engri átt. Ég hef einnig bent á það, að þessi skattur, sem nemur 10 kr. á hvert síldarmál, mun jafngilda í kringum 8 þús. kr. meðaltalsskatti á hvern síldveiðisjómann í landinu á ári. Sumir þeirra auðvitað verða að borga allmiklu meira, þeir sem eru á miklum aflaskipum, en hinir geta borgað eitthvað nokkru minna. Þetta er býsna mikill skattur og það ekki sízt þegar til þess er tekið tillit, að áður er búið að leggja allháan skatt í þessum efnum á síldveiðisjómenn og síldarútgerðarmenn.

Ég hef líka dregið það fram í þessum umr., að svo er nú komið þessum útflutningsgjöldum, að það er gert ráð fyrir því, að frá síldarútveginum komi um 200 millj. kr. á ári í útflutningsgjöld af samtals 280 millj., eða sem sagt, að öll önnur útgerð greiði aðeins í útflutningsgjöld í kringum 80 millj. Hér er vitanlega farið að mismuna stórkostlega hinum ýmsu útgerðarþáttum. Þetta álít ég, að sé mjög varhugavert.

Það hefur verið minnzt á það hér í þessum umr., að fram hafi komið erindi frá Sjómannasambandinu og Farmannasambandinu, þar sem þessir aðilar óska eftir því að fá í sinn hlut nokkurn hluta af þessu háa útflutningagjaldi, og þeir hafa af skiljanlegum ástæðum þar borið sig saman við samtök útgerðarmanna, sem nú fá 0.8% af útflutningsgjaldinu, eða eins og nú er komið nokkuð á 3. millj. kr. á ári. Ég skal taka það fram, að það er auðvitað ofur eðlilegt, að samtök sjómanna, sem á óbeinan hátt verða að taka þátt í þessu útflutningsgjaldi, setji fram kröfur í þessa átt, ekki sízt þegar þessi gjöld hækka í sífellu. En í mínum augum dugir það ekki. Þó að svo yrði haldið á málinu, að samtök sjómanna fengju hér nokkurn hlut af þessu gjaldi, réttlætir það ekki gjaldið eigi að síður. Ég fyrir mitt leyti er jafnmikið á móti gjaldinu, þó að það væri ákveðið. En hitt get ég játað, að það væri jafnmikil sanngirni, að samtök sjómanna í landinu fái þarna nokkurn hluta af þessu gjaldi eins og samtök útgerðarmanna fá það. En hitt held ég líka alveg fráleitt, ef þannig yrði haldið á því máli, að Sjómannasambandið og Farmannasambandið fengju hluta af þessu gjaldi á svipaðan hátt og Landssamband ísl. útvegsmanna fær, en hins vegar yrði Alþýðusambandið skilið eftir, en innan þess vébanda er mikill meiri hl. sjómanna. Það er vitanlega ekki hægt að neita því, að utan Sjómannasambandsins og Farmannasambandsins er sá stóri hlut íslenzkra síldveiðisjómanna, þó að allmargi þeirra séu að vísu í þessum samtökum.

En ég geri ekki hér neina till. í þessa átt, af því að ég tel, að það eigi ekki að samþykkja þetta frv., það eigi að fella það, og það sé engu tapað við það að fella frv. Jafnvel þeir, sem telja, að það sé ekki hægt að gera fiskkaupendum í landinu þá skyldu að borga það fiskverð, sem ákveðið hefur verið, án stuðnings, þeir gætu þá vitanlega tekið það mál upp sérstaklega að finna leiðir til þess að styðja þá um þá fjárhæð, sem þetta frv. fjallar um. Og ég fyrir mitt leyti vildi taka þátt í því að reyna að finna einhverjar leiðir til þess að brúa þetta bil, því að það tel ég að skipti ekki höfuðmáli, hvort fiskkaupendur fá þennan styrk eða hvort þeim verður nú gert það að greiða þessa upphæð líka án nokkurs styrks á þessu ári.

Það er mín skoðun, að þegar slík vandamál koma upp eins og það, sem hér hefur nú orði til þess, að farið er inn á þessa braut, þegar svo hefur til tekizt, að framleiðslukostnaðurinn í landinu hefur vaxið svo mikið, að útflutning framleiðslan fær ekki undir risið, eigi slíkt vandamál að vera vandamál þjóðarheildarinnar. Þá beri vitanlega að koma útflutningsfram leiðslunni til stuðnings með almennum ráðstöfunum, með almennri tekjuöflun, sem flutt er þá yfir til þeirra, eftir því sem rétt þykir hverju sinni, en það beri að hafna með öllu þeirri leið, að þá eigi að velja einhverja aðra grein sjávar útvegsins, sem kann að vera aðeins ofan á í það skiptið, og leggja baggann á hana.

Ég hef bent á það, að þetta mál er ekki svo einfalt sem sumum kann að virðast í byrjun. Það verður ekki lengi, ef menn taka upp þetta se stefnu, hægt að binda sig við þessa ráðstöfun eina. Ég hef bent á það, að nú eru starfan í tvær n. á vegum ríkisstj. út af sérstökum vanda málum tiltekinna greina sjávarútvegsins. Það situr að störfum ákveðin n., sem fjallar um vandamál togaraflotans, og ég hygg, að það enginn vafi á því, að togaraflotinn eigi í nokkrum rekstrarerfiðleikum. Eftir hinni nýju stefnu á nú að leysa vandamál togaraflotans á þann hátt að kíkja eftir því, hvar getur fundizt í hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins einhver þáttur, sem e.t.v. er á jöfnuði eða kann að skila í einhverjum tilfellum einhverjum afgangi, og þá á að leggja skatt á þá grein togaraútgerðinni til stuðnings. Önnur n. er einnig starfandi á vegum ríkisstj., sem er að athuga um vandamál hinna minni vélbáta, af stærðinni frá 45 lestir upp í 120. Ég tel engan vafa heldur vera á því, að þar þurfi að koma til nokkur aðstoð, og þá á einnig að vera eftir þessari nýju leið aðferð n að finna út, á hvaða grein sjávarútvegsins eigi að leggja sérstakan skatt þessum aðilum til stuðnings. Ég er a.m.k. alveg viss um það, að þess verður ekki langt að bíða, að frystihúsaeigendur, sem sumir hverjir gera sig ánægða með þessa tilfærslu í dag, verða ekki ánægðir með það, þegar þeir verða heimsóttir með sé stakan skatt allt öðrum aðilum til stuðnings, því að auðvitað hlýtur það að leiða að því, að þeir verða skattlagðir innan skamma, nema þá sú leið verði einnig farin að velja þar úr aðeins

tiltekna aðila og skattleggja þá sérstaklega, en ekki fiskkaupendur alla.

Það hefur lítil áhrif á mig, þegar því er haldið fram, að hér sé ekki um neina skattlagningu að ræða. Það er að vísu ekki alveg ný skilgreining á þessum hlutum, hvað er skattlagning og hvað er ekki skattlagning. Nú er mönnum sagt: Þetta er ekki skattlagning, vegna þess að viss grein sjávarútvegsins á að bera þetta gjald og aðrar greinar sjávarútvegsins fá svo gjaldið til sín, hér er um millifærslu að ræða og þar af leiðandi er þetta ekki skattur. — Alveg á nákvæmlega sama hátt gætum við sagt, að útsvörin væru ekki neinn skattur, þar væri verið að leggja á ákveðna aðila í byggðarlaginu og dreifa svo þessum tekjum aftur út til sömu þegna á sama stað í öðru formi. Auðvitað er það skattlagning fyrir þá, sem verða að þola það, að samkv. þessum lagaákvæðum á að taka af þeim ákveðnar fjárfúlgur, sem þeir verða að greiða af höndum. Og sú upphæð á að flytjast í flestum tilfellum til allt annarra aðila.

Mín afstaða til frv. er sú, að ég legg til, að frv. verði fellt, og til vara vildi ég leggja það til, að þeir, sem standa að þessu frv., lærðu þó það á flutningi þessa máls og þeim umr., sem hér hafa farið fram, að þeir flyttu aldrei mál hér aftur, sem væri markað af sömu stefnu.