18.10.1965
Sameinað þing: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

1. mál, fjárlög 1966

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum síðasta ræðumanns um uppbætur á landbúnaðarvörur vil ég aðeins minna á, að bændur hafa ekki einu sinni haldið í horfinu hvað rauntekjur snertir undanfarið, því að verðbólgudraugurinn hefur tekið til sín meira en hækkun uppbótanna. Hækkun uppbótanna rekur því rætur sínar til verðbólgustefnu ríkisstj.

Varðandi dæmið um kaupfélög í Svíþjóð og söluskatt og verðlag væri gott fyrir hv. ræðumann að athuga, að þar í landi er samvinnuhreyfingin ekki lögð í einelti eins og hér.

Það vakti athygli í vor sem leið, að ríkisstj. hvarf af Alþ. án þess að gera grein fyrir afkomu ríkissjóðs árið 1964. Grunaði menn, að þetta kæmi ekki til af góðu, enda var farið að gefa í skyn þau furðulegu tíðindi, að greiðsluhalli hefði orðið á ríkisbúskapnum í fyrra. Um miðjan júlí í sumar sprakk svo blaðran, og var þá tilkynnt, að 220 millj. kr. greiðsluhalli hefði orðið, og fór þá fyrir borð eitt meginatriðið enn af því, sem ríkisstj. hafði gert að grundvelli stefnu sinnar, sem sé að hafa ríflegan greiðsluafgang hjá ríkissjóði, sem lagður væri inn í bankakerfið til að hressa upp á það, sem þeir kalla jafnvægi í efnahagsmálum. Veit ég, að ekki hafa allir gleymt því, hve roggin ríkisstj. var, þegar hún sagðist hafa lagt 100 millj. á bók.

Til þess að ná greiðsluafgangi hefur verið haugað á stórfelldari nýjum sköttum og álögum en nokkru sinni áður eru dæmi um. En nú kemur í ljós, að eyðslan vex enn meira en álögurnar, Þótt ótrúlegt megi telja, og svo kemur það til, sem óðaverðbólgan gleypir af ríkistekjunum í öllum hugsanlegum myndum. Segja má, að þetta sé orðið eins og að ausa sandi í botnlausa tunnu, og enn á þetta að halda áfram og vottar ekki fyrir neinni breytingu til bóta, en gefið helzt í skyn, að enn muni halli á ríkisbúskapnum á þessu ári, og enn eiga álögur að aukast og ríkisútgjöldin að vaxa með ofsahraða.

Ekki varð halli á ríkisbúskapnum árið 1964 vegna þess, að ríkistekjur brygðust, öðru nær, því að þær fóru 16.1% eða 313 millj. fram úr áætlun, en útgjöldin fóru bara 588 millj. fram úr áætlun, og slagar umframeyðslan ein út af fyrir sig því hátt í fjárl. öll, eins og þau voru, þegar núv. ríkisstj. tók við til þess að auka ráðdeild, sparnað og stöðva verðbólgu og dýrtíð. En því var öllu lofað.

Og nú liggur fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1966 og umr. að hefjast um það. Hafi einhverjir búizt við stefnubreytingu eða nýjum úrræðum til bóta við fjmrh.-skiptin, hafa þeir nú þegar orðið fyrir sárum vonbrigðum, því að í þessu frv. og því sem með fylgir, vottar ekki fyrir neinu slíku. En stjórnarliðið getur sjálfu sér um kennt, ef þau vonbrigði verða sárari en þau þyrftu að verða, því að það vakti tálvonir með því að dylgja um frammistöðu fyrrv. fjmrh. í sumar og þrástagast á, að nú væri kominn maður, sem mundi taka á öllu með festu og ráðdeild og beita sér fyrir aðkallandi sparnaðarráðstöfunum. Þessar sneiðar gat enginn misskilið, þar sem okkur hefur nú í 6 ár verið sagt frá hinum stórfelldu sparnaðarráðstöfunum, sem verið væri að framkvæma, enda þótt eyðslan færi látlaust vaxandi. Það var á hinn bóginn fróðlegt að heyra það játað nú við mannaskiptin í sumar, að þetta hafi verið skrum og óraunhæft það, sem mest áherzla var á lögð, eins og hæstv. fjmrh. játaði hér áðan, t.d. um fyrirkomulag skattamála.

Hitt er svo í rauninni aðallega skoplegt, að ráðdeildarplatan hefur verið sett á aftur og byrjað á byrjuninni, eins og hún hafi aldrei verið spiluð áður. En eftir á að hyggja er það kannske ekki sama platan, því að röddin er önnur, en þátturinn er nákvæmlega eins fyrir því. Byrjað er upp á nýtt að lofa hagsýslu og sparnaði, eins og það hafi aldrei áður verið gert, og nú á það að vera ný deild eða ný stofnun, en á undanförnum árum hefur verið varið millj. í það, sem kallað hefur verið hagsýsla, en árangurinn sést á ríkisrekstrinum og m. a. þessu fjárlagafrv. og játningum stjórnarliðsins sjálfs á þessu ári.

Áður en ég kem að því að ræða frv. að ráði, vil ég víkja að framkvæmd fjárl. á þessu ári. Á síðasta Alþ. voru álögur auknar um mörg hundruð millj., og var talið um jólaleytið í fyrravetur, að duga mundi, og þá hélt ríkisstj. vafalaust, að greiðsluafgangur væri í vændum. En rétt fyrir þinglokin í vor var skyndilega tilkynnt, að verklegar framkvæmdir yrðu skornar niður um 20% eða um fimmtung, því að draga yrði úr framkvæmdaspennunni, og vafasamt um afkomuhorfur ríkissjóðs þrátt fyrir allar nýju álögurnar og uppgripaframleiðslu. Engar sparnaðarráðstafanir komu á hinn bóginn til mála þá fremur en áður, og allar aðrar framkvæmdir en byggingar skóla, sjúkrahúsa, hafna og vega, svo að dæmi séu nefnd, skyldu halda áfram og ganga fyrir. Sýnir fátt betur en þetta, hvernig allt er á floti í verðbólgudíkinu og hvað það er, sem ríkisstj. lætur sitja á hakanum. Með brbl. var ákveðið að haga svo til, að ekki skyldi byrjað á neinum nýjum skólaframkvæmdum á þessu ári, sem alræmt er orðið. Var fjárl. sjálfum þannig breytt með brbl. í raun og veru, því að á þeim voru fjárveitingar til nýrra skólabygginga, eins og alltaf endranær. Vegáætluninni, sem samþ. hafði verið þá fyrir nokkrum dögum á Alþ., var raskað frá rótum með niðurskurði vegafjárins, og ekki liggur fyrir nein skýrsla um það enn, hvernig í henni var grautað né hvernig því verður við bjargað, sem niður datt af fjárveitingum til veganna á þessu ári.

Samkv. því fjárlagafrv., sem hér liggur nú fyrir, eiga ríkisútgjöldin að fara upp í 3800 millj. eða upp í 4000 millj. og vel það með vegáætluninni og verða þó miklu meiri vafalaust, því að verðbólgan heldur áfram að magnast. Hafa fjárl. nú nálega fimmfaldazt á 7 árum í höndum þeirra, sem hétu því sem fyrsta stefnuatriði að stöðva verðbólgu og dýrtíð og þar næst marglofuðu sparnaði og ráðdeild í ríkisrekstri og lækkuðum ríkisútgjöldum. Jafnframt láta þessir menn dynja yfir landsmenn yfirlýsingar frá sér um það, hve vel hafi tekizt að ná því marki, sem sett var. Eru margir vafalaust löngu saddir orðnir af slíkri óskammfeilni. Jafnhliða því sem verðbólgan hefur hækkað ríkisútgjöldin og bókstaflega étið upp sívaxandi álögur, hefur hvers konar skriffinnska, tildur og sóun í ríkisbúskapnum farið hraðvaxandi og aldrei nálgazt það, sem nú er, þótt oft hafi að sjálfsögðu verið pottur brotinn í þeim efnum. Ekki vottar fyrir stefnubreytingu, eins og ég sagði áðan, þótt ekki vanti yfirlýsingar um hið gagnstæða fremur en fyrri daginn. En þess í stað á enn að fara gömlu leiðina og hækka álögurnar. Nú á að margfalda eignarskattinn, hækka rafmagnsverðið hjá raforkuveitum ríkisins, sem verður sérskattur á rafmagn til þeirra, sem við þær skipta, hækka benzínskattinn, byrja að setja umferðarskatt á þjóðvegina sjálfa og leggja sérstakan skatt á alla farmiða til útlanda, enda þótt manni hafi skilizt það vera talinn einn merkasti árangur viðreisnarinnar, að meira væri farið til útlanda en áður. En auðvitað mátti þá svo sem búast við, að ríkisstj. stillti sig ekki lengi um að gera þessar ferðir að skattstofni, og sannast að segja líkt þeim að missa af sér þessa fjöður líka.

Það var ekki illa viðeigandi, að ríkisstj. valdi yfirlýsingu sinni um daginn að fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Fjölþættar nýjungar“. Enginn getur borið á móti því, að mikil fjölbreytni er í skattamálunum úr hendi hæstv. ríkisstj., og þá ekki sízt þegar þess er gætt, að áður hafði ríkisstj. beitt sér fyrir fjölþættum nýjungum í þeim málum. Má þar nefna almenna söluskattinn, bændaskattinn, launaskattinn, ríkisábyrgðarskattinn, iðnlánasjóðsgjaldið, aðgönguskattinn á veitingahúsunum, sérskatt á timbur, sérskatt á sement, sérskatt á steypustyrktarjárn og sérstakan skatt á útborguð laun iðnfyrirtækja. Verða þá nýju skattarnir 12, og hef ég þó líklega gleymt einhverjum. Annars var það eitt stefnuskráratriði þessarar ríkisstj. að gera skattakerfið einfaldara og fækka sköttum, og var því yfir lýst mjög hátíðlega. En það hefur orðið sama öfugmælið og margt annað. Ríkisstj. hefur af ótrúlegri elju ungað út nýjum sköttum af furðulegustu gerð. Eru menn nú farnir að hafa sér það til skemmtunar að halda getraunir um það, upp á hvaða nýjung í skattamálum ríkisstj. muni finna næst.

Það fer eðlilega um marga, þegar þeir hugsa til þess, að ríkisútgjöldin hafa nálega fimmfaldazt á 7 árum, og íhuga, með hversu miklu ofstæki þessu er haldið áfram, talið gott og lýst yfir sömu stefnu enn og boðaðar nýjar álögur. En það er þó verst af öllu, að þessar ískyggilegu staðreyndir eru ekki nema nokkur hluti af vandamálinu.

Steininn tekur alveg úr, þegar þess er gætt, að þrátt fyrir þessar gífurlegu álögur tekst ríkisstj. ekki að koma í framkvæmd þeirri lífsnauðsynlegu þjónustu af ríkisins hendi, sem verður að koma til, ef þjóðin á að geta lifað framvegis þróttmiklu menningarlífi í landinu. Niðurstaðan í þessu efni er svo ömurleg, að þótt við lifum nú við stórfelldari uppgrip en nokkru sinni áður og meiri álögur, þá tekst ekki að halda í horfinu með þjónustuframkvæmdir ríkisins, en safnast upp óleyst verkefni á þann hátt, að fljótlega mun draga þjóðina niður. Og þessi óleystu verkefni magna þann vanda, sem fyrir safnast á vegum ríkisstj. ár frá ári.

Víkjum lítið eitt að þessari hlið. Tökum skólamálin fyrst, en allir telja sig viðurkenna, að menntun sé undirstaða allra sannra framfara og tæknimenntun þar að auki töfralykillinn að efnalegri velgengni manna í sívaxandi mæli. En hér er þannig ástatt í skólamálum eftir 6 ára viðreisnarstjórn, að vísa verður hundruðum unglinga frá gagnfræðanámi, — meira að segja frá gagnfræðanámi, — og sjá þá allir, hvert framhaldið verður hjá því unga fólki, sem fyrir slíku verður.

Skólastjórar gagnfræðaskólanna hafa sumir í áheyrn alþjóðar með átakanlegum lýsingum gert kunnugt um það stríð, sem þeir standi í, til neyddir að neita ungu fólki um skólavist. Það er tví- og jafnvel þrísett í skólana, og ég hef það fyrir satt, að sumir bekkir séu beinlínis á hrakhólum og hafi hvergi fastan samastað. Upp á þetta ástand er svo haldið með því að skera niður framkvæmdir til skólabygginga um 20% á þessu ári og framkvæma það þannig að banna með brbl. að byrja á nýjum skólum. Það er sagt, að tvennt komi til og geri þetta óumflýjanlegt: Peningar séu ekki til og svo verði ofþensla, ef byrjað er á nýjum skólum. Líklega telur ríkisstj. það einhvers konar náttúrulögmál, að það séu einkum skólabyggingar og aðrar hliðstæðar framkvæmdir, sem valdið geti ofþenslu, því verði þær að víkja, en allt annað skuli hafa sinn gang. Þeim vífilengjum er beitt í þessu sambandi stundum, að nýjar skólabyggingar hafi þurft að stöðva til þess að koma þeim lengra áleiðis, sem voru í byggingu. En mundu menn telja það ofrausn, að hægt væri að halda áfram með skólabyggingar og byrja jafnframt á nýjum, eins og ráðgert var í fjárl. og ævinlega hefur verið gert og verður að gera, ef ekki á að skapast eyða í framkvæmdirnar? Ef til vill sýnir ekkert betur en ástandið í skólamálum og niðurskurður skólabygginganna, að skoða verður efnahags- og fjárfestingarmálin frá algerlega nýjum sjónarhól og taka þau nýjum tökum, og kem ég að því síðar. Á þessu fjárlfrv. er svo lægri fjárhæð veitt til barna- og gagnfræðaskólabygginga en var á fjárl. þessa árs. Ekki er betur ástatt með framhaldsskólana, en tíminn leyfir ekki að rekja það hér.

Þá vil ég nefna rannsóknarmálin, en allir vilja játa, að hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveganna eigi að vera ein traustasta undirstaða atvinnulífsins og þjóðarbúsins. Það vantar ekki yfirlýsingar um þetta úr stjórnarherbúðunum látlaust og sí og æ. En framkvæmdin? Ég nefni aðeins tvö dæmi. Bygging rannsóknarstofnunarinnar að Keldum var stöðvuð á þessu ári, líklega til þess að draga úr ofþenslunni. Landið á ekki enn þá rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins, og er þó fyrir æðilöngu búið að safna nægilegu fé til útborgunar í slíkt skip, ef tekið væri lán til kaupanna, eins og venja er, þegar önnur skip eru keypt. Ríkisstj. einnar mestu fiskveiðiþjóðar í heimi hefur ekki getað komið í framkvæmd útvegun á einu skipi, sem raunverulega er hæft til þess að framkvæma rannsóknir í þágu sjávarútvegsins.

Þá kem ég að hafnarmálunum. Á þessu ári voru ætlaðar 19½ millj. kr. til nýrra hafnargerða af 3½ milljarði, sem ríkisstj. innheimtir. Þetta þótti þó of mikið, því að það var lækkað um 20% niður í 15 millj. og 600 þús., og er við það sama látið sitja á fjárlfrv. Þetta þýðir, að hæsta framlag, sem ríkisstj. ætlar í einstakar hafnargerðir, verður í ár 560 þús. kr., — 560 þús. kr., það var ekki misheyrn. Þetta á að leggja fram af ríkisins hálfu, en margar hafnarframkvæmdir eru upp á 10–20 millj. og margar þar yfir. Menn sjá af þessu, hvernig þessum málum er komið. Framkvæmd hafnarlaganna er hreinlega að brotna niður í þessu öngþveiti, enda dregur ríkissjóður á eftir sér hala ógreiddra framlaga til hafnarmála, og framkvæmdir verða annaðhvort að stöðvast eða byggðarlögin að taka á sig óbærilega lausaskuldabagga til að brjótast áfram með hafnargerðirnar. Kominn er á fjárl. nýr póstur til greiðslu á lánum ríkisins vegna hafnarframlaganna af sinni hendi undanfarið, því að gripið hefur verið til þess að láta ríkissjóð taka lán í þessu skyni í stað þess að setja framlögin strax á fjárl. Eru nú þessar skuldagreiðslur byrjaðar að klípa af hafnarframlögunum, því að stjórnin setur þennan póst á hafnarmálakaflann í fjárl. Þannig er vegaféð nú líka étið upp í hraðvaxandi mæli í greiðslur af lánum, sem tekin hafa verið undanfarið til framkvæmda í vegamálum, og eru þessar skuldagreiðslur látnar minnka vegaframlögin.

Afleiðingar stjórnarstefnunnar og þess, hvernig komið er með ríkisbúskapinn, kemur einnig fram í því, að ekki er talið fært að leggja eina krónu umfram venju af 4 milljarða álögum til sérstakra umbóta á Vestfjörðum, heldur hver einasta króna tekin að láni, sem í það fer. Enn eru svo ráðgerðar lántökur til margvíslegra ríkisútgjalda, þrátt fyrir 4 milljarða álögur, sem duga ekki einu sinni til þess að halda í horfinu í skólamálum, heilbrigðismálum og öðrum málum, eins og hafnarmálum, svo að dæmi séu nefnd.

Ég vík þá að vegamálum nokkrum orðum. Eldri vegirnir ganga víða beinlínis úr sér vegna viðhaldsskorts. Sums staðar hefur ekki verið borið í þá árum saman, og eru þeir þá orðnir líkari urð en vegum og nálega ófærir, en umferðarþörfin eykst sífellt. Greiðslur af vegalánum ríkisins frá viðreisnarárunum gleypa bróðurpartinn af nýju benzíntekjunum, og verðbólgan tekur einnig sinn skammt, svo að vegamálin eru komin í sjálfheldu fullkomlega. Afskipti ríkisstj. á þessu ári af þessum vanda hafa verið þau að skera vegaframlög ríkissjóðs niður um 20%. Og nú í fjárlfrv. er lagt til að þurrka framlög til þjóðveganna alveg út af fjárl. Fyrir utan annað er þetta beint brot á því loforði, sem gefið var til stjórnarandstöðunnar, þegar fallizt var á benzínskattinn og vegalögin sett. Þá lofaði ríkisstj. því, að framlagið til vega á fjárl. skyldi ekki lækka niður fyrir 47 millj. kr. Stefna framsóknarmanna í þessum málum er á hinn bóginn m. a. í því fólgin, að til veganna skuli ganga allt það fé, sem lagt er á umferðina raunverulega. En nú skortir stórkostlega á, að svo sé. Er nú enn svo komið, að endurskoða þarf vegamálin frá rótum. Svo harkalega hefur fjármálaupplausnin leikið nýju vegalögin nú þegar. Ofan á þennan vanda bætist svo furðulegt ranglæti, sem innleitt hefur verið með því að útiloka ýmsa landshluta nálega alveg frá vegalántökum. En eins og stjórnin hefur haldið á vegamálunum, eiga þeir lítilla átaka að vænta í vegamálum, sem ekkert fá af lánsfénu. Þeirra bíður þá helzt það hlutskipti að láta vegafé sitt hröðum skrefum í greiðslur af lánum ríkisins.

Í flugmálum er ástandið í stuttu máli þannig, að flugvellirnir geta brátt alls ekki veitt flugflotanum þá þjónustu, sem hann þarf, og mætti nefna um það átakanleg dæmi, sem of langt er að rekja.

Strandferðamálin horfa þannig og hafa horft undanfarin ár, að Skipaútgerðin hefur ekki fengið það fjármagn, sem þurft hefur til þess að geta annazt vöruflutninga út um land. Hefur þetta m. a. valdið atvinnurekstri víðs vegar um landið ómældu, en stórfelldu tjóni. Strandferðirnar eru reknar á áratugagömlum, úreltum skipum, og ríkisstj. hefur þverskallazt við öllum till. um að kaupa ný skip og hentug til þessarar lífsnauðsynlegu þjónustu. Afleiðingin af þessari stefnu verður því meiri og meiri halli á rekstrinum, eins og menn heyrðu hér áðan fjmrh. kvarta yfir, og verri og verri strandferðaþjónusta.

Hliðstæðar sögur er að segja af öðrum þýðingarmestu þjónustugreinum ríkisins, svo sem heilbrigðismálum og raforkumálum, að ógleymdum félagsheimilasjóðnum. Má nefna, að hin stærri sjúkrahús eru áratug eða meira í smíðum og nálega úrelt orðin að sumu leyti að dómi lækna, þegar þeim er lokið, því að sjúkrahúsin verða að víkja fyrir öðrum framkvæmdum, sem líklega þykja þarfari.

Ekkert meiri háttar raforkuver hefur verið reist á valdatíma þessarar stjórnar og raforkuskortur orðinn til stórtjóns. Ný rafvæðingaráætlun fyrir dreifbýlið fæst ekki gerð, og með niðurskurði er raskað þeim áætlunum, sem búið var að gera.

Framsóknarmenn hafa árum saman barizt harðri baráttu fyrir því að koma upp sterkri stofnun með veruleg fjárráð til að vinna gegn þeim þjóðarvoða, að nálega allir landsmenn flytjist á einn stað á landinu og heil byggðarlög leggist í auðn. Frv. okkar um þetta hefur verið vísað frá ár eftir ár og framan af með þeim rökstuðningi, að þær 10 millj., sem veittar eru á fjárl. til atvinnubóta, væru fullnægjandi ráðstöfun í þessu efni. Nýlega kom þó út úr þessari baráttu Vestfjarðaáætlunin og farið að lofa meiru. En á þessu fjárlfrv., sem gerir ráð fyrir 3800 millj. kr. álögum, vottar ekki fyrir neinum ráðstöfunum í þessa átt, nema ef telja skyldi hækkun á atvinnubótafé, sem svarar andvirði eins lítils mótorbáts, sem næði þó ekki þeirri stærð að geta farið á síld. Á hinn bóginn vinna yfirvöldin markvisst að því að koma upp stórfelldum atvinnurekstri útlendinga og setja hann niður, þar sem atvinnurekstur er öflugastur fyrir, og stækka þannig hið geigvænlega byggðavandamál. Ætlar ríkisstj. að fara í þessu sem í fleiru alveg öfugt að við það, sem nú er gert í öðrum menningarlöndum. Er svo ósleitilega í þetta gengið, að í engu er sinnt tillögum framsóknarmanna um það, að komi stóriðja til greina, þá verði hún staðsett þannig, að hún stuðli að eðlilegu jafnvægi í byggð landsins.

Ég tel mig hafa sýnt fram á, að í þessu fjárlfrv. speglast með ömurlegum hætti sá stórfelldi vandi, sem stjórnarstefnan hefur skapað, sem m. a. kemur fram í því, að ríkinu tekst ekki einu sinni að halda í horfinu með nauðsynlegustu þjónustu og framkvæmdir, þrátt fyrir uppgrip og góðæri og mikla framleiðslu. Og þessar staðreyndir blasa við, þrátt fyrir gegndarlausar álögur í öllum hugsanlegum myndum, sem komast munu á næsta ári upp í 4000 millj., eins og ég hef bent á.

Höfuðeinkenni fjárlagafrv. eru vaxandi álögur og minnkandi framlög til þýðingarmestu framfaramálanna. Sívaxandi eyðsla og tildur í ríkisrekstrinum eru þarna að verki, og verðbólgudraugurinn tekur sitt, en hann lifir góðu lífi, meðan stjórnarstefnunni er haldið. Ráðherrar reyna stundum að draga athygli landsmanna frá þessu hættulega ástandi með því að benda á, að hærri fjárhæðir í krónutölu séu veittar nú en var fyrir 7–10 árum til ýmissa mála. Slíkur málflutningur er ósæmilegur og vífilengjur einar. Það eitt skiptir máli, hvernig nú tekst að leysa þessi verkefni í menntamálum, samgöngumálum, rannsóknarmálum og öðrum efnum, miðað við núverandi ástand. Það stýrir ekki góðri lukku, að ráðherrar snúi andlitum aftur, en samanburður af þessu tagi bendir í þá átt, að svo sé, og er þá ekki von, að vel fari.

Við sjáum, hvernig þessi stefna fer með framkvæmdagetu ríkisins. En hvað er þá um almenning? Það er skemmst af því að segja, að kaupmáttur tímakaups t.d. hefur ekki hækkað, heldur lækkað síðan 1959, og líklega er Ísland eina landið í Evrópu, sem þannig hefur verið stjórnað. Ég minntist áðan á afkomu bændanna.

En einhverjir græða á óðaverðbólgunni og ná til sín ósmáum fúlgum. Það sjáum við m. a. á eyðslunni og fjárfestingunni í landinu, sem auðvitað hefur á sér öll verstu einkenni verðbólgufjárfestingar, en henni fylgir jafnan gífurleg sóun fyrir þjóðarbúin. Það sýnir svo bezt, hvert stefnir með þessu lagi, að þrátt fyrir gífurlega fjárfestingu og þótt ríkisstj. minnki skólabyggingar, vegalagningar, sjúkrahúsabyggingar og fleiri þess háttar framkvæmdir, þá versnar ástandið í húsnæðismálum. Sjaldan hefur verið verra að fá leiguíbúðir en nú og leigan aldrei gífurlegri, að maður tali nú ekki um byggingarkostnaðinn.

Þessi tröllaslagur í fjárfestingunni og eyðslunni, sem m. a. byggist á beinum ótta við enn vaxandi verðbólgu og hreinlega á vantrausti á ríkisstj. og hennar úrræðum, hefur svo leitt til stórfelldra vandræða fyrir sjálfa framleiðsluna, því að vinnuaflið sogast frá framleiðslunni og yfir til þeirra, sem í verðbólguflóðinu komast yfir peninga og í dauðans ofboði leggja peningana í fast, eins og það er kallað. Svo rammt hefur kveðið að þessu, að ekki hefur einu sinni verið hægt á stundum að landa afla þeim, sem skip og bátar hafa borið að landi, né vinna úr aflanum, og bjóða hefur orðið út börnunum, til þess að unnt væri að framkvæma lífsnauðsynlega vöruflutninga.

Auðvitað verður framleiðslan undir í samkeppninni við verðbólgufjárfestinguna um vinnuaflið og annað enda stendur ríkisstj. röngu megin, því aðferðir hennar til að ráða bót á þessu eru þær að draga úr almennum bankaútlánum og leggja á nýjar álögur. En þessar ráðstafanir koma einmitt harðast niður á framleiðslu- og iðnaðarfyrirtækjum, og er rekstrarfjárskorturinn, sem af þessum læknisaðferðum leiðir, lengi búinn að vera sívaxandi vandamál hjá fjölda fyrirtækja í landinu. En þeir, sem gera út á verðbólguna, blómgast æ meir við ráðstafanir ríkisstj., og upplausnarkapphlaupið magnast.

Við þessar aðstæður beinist svo aðaláhugi ríkisstj. að því að fá erlendan auðhring til að ráðast í mannfrekar og miklar framkvæmdir og þá einmitt þar í landinu, sem orrustan er hörðust í þessari viðureign. Jafnframt heldur ríkisstj. því blákalt fram, að svona verði þetta að vera, þetta sé ágætt og alveg eins og hún ætlaðist til, enda verði haldið svona áfram. Önnur leið, önnur stefna sé ekki til, og allt tal um slíkt sé blekkingar eða sprottið af illvilja eða öðru verra.

Þeir segjast geta haldið áfram, þ.e.a.s. haldið svona áfram, ef þeir fái nýju skattana sína eins og vant er, svo einfalt sé þetta. En ætli þeim fari ekki í sannleika sagt fækkandi, sem vilja láta trúa Þessari ríkisstj. fyrir meiri peningum til að halda áfram á þennan hátt? Ég held það. Ég held, að það þýði ekki að segja mönnum, að svona verði þetta að vera, önnur leið sé ekki til, enda sýna viðbrögð stjórnarflokkanna, að þeir eru farnir að skilja þetta og óttast þetta, því að með öðru móti verður ekki skilið það ofboð, sem grípur stjórnarblöðin, þegar bent er á aðrar leiðir.

Úrræði ríkisstj. eru þau að hækka álögurnar látlaust, meðan hægt er að draga úr kaupgetu, láta þjónustuframkvæmdir ríkisins víkja og herða lánsfjárhöftin, sem m. a. kemur fram, eins og ég sagði áðan, í óbærilegum rekstrarfjárskorti fyrirtækja. Það er þessi stefna, sem heldur hringekjunni gangandi, og meðan þessu fer fram, heldur hún áfram að snúast. Þetta má ekki lengur svo til ganga.

Það verður að ræða þessi mál hreinskilnislega frá rótum. Það er öllum skylt að gera, en leggja niður vífilengjur og útúrsnúninga. Ástandið er það alvarlegt, að skætingur á ekki við. Hér verða að koma til ný viðhorf og nýjar leiðir. Það verður að hugsa öðruvísi, tala öðruvísi og vinna öðruvísi en nú er gert við Lækjartorg. Það verður að ganga að kjarna þessara mála og rekja sig út frá honum. Grundvöllurinn verður að vera sá að gera sér grein fyrir því, hvernig þjóðin á að beita framkvæmdaafli sínu, vinnu og vélaafli, hver séu þýðingarmestu verkefnin, sem þarf að leysa á Þjóðarbúinu til að efla þróttmikið atvinnu- og menningarlíf í landinu. Þá kröfu verður að gera, að hægt sé að láta sitja fyrir að vinna þau verk á þjóðarbúinu, sem þegar fram í sækir eru undirstaða nálega allra annarra verka. Má í því sambandi minna á skólamál, heilbrigðismál, rannsóknir og tilraunastörf og samgöngur á sjó og landi sem dæmi, en fjöldamargt fleira kemur til.

Ekki má sætta sig við það lengur, að þýðingarmikil framleiðslustarfsemi í landinu sé í mörgum greinum lömuð og á ringulreið vegna skorts á mannafla og rekstrarfé, en verðbólguframkvæmdir sogi til sín vinnuaflið. Menn mega ekki halda, að hægt verði að leysa þessi höfuðmálefni með nýjum álögum, meiri lánsfjárhöftum, minnkuðu rekstrarfé og ráðstöfunum til þess að halda kaupmætti kaupgjaldsins óbreyttum, þrátt fyrir hækkun þjóðartekna, eða með því að þjarma að bændum.

Það verður að fara aðrar leiðir og nálgast þessi mál frá nýjum sjónarhól, endurskoða þau frá rótum, og grundvöllurinn verður að vera áætlun um framkvæmdaafl þjóðarinnar og hvernig því skuli beita, til þess að þau verkefni sitji fyrir, sem mesta þýðingu hafa fyrir þjóðarbúið og almannaheill. Með því móti verður að tryggja, að þýðingarmestu þjónustuframkvæmdir verði framkvæmdar og sitji ekki á hakanum og að sjálfri framleiðslunni verði ætlað það svigrúm, sem hún þarf til þess að geta notið sín. Verðbólgan verður ekki læknuð með öðrum aðferðum en þessum, því að ekki eiga aðrar aðferðir að koma til mála en þær, sem leiða til fullrar atvinnu og fyllstu nýtingar vinnuaflsins. Slíka áætlun um skynsamlega niðurröðun verka á þjóðarbúinu verður síðan að framkvæma. Koma í því sambandi ýmsar aðferðir til greina, sem ákvarðaðar yrðu í einstökum atriðum, þegar fram kæmi og fyrir lægi, hvernig verkefnin, sem mest á liggur, koma heim og saman við það vinnu- og vélaafl. sem þjóðin hefur ráð á til rekstrar og nýrra framkvæmda, og hvað hægt er að leggja í, án þess að ofþensla og verðbólga komi til. Þegar þetta lægi fyrir, yrði skýrara en áður, hvað gera þyrfti til að tryggja framkvæmd þessarar stefnu og til að ná þeim markmiðum, sem sett hefðu verið, en hitt yrði að bíða, sem minna lægi á.

Þetta er það, sem næstu nágrannaþjóðir okkar sumar eru að gera núna. Þetta er „hin leiðin“, meginkjarni hennar. En fjölmargt annað kemur til, svo sem öflug og jákvæð samvinna ríkisvaldsins, almannasamtaka og einkarekstrarins um val verkefna og um nýjar leiðir í atvinnurekstri og framleiðni og kjaramálum. Einn þáttur yrði endurskoðun á öllu starfrækslukerfi ríkissjóðs frá rótum, afnám tildurs og sóunar í margs konar myndum. Og þannig mætti rekja lengi einstaka þætti hinnar nýju stefnu, sem verður að taka. En meginkjarni stefnunnar verður að vera áætlun um framkvæmdaafl þjóðarinnar og hvernig því skuli beita og hvernig það megi efla og framkvæmd slíkrar áætlunar.

En við búum við ringulreið, ráðleysi og óðaverðbólgu, og í kjölfarinu þróast vaxandi spilling í öllu fjármála- og viðskiptalífi landsins, sem er að verða þjóðarböl. Valdhafarnir hafa samt engin ný úrræði í huga, hvað þá í framkvæmd, en segja, að ástandið sé ekki aðeins viðunandi, heldur eins og gert hafi verið ráð fyrir, og stefnan skuli vera óbreytt áfram, enda sé „hin leiðin“, önnur leið ekki til.

Ég kalla það kjark að lýsa slíku yfir. En betra væri fyrir landsmenn, að hæstv. ríkisstj. hefði kjark til að játa það, sem allir sjá, og kjark til að horfast í augu við þá staðreynd, að hún hefur ekki þá tiltrú né það traust meðal landsmanna, að hún hafi rétt til að halda svona áfram. Og sú leið, sem farin er, leiðir ekki að viðunandi marki. Um það er reynslan ólygnust. Um þetta ætti ekki að þurfa að deila.