28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Einar Guðfinnsson:

Herra forseti. Aðrir þdm. Frv. til l. um útflutningsgjald sjávarafurða, sem hér um ræðir, felur í sér talverðar breytingar frá þeim l., sem nú eru í gildi um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Á s.l. hausti, þegar verðlagsráð sjávarútvegsins fjallaði um fiskverð á núverandi vertíð, kom í ljós, að útgerðin þurfti á allverulegri hækkun að halda á fiskverði til þess að geta staðið undir hækkuðum tilkostnaði. Þá var það einnig ljóst, að fiskiðnaðurinn í landi var ekki fær um að taka á sig miklar hækkanir á fiskverði ofan á aðrar hækkanir, sem orðið hafa á rekstrarkostnaði, síðan fiskverð var siðast ákveðið. Skv. núgildandi l. er tekið af flestum fiskafurðum útflutningsgjald, sem nemur 5.6% af fob.-verði, og getur gjaldið numið 1500 kr. á lest af fullunninni vöru í vandaðar pakkningar, t.d. þorsk- og ýsuflökum. Ef um er að ræða lúðu í fínum pakkningum, getur það verið 2500 kr. Ef það er frosin rækja, getur það verið 6—7 þús. kr. á smálest. Þetta hefur alltaf þótt ósanngjarn skattur og beinlínis hættulegur, því að það er verið að refsa þeim, sem vinna vandaða vöru úr góðum fiski í dýrar umbúðir. Það er einnig kunnara en frá þurfi að segja, að þróunin í öllum löndum er sú, að sala á bolfiski og grófum pakkningum fer minnkandi á kostnað vandaðri og finni pakkninga, jafnvel tilbúinna fiskrétta. Á þessu sviði eigum við í stöðugri samkeppni við erlenda framleiðendur. Hár útflutningsskattur hér heima ofan á innflutningstolla í markaðslöndum getur þá ráðið úrslitum um það, hvort við verðum samkeppnisfærir eða ekki. Útflutningsgjaldið af umbúðum einum saman getur numið 200 kr. á hverja smálest. Það er því, eins og gjaldið hefur verið tekið, þjóðhættulegt að halda því áfram, enda er nú komið frv. um breytingu á því, því að það getur verkað þannig, að við neyðumst til að hætta að vinna í þessar dýrmætu pakkningar, sem eru þó nauðsynlegar fyrir fiskmarkaðinn, ef við eigum að halda velli.

Frv. það sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að í stað þess að taka skatt af útflutningsverðmæti komi skattur af útflutningsmagni. Ég hygg, að allir geti verið sammála um það, að sú skattlagning sé þjóðhagslega betri, einkum núna, þegar línuveiðar og aðrar veiðiaðferðir, sem gefa gæðafisk, eiga í vök að verjast. Einhverjar ráðstafanir verður að gera til þess, að þær leggist ekki alveg niður. Í því sambandi vil ég leggja áherzlu á, að fiskgæðum hefur hrakað á undanförnum árum vegna aukinnar neta- og nótaveiði. Þessi öfugþróun getur leitt til þess, að við getum ekki lengur státað af því á erlendum vettvangi, að íslenzkur fiskur sé betri vara en fiskur keppinautanna. Við getum ekki lengur selt hann á hærra verði. Útflytjendur freðfisks hafa á undanförnum árum stöðugt verið að benda á, hversu hættuleg þessi skattlagning er, hversu hættuleg þessi þróun er og hversu nauðsynlegt sé að breyta hér til um.

Með þeim breytingum á útflutningsgjaldinu, sem hér um ræðir, er gert ráð fyrir auknum álögum á síldariðnaðinn, og þykir mér það slæmt, að ekki skuli hafa fundizt aðrar leiðir. En það er eins og alltaf, að allar álögur verða að koma á sjávarútveginn.

Ég tel, að frv. það, sem hér liggur fyrir, stefni í rétta átt, og legg til, að það verði samþ. með þeim brtt., sem komið hafa frá meiri hl. sjútvn.