28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér, og ég vænti þess, að viðkomandi samtök sjómanna geti vel við unað þau málalok, sem þeirra erindi hafa fengið.

Það hefur komið fram hjá frsm., sem hér hafa talað, beggja minni hl., að þeir eru efnislega sammála þeim erindum, sem fram komu, þótt hins vegar þeir hafi báðir, að mig minnir, tekið fram, að þeir vildu láta þriðja aðilann koma inn í þetta sem stóran samningsaðila sjómanna. En þar sem ég lýsti því yfir í sjútvn., þegar málið var rætt þar, að ég væri ekki á þessu stigi samþykkur því, vildi ég gera nokkra frekari grein fyrir því, hvers vegna ég sé það ekki.

Sjómannasamband Íslands er lögformlegur aðili innan A.S.Í. og hefur innan sinna vébanda sjómannafélög, sem eru hér á Faxaflóasvæðinu. Það hefur staðið til nú að undanförnu og mun að öllum líkindum verða búið að ganga frá því á komanda hausti, að fleiri sjómannafélög komi inn í sambandið, sem er í fullu samræmi við þær skipulagsbreytingar og stefnu, sem skipulagsmál A.S.Í. hafa verið að taka á undanförnum árum.

Eins og flestir alþm. vita, hafa verið innan A.S.Í. mikil pólitísk átök á undanförnum árum. Hins vegar og vegna þeirra meðfram hafa skipulagsmál sambandanna komizt í þann farveg, sem þau eru nú. En þrátt fyrir það hefur blessunarlega til tekizt á síðustu árum, að það hefur tekizt að ná samkomulagi um það, ég mundi segja hjá allflestum aðilum innan A.S.Í. að fara ákveðnar leiðir. Það hafa verið stofnuð landssambönd, Verkamannasamband t.d. meðal annarra, sem eru byggð upp á nákvæmlega sama veg og Sjómannasamband Íslands, en það var annað landssambandið, sem stofnað var innan A.S.Í. Ég er hræddur um, að ef slíkum fjárupphæðum sem hér er um að ræða, sem ég held að aliflestir viðurkenni að sjómenn eða samtök þeirra eigi jafnmikla kröfu til og útgerðarmenn, eins og hér hefur komið fram og elns í erindum þeirra, — ég er hræddur um, að ef ætti að fara að skipta þessu í marga staði, gæti það haft mjög slæm áhrif á æskilega þróun innan verkslýðssamtakanna.

Hinn aðilinn, sem sækir um, að við þessu verði orðið, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, þetta eru landssamtök, sem hafa innan sinna vébanda öll yfirmannasamtök á íslenzka flotanum, og það má segja, að innan Sjómannasambandsins finnist einnig slík samtök.

Um málið sjálft vil ég taka það fram, að ég er samþykkur frv. og mun greiða því atkvæði mitt. Ég tel, að kannske enginn geri það með glöðu geði að vera að taka fé frá síldarsjómönnum og flytja það yfir til hinna, — við getum sagt, að það sé verið að því. Það er verið að styrkja bolfiskveiðarnar. Það er verið að styðja að því, að okkar þýðingarmikli fiskiðnaður haldist og vonandi vaxi og komi ekki aðeins þeim, sem eru við hann að vinna í dag, að notum, heldur og þeim, sem stunda síldveiðar í dag og eiga eftir að snúa sér að hinni greininni á komandi árum, auk þess sem í mörgum tilfellum er þarna aðeins verið að flytja úr hægri vasanum yfir í þann vinstri.

Ég hefði talið, að hv. 5. þm. Austf. hefði eins getað snúið sér til mín, þegar hann flutti sína smekklegu ræðu fyrir helgina, er hann bar fulltrúum sjómannasamtakanna það á brýn, að þeir væru að fara fram á mútufé í sambandi við sin tilmæli. Ég á sæti í stjórn stærsta sjómannafélags hér á landi, og við höfum rætt þetta í okkar félagi og stjórn sjómannafélagsins og trúnaðarmannaráð eru samþykk því, að þessi leið sé farin.

Ég vil svo enn taka það fram, sem ég tók fram í upphafi þessa stutta máls mína, að ég vil þakka sjútvmrh. og ríkisstj. fyrir þá yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. flutti hér áðan, og ég tel. , eins og ég sagði einnig, að sjómannasamtökin geti vel unað við þessi málalok að sinni.