28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins út af orðum hv. 5. þm. Austf., til þess að það sé ekki óleiðrétt hér í hv. þd. með þau orð, sem hann lét falla í sinni ræðu nú siðast, að Það væru miklu fleiri sjómenn innan A.S.Í. en Sjómannasambands Íslands.

Í Farmannasambandinu og Sjómannasambandinu eru nú samtals félagsbundnir um 4 þús. fiskimenn. Það er oft talað um, að á öllu Íslandi séu um 6 þús. fiskimenn, og þar í er auðvitað meðtalinn allur sá mikli fjöldi, sem ekki er félagsbundinn, þannig að við getum aldrei komizt fram hjá því, að innan A.S.Í. eru færri sjómenn en innan Sjómannasambandsins. Þar fyrir utan er þetta auðvitað skakkt orðalag hjá okkur báðum, því að allir, sem eru í Sjómannasambandinu, eru í A.S.Í.

Nú í vetur var gerður undir forustu Sjómannasambandsins vertíðarsamningur. A.S.Í. kom þar hvergi nærri. En hins vegar tóku þátt í þessum samningum með Sjómannasambandinu félögin frá Breiðafirði, sjómannafélögin á Akureyri og svo verkalýðsfélag Dalvíkur. Og þannig stendur það af sér í dag, að jafnvel í Vestmannaeyjum, sem hafa þó sérstakt sjómannafélag, er farið að skrá á suma báta þar upp á sömu samninga og Sjómannasamband Íslands gerir. Þar fyrir utan eru innan Sjómannasambands Íslands allir togararnir, þannig að það er Sjómannasambandið, sem gerir samninga fyrir alla togarana, hvaðan sem þeir eru af landinu, þannig að ég held, að það fari ekkert á milli mála, hver sé forustuaðilinn á þessu sviði, enda er það, held ég, af öllum talið mjög eðlilegt og hefur ekkert farið á millí mála, þó að menn hafi haft mismunandi skoðanir pólitískt, af þeim, sem hafa með A.S.Í. að gera, að þetta sé eðlileg þróun og nauðsynleg þróun, að það sé sjómannasamband, sem taki við þeim verkefnum, sem hefur verið skipt á allt of margar hendur fram til þessa.