28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil segja eins og hv. síðasti ræðumaður, að til þess að það verði ekki óleiðrétt hér í d., vil ég taka það fram, að það er engan veginn rétt hjá honum, þegar hann segir, að Sjómannasambandið sé byggt upp á nákvæmlega sama hátt og Verkamannasambandið. Hér er nefnilega á alveg reginmunur, og það er þess vegna, sem Sjómannasambandið takmarkast aðeins við Faxaflóa og hefur ekki náð út fyrir hann, en hins vegar Verkamannasambandið með félög um allt land. Ég ætla ekki að fara að hafa hér neinn fræðslufyrirlestur um skipulagsmálin, en þetta er staðreynd, og það liggur einfaldlega í því, að Sjómannasambandið hefur sömu aðild að A.S.Í. og hvert annað félag í landinu, hvert annað verkalýðsfélag. M.a. kýs Sjómannasambandið fulltrúa til alþýðusambandsþings á sama hátt og félag. Ég hygg, að þeir, sem eitthvað hafa fylgzt með málum í verkalýðshreyfingunni, skilji, hvað slíkir hlutir hafa að segja. Hins vegar er Verkamannasambandið á álit annan hátt aðili, og hvert einasta félag innan þess kýs sína fulltrúa til A.S.Í., eins og það hefur gert áður, en Verkamannasambandið sem slíkt kýs ekki fulltrúa þangað. Þetta er sá reginmunur, sem á er orðinn.

Mér skildist á hv. 7. þm. Reykv. áðan, að á þessu mundi verða breyting og það væri fyrirhuguð breyting á þessum málum. Það væri mjög gott. Ég er honum sammála um það, að Sjómannasambandið á að byggja upp sem landssamtök, en til þess þarf að breyta því.

Það er auðvitað alveg augljóst mál, að tekjur eins og hér er rætt um til Sjómannasambandsins, eins og það er í dag, eru ekki nema til hluta af þeim fiskimönnum, sem afla þess fjár, sem þarna er verið að taka í hendur ákveðinna samtaka. Það er algerlega augljóst, og að mínum dómi, ef farið verður inn á þetta, er alveg nauðsynlegt, að það verði gert á þann hátt, að það nái til allra fiskimanna a.m.k. Í Farmannasambandinu er hins vegar — og reyndar í Sjómannasambandinu líka — æðistór hópur, sem ekki eru fiskimenn. Það á ekki að taka af fiskimönnunum, eins og hér er verið að gera núna, til þess að leggja til samtökum farmanna, án þess þó að fiskimenn gætu notið þess allir, allir fiskimenn í landinu. Ég held, að þegar um það er að ræða að styrkja samtökin fjárhagslega á þennan eða kannske svipaðan hátt, verði að gæta þess, að þar sé fyllsta réttlæti ríkjandi.