30.11.1965
Neðri deild: 24. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

4. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar með shlj. atkv. Frv. er hvorki mikið né þungt að vöxtum, og þarf þess vegna ekki mikillar framsöguræðu við til skýringar á því, en öllum hefur verið augljóst síðastliðin ár, að tekjur Bjargráðasjóðs Íslands hafa verið of litlar til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum sjóðsins. Berlegast kom þessi vanmáttur sjóðsins í ljós nú á þessu hausti, þegar nauðsynlegt reyndist að hlaupa undir bagga með bændum á Austurlandi vegna hins mikla grasbrests þar vegna kalsins. Nauðsynlegt reyndist til úrlausnar þessu eina vandamáli, að sjóðurinn tæki 3 millj. kr. lán, sem Búnaðarbankinn veitti sjóðnum.

Með hliðsjón af framansögðu ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir helmingshækkun á framlögum til bjargráðasjóðs, og er frv. flutt til staðfestingar þeirri ákvörðun. Í gildandi lögum er framlag til sjóðsins 5 kr. af hverjum íbúa bæjar- og sveitarfélaga og jafnhátt mótframlag ríkissjóðs. 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, að framlögin verði hækkuð úr 5 kr. í 10 kr. af hverjum íbúa frá hvorum aðila um sig. Með samþykkt frv. ættu verulega að aukast möguleikar sjóðsins til að geta í ríkara mæli staðið við fjárskuldbindingar sínar og greitt niður áfallin lán.

Bjargráðasjóður Íslands hefur á starfsferli sínum gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki í félagslegri samhjálp þrátt fyrir mjög takmarkaða fjárhagslega getu. Stjórn sjóðsins mun fúslega veita þn. þeirri, sem málið fær til meðferðar, allar nánari upplýsingar um starfshætti sjóðsins og fjárhagslega aðstöðu hans nú, verði þess óskað.

Það er von mín, að mál þetta fái greiðan framgang hér í hv. þd. Sveitarfélögunum og ríkissjóði er nauðsynlegt að fá sem fyrst vitneskju um endanlega afgreiðslu málsins vegna fjárhagsáætlana sinna og áður en fjárlög verða afgreidd hér endanlega á Alþ.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.