25.10.1965
Neðri deild: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur nú endurflutt frv. það, sem flutt var í fyrra um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, en það var þá ekki útrætt. Er frv. flutt núna með fáeinum breytingum.

Þegar fjallað var um mál þetta í nefnd á s.l. vetri, voru menn á einu máli um, að ávinningur væri að frv. sem slíku. Hins vegar var nokkur ágreiningur um tvö meginatriði. Í allshn. varð enginn ágreiningur um meginefni frv., þ.e. að ríkisborgararéttur skuli vera skilyrði fyrir eignarrétti og afnotarétti fasteigna. Slík tilhögun hefur verið um árabil í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og á tvímælalaust enn frekar við hér á landi. Hins vegar varð ágreiningur um það atriði frv., eins og það var þá, að allt að helmingur hlutafjár í hlutafélögum gæti verið í eigu erlendra ríkisborgara. Fulltrúar Framsfl. lögðu til, að minnst 75% hlutafjár skyldu vera í eigu íslenzkra ríkisborgara. Fyrir hönd Alþb. lagði ég aftur á móti til, að allt hlutaféð skyldi vera í eigu íslenzkra ríkisborgara og Íslendingar færu með öll atkvæði á hlutahafafundum. Var þá með þeirri tillögu gert ráð fyrir því, að sérstaka lagasetningu þyrfti hverju sinni, ef út af ætti að bregða. Í öðru lagi töldu minni hlutar nefndarinnar, fulltrúar Framsfl. og fulltrúar Alþb., mjög óeðlilegt, að þrátt fyrir þá takmörkun á eignarrétti útlendinga, sem í lögunum felst, skyldi ráðh. vera í sjálfsvald sett að veita ótakmarkaðar undanþágur frá lögunum.

Nú þegar frv. er endurflutt, hafa orðið á því nokkrar breytingar, eins og hæstv. dómsmrh. hefur gert grein fyrir. Hæstv. ríkisstj. hefur fallizt á að hækka lágmarkseign íslenzkra ríkisborgara í hlutafélögum, og skulu nú minnst 80% hlutafjár vera í eigu Íslendinga. Þessi breyting er vitaskuld spor í rétta átt að okkar áliti. En hún er þó meiri í orði en á borði. Eins og fram kom, er enn gert ráð fyrir því, að allt að helmingur atkv. á hluthafafundum geti verið í höndum erlendra ríkisborgara. Ég vil geta þess til samanburðar, að í greinargerð fyrir þessu stjórnarfrv. kemur það fram, að í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi er ekki gert ráð fyrir, að erlendir ríkisborgarar fari með nema 20% atkv. á hluthafafundum. Ákvæðin, eins og þau liggja fyrir í þessu stjórnarfrv., eru því miklum mun hagstæðari útlendingum en gert er ráð fyrir í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

Ég tel ástæðulaust að orðlengja um þetta mál. Afstaða Alþb. er óbreytt. Við teljum, að með þjóð, sem er 20—30 sinnum fámennari en nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum, sé enn ríkari ástæða til varkárni. Og við teljum þess vegna, að þau ákvæði eigi að setja í frv., að allt hlutafé skuli vera í eigu íslenzkra ríkisborgara og Íslendingar fara með öll atkv. á hluthafafundum.

Eins og kunnugt er, gilda þau lög í okkar landi, að ekki má selja nokkra landspildu úr eigu ríkisins, nema um það sé fjallað við 6 umr. á Alþingi. Skiptir þá engu, hvort um er að ræða blómlega jörð eða örreytiskot í útkjálkabyggð. Að sjálfsögðu er miklu ríkari ástæða til að fjalla á Alþingi um það hverju sinni, er hleypa á erlendum auðmönnum inn í íslenzk hlutafélög. Það getur í einstaka tilfelli verið nauðsynlegt af ýmsum ástæðum, t.d. vegna markaðsmála, og þá er hægt að veita slíka heimild eftir athugun og umr. hér á Alþingi.

Þessa dagana hafa stjórnarflokkarnir í undirbúningi að leyfa erlendum auðmönnum að reisa stóriðjuver á Íslandi. Ýmsir sérfræðingar ríkisstj. hafa ekki farið neitt dult með, að þetta risafyrirtæki eigi að ryðja brautina fyrir erlenda suðmenn í íslenzkum atvinnuvegum. Það skal viðurkennt, að oft láta íslenzkir fjármagnseigendur stjórnast af ýmsum annarlegum sjónarmiðum, jafnvel eiginhagsmunum, en þeir eru þó þrátt fyrir allt ríkisborgarar þessa lands og hafa því beinan og óbeinan hag af vexti og viðgangi íslenzkra atvinnuvega. Íslenzkir hagsmunir eru yfirleitt þeirra hagsmunir af ýmsum ástæðum, bæði fjárhagslegum, síðferðilegum og tilfinningalegum. Hins vegar gegnir allt öðru málí um alþjóðlegt auðmagn. Það er varhugavert, vegna þess að það spyr ekki um íslenzka hagsmuni, hag þjóðarinnar. Þess er ekki að vænta, að íslenzkir atvinnurekendur yrðu þjóðlegri í hugsun eða athöfn við að blanda blóði við erlent auðmagn.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni. Málið fer nú til nefndar, og fyllsta ástæða er til að vona, að hv. nefndarmenn, sérstaklega úr hópi ríkisstjórnarflokkanna, taki þessar aths. til greina. Ríkisstj. hefur sýnt nokkra viðleitni í þá átt, eins og glöggt kemur fram af þessu frv., en þar eru ýmsar breytingar til bóta frá því, sem var í fyrra. Ég vona sem sagt, að ríkisstj. fáist til að takmarka enn frekar rétt útlendinga til þátttöku í íslenzkum hlutafélögum, og einnig, að undanþáguheimild ráðh. verði allmiklu meira takmörkuð en þarna er gert ráð fyrir.